Einhver umræddasti viðburður ágústmánaðar voru blæðingar Hildar Lilliendahl. Eða öllu heldur sá fáheyrði atburður að hún skyldi segja frá því opinberlega að hún hefði blæðingar og birta mynd af blóðugum plastpoka því til staðfestingar að henni þætti í lagi að tala um það.
Ég hef reyndar ekki trú á því að heilbrigðiskerfið stæði á öndinni af hrifningu ef karlmenn hefðu tíðablæðingar, allavega sé ég ekki að líkamsstarfsemi og kvillar karla fái neitt meiri eða jákvæðari athygli en líkamsstarfsemi kvenna. Ég hef samt velt því fyrir mér (og skrifað um) hvernig standi á því að lífsvökvunum blóði og sæði sé gert svo mishátt undir höfði. Eflaust eru til klámmyndir þar sem karl makar tíðablóði yfir brjóst sitt og andlit með velþóknun en það er fljótlegra að finna mynd þar sem kona baðar sig upp úr sæði. Ef til vill er skýringin á óhreinleika blóðsins að nokkru leyti sú að tíðablóð hefur væntanlega verið fremur ókræsileg sýklafæða í eyðimerkurhitanum á tímum Móse. Vatn af skornum skammti og vængjuð always ultra bindi bara ekki til.
Jaðarsett umræðuefni
Það er rétt hjá Hildi að blæðingar eru jaðarsett umræðuefni, enda stóð ekki á viðbrögðunum. Einhverjar mannvitsbrekkur afgreiddu pistilinn með hinni alræmdu athyglissýki sem ávallt er handhæg skýring þegar einhver segir eitthvað óþægilegt, ekki síst ef það er kona sem á í hlut. Aðrir þ.á.m. ég sjálf, bentu á að líkamsvessar og líkamsstarfsemi sé umræðuefni sem almennt sé talið til einkamála. Karlar ræða ekki risvandamál sín í félagahópnum í fjölskylduboðum eða á kaffistofunni. (Ég hélt satt að segja að karlmenn ræddu risvandamál sjaldan sín á milli. Arngrímur Vídalín leiðrétti það við mig en þetta mun víst vera eðlilegt umræðuefni meðal ungra karla í dag, og kann ég honum bestu þakkir fyrir upplýsingarnar.) Nú má með sanni segja að blæðingar séu eðilileg líkamsstarfsemi og því ekki sambærilegar við vandamál á borð við ristruflanir en hægðir og þvaglát eru líka eðlileg líkamsstarfsemi sem við ræðum þó ekki við hvern sem er. Eða hafið þið kannski orðið vitni að því að samstarfsmaður mæti á kaffistofuna og segi sögu á þessa leið:
Ég lenti í kúkaveseni núna áðan. Var í strætó og þurfi svo mikið að létta á mér að ég var hreinlega farinn að strúta hann. Svo þegar ég komst loksins á klósettið var enginn pappír þar en þetta var svona frekar blautur og klesstur kúkur svo ég var alveg í vandræðum. Gumsið klístraðist svo í rasshárin svo núna er ég bara svo klepraður að ég held að neyðist til að fara heim og skipta um brækur. Finniði ekki lyktina af mér?
Nei, líklega hafa fáir heyrt svona ræðu á kaffistofunni. Og þó … ég hef heyrt nokkuð í þessa veru en aðeins frá karlmanni sem er að reyna að ganga fram af félögum sínum með gróteskum húmor.
Það er rétt hjá henni Hildi að líkamsstarfsemi kvenna er meira tabú en líkamsstarfssemi karla. Hljóð og þefur sem fylgir starfsemi líkamans er eitthvað sem við tengjum við frumstætt eðli og hvernig sem á því stendur leyfist karlmönnum frekar að vera dýrslegir. Konur prumpa ekki, ropa, hrjóta eða gera neitt annað ósmekklegt. Konur anga ekki af táfýlu. Ef kona finnur táfýlu af sjálfri sér þá flýtir hún sér að þvo sér og skipta um sokka. Konur kúka ekki. Og ef þær neyðast til þess þá kúka þær bara hreinum, hvítum kúk.
