Þetta er aldeilis stórkostleg lausn eða þannig. Foreldrar krakka sem vilja taka þátt í þessum jackass-leik sem busavígslur eru þurfa semsagt annaðhvort að gefa það skriflegt að þeir samþykki  ofbeldisleik eða þá að taka fram fyrir hendurnar á hálffullorðnu fólki með þeirri niðurlægingu sem það hefur í för með sér fyrir unglinginn.

Afsakið en hvenær féllu landslög úr gildi á skólalóðinni? Þetta er þeórískt séð ofboðslega einfalt, ef einhver vill ekki láta tollera sig, baða sig upp úr slori eða kasta í sig skyri, þá heitir slík meðferð líkamsárás og er refsiverður glæpur. Og fólk á ekki að þurfa að frábiðja sér ofbeldi í skólanum.

Vandamálið er hinsvegar að busavígslur nútímans eru allavega að nafninu til leikur. Ofbeldisleikur, en engu að síður leikur þar sem böðullinn telur sig hafa samþykki þolandans. Það má sannarlega deila um það hversu geðslegir yfirvaldsleikir eru en busavígsla er í raun lögguleikur fyrir unglinga. Hluti nemenda mun síðar velja sér störf sem einkennast af  yfirráðum og ofbeldi. Sumir munu verða fyrir ofbeldi af hálfu þeirra sem hafa lögvarinn rétt til að beita því. Það er ekki við öðru að búast en að ógeðsleg samfélög ali af sér ógeðslega leiki svo hvað erum við að setja okkur á háan hest á meðan við berum ekki gæfu til að uppræta ofbeldisstofnanir ríkisvaldsins?

Ef vel tekst til er busavígsla leikur þar sem sköpuð er fölsk hugmynd um ofbeldi og yfirráð. Samþykkið er yfirleitt þögult og nýneminn leggur sig jafnvel fram um að leyna því að hann hafi lúmskt gaman af leiknum. Hversu ruddalega meðferð sem nýneminn hlýtur er samt ekki rétt að flokka hana sem ofbeldi ef hann er samþykkur, hvort sem ástæðan fyrir þöglu samþykki hans er löngun til að falla í hópinn eða ánægjan af því að vera baðaður upp úr slori. Nýneminn gæti auðvitað sleppt því að mæta (er ekki örugglega búið að afnema þá venju að hrekkja þá sem mæta ekki bara síðar?) en honum ber skylda til að mæta í skólann og ef hann vill taka þátt þá getur hann látist vera óviljugur og skýlt sér á bak við mætingaskylduna. Vandinn er að hluta sá að böðlar og nýnemar þekkjast sjaldan nógu vel til þess að böðullinn sé raunverulega fær um að meta það hvenær nei þýðir nei og hvenær það er hluti af leiknum.

Vonandi gera flestir framhaldsskólanemar greinarmun á ofbeldisleik og raunverulegu ofbeldi en þar á milli er fín lína og hún verður ekki dregin með samþykki foreldra. Eðlilegra væri að nýneminn óskaði eftir þessari meðferð skriflega. Þar með væri leikurinn auðvitað ónýtur, þar sem hann byggist á hugmyndinni um yfirráð og undirokun sem er annað en hugmyndin um drottnun og undirgefni. Sá sem er undirgefinn vill hlýða húsbónda sínum, sá undirokaði þráir að losna. Ef nýneminn samþykkir meðferðina opinskátt þá er hann að gefa sig böðlinum á vald og það er bara ekki hugmyndin á bak við busavíglsur.

Það er ekki lýðræðislegt að banna busavíglur því þær eru hugsaðar sem leikur. Það er hinsvegar hægt að úthýsa þeim af skólalóðinni að sjálfsögðu á þeirri forsendu að ofbeldisleikur geti auðveldlega farið úr böndunum og orðið að raunverulegu ofbeldi og að nemendur eigi ekki að þurfa að afþakka ofbeldi. Böðlar yrðu þá bara að skora á busa að mæta sér á öðrum stað og tíma. Þar sem ekkert lögboðið yfirvald skyldar nýnemann til að mæta á staðinn væri það að bregðast við kallinu í sjálfu sér viðurkenning þess að businn væri tilbúinn til að gangast undir vígsluna.  Kannski væri líka hægt að nota öryggisorð. Þar með hefði eðli busavígslunnar breyst. En kannski væri það bara ágætt.

Mynd: Rúnar Gunnarsson, flickr