Á miðöldum deildu menn um það hvort jómfrú María hefði haft á klæðum eður ei. Einhverntíma heyrði ég sögu af kirkjuþingi þar sem tekist var á um það hvort hin heilaga mær hefði borðað og þ.a.l. kúkað. Ég veit ekki hvort það er rétt, allavega hef ég ekki fundið heimildir um þetta þing en víst er að skortur á heilbrigðri líkamsstarfsemi var talinn einkenna helgar konur. Mikill heilagleiki var nátengdur meinlætalifnaði og helgi kvenna fólst ekki aðeins í meinlætinu sjálfu heldur var meinlætalifnaðurinn hreinsandi fyrir líkamann. Konur sem borða ekki hafa ekki blæðingar. Þær kúka ekki heldur, ekki einu sinni hreinum, hvítum kúk. Sumir töldu jafnvel að heilagar konur svitnuðu ekki. Eflaust eru til álíka spekúlasjónir um líkamlegan hreinleika helgra karla en þær eru allavega ekki jafn áberandi. Það er dálítið athyglisvert að skoða netsíður pro ana hreyfingarinnar (það eru ungar stúlkur sem líta á öfgafulla megrun sem lífsstíl en ekki geðsjúkdóm) en þar koma fram svipuð viðhorf til líkamans. Bein eru hrein og fögur. Svelti er göfugt því það hreinsar líkamann af viðbjóðslegri fitu og öðrum næringarefnum. Stuðningshópurinn óskar ana-stúlku til hamingju þegar sveltið leiðir til þess að blæðingar falla niður.
Eru tíðahvörf líka tabú?
Mér finnst ekkert stórkostlegt vandamál að eðlileg virkni líkamans þyki grótesk og þótt konum leyfist enn síður að prumpa en körlum, og þótt fáar konur skilji blóðug tíðabindi eftir á glámbekk, tel ég það ekki til brýnustu jafnréttismála að breyta því. Engu að síður er vissulega áhugavert að velta því fyrir sér hversvegna frásögn af jafn hversdagslegum viðburði og óvæntum tíðablæðingum vekur svo sterk viðbrögð. Eru það líkamsvessar almennt, tíðablóðið sem slíkt eða bara það að feministi skuli tjá sig um það, sem gengur svona fram af fólki? Ég er bara ekki viss.
Annars rann það upp fyrir mér fyrir nokkrum vikum að til er kvennamál sem er meira tabú en fæðingar og blæðingar samanlagt. Nefnilega breytingaskeið kvenna. Ég hef samtals einu sinni heyrt konu tjá sig um sitt eigið breytingaskeið og það var undir fjögur augu. Ætli konur um fertugt viti almennt eitthvað um breytingaskeiðið annað en að blæðingar falla niður og hitakóf eru algeng?
Blæðingar eru að einhverju leyti tabú. Af því að þær minna okkur á að við erum líkamleg (og þar með syndug) og hugsanlega að einhverju leyti af því að þær tilheyra því kyninu sem stendur ekki undir væntingum um hreinleika líkamans. Á breytingaskeiðinu bætist enn ein breytan við. Þetta hræðilega fyrirbæri, hrörnun. Ung kona á túr er kannski frekar ógeðsleg en blæðingar standa þó ekki nema fjóra daga að jafnaði og að þeim loknum er hún aftur hrein og ilmandi og prumpar hvorki né hrýtur. Við tíðahvörf verður hún ekki hrein, eins og hinar fastandi meyjar miðalda urðu þegar blæðingar féllu niður vegna næringarskorts. Tíðahvörfin stafa ekki af heilögu líferni hennar, heldur af hrörnun. Og það er bara ekki geðslegt umræðuefni.