Þykja þér tíðablæðingar kvenna ógeðslegar? Finnurðu lykina af mér? Finnst þér ég óhrein? Myndirðu forðast að hafa mök við mig meðan á blæðingum stendur? spurði ég og púkinn á fjósbitanum glotti. Spurningin er óþægileg, eins og spurningar um eðli mannsins eru svo oft. Fátt veitir mér meiri ánægju en að engjast undan óþægilegum spurningum og bíta í mig kjark til að svara þeim og það að setja aðra í sömu aðstöðu er líka bráðskemmtilegt. Það bara dregur svo úr firringunni að vita að til sé fólk sem er tilbúið til að leggja tepruskapinn í sér til hliðar og horfa grímulaust á manneskjuna og heiminn.

Eru blæðingar ógeðslegar? Já, eiginlega eru þær það. Allavega segja biblíuritarar og dömubindaauglýsendur það og ef þær væru það ekki myndum við ekki leggja okkur fram um að leyna þeim. Ég, sem almennt legg dálítið upp úr því að samþykkja bara það sem ég ræð ekki við í eigin fari, vef bindi eða tappa í pappír áður en ég hendi þeim og ég gat ekki hugsað mér að taka blóðugar nærbuxur með mér í gegnum flugvöllinn í Ísrael, vitandi af möguleikanum á því að allt yrði tætt upp úr töskunum fyrir allra augum. Hversu meðvituð sem ég er um að blæðingar séu merki um heilbrigði, hlýt ég því líka að horfast í augu við að ég er á einhvern hátt viðkvæm fyrir hugmyndinni um að þær séu sóðalegar.

Þegar allt kemur til alls er eðlileg líkamsstarfsemi í ýmsu samhengi ógeðsleg. Hor og hægðir eru eðlileg líkamsstarfsemi en engu að síður eitthvað sem maður vill síður velta sér upp úr. (Reyndar má segja það sama um mannshugann, þar fer ýmislegt fram sem fæstir bera á torg og þeir sem það gera þykja gjarnan hinar mestu subbur.) Það sama gildir um tíðablóð og aðra líkamsvessa, flestum þykja blæðingar hvimleiður fylgikvilli góðrar heilsu, og þótt margir lendi líka einhverntíma í því að bíða þeirra með óþreyju, þá er það af allt öðrum ástæðum en því að það sé svo æðislegt að klína blóði á hörund og í rúmfötin.

Ég hef velt því fyrir mér hversvegna svo ólík afstaða virðist ríkjandi til lífsvökvanna, blóðs og sæðis. Ég hef ekki víðtæka reynslu af klámi en ég hef þó lesið lýsingar og séð bæði ljósmyndir og kvikmyndir, þar sem karl gluðar sæði yfir kvið, brjóst og jafnvel andlit ástkonu sinnar, sem tekur á móti með nautnastunum, líkt og um dýrindis húðsmyrsl væri að ræða. Ég dreg að vísu heimildagildi slíkra menningarafreka í efa, enda væri sjálfsagt einhver snillingurinn löngu búinn að tappa dýrindi sínu á flöskur og selja gegn háu verði í snyrtivörubúðum ef konur væru almennt svona hrifnar af því að smyrja því yfir sig. Á hinn bóginn vekur það athygli mína að ég hef aldrei séð erótíska mynd eða lesið sögu þar sem kona seytir blóði yfir líkama og andlit karlmanns honum til nautnar. Ég reikna með að slíkt sé til, en sæðisdýrkun er án nokkurs vafa vinsælla viðfangsefni í klámbransanum og já, mér finnst það merkilegt. Held að skýringin sé sú að klámframleiðendur og -neytendur eru að meirihluta karlmenn og þeir hafa kannski einhverja þörf fyrir viðurkenningu á því sem gerir þá að karlmönnum, líka því sem er ógeðfellt.

Er sæði þá ógeðslegt? Já, eiginlega. Á sama hátt og blóð. Eðlileg líkamsstarfsemi, og ég reikna með að mér þætti með tímanum eitthvað vanta ef ég væri með manni sem framleiddi ekki sæðisvökva, en samt sem áður eitthvað sem getur orðið óþægilegt og maður vill helst umgangast með ákveðinni varúð og hreinlæti.

Já, blóð er ógeðslegt í eðli sínu, en það er líka manneskjan sjálf og við komumst ekki undan okkar eigin ógeðsleika. Einu sinni upplifði ég nokkurra mánaða skeið þar sem mér blæddi að því marki að ég var farin að halda að Al Qaida hefði villst á dýrðinni á mér og helli sínum. Á því tímabili hef’ði almennilegt falleríi leitt til þess að heilbrigðiseftirlitið hefði innsiglað húsið og tilhugsunin um að Heiðar snyrtir og konan með loðnu gúmíhanskana yrðu fengin til koma heimilinu í íbúðarhæft ástand, dugði til þess að drepa áhugann í bili. Undir venjulegum kringumstæðum hindrar blóð mig þó ekki í því að krefjast þess að karlmaður sinni mér. Enginn þeirra manna sem mér hefur þótt vænt um hefur hafnað mér út á það og hafi blóðið angrað þá hafa þeir sýnt þá háttvísi að láta það ekki í ljós. Enda mætti sá maður nú fljótlega róa sem gæfi tepruskap sínum meira vægi en lostanum í mér.

Let’s face it strákar, sæðisblæti er áreiðanlega til eins og hver önnur sérviska en almenna reglan er sú að sæði er ekkert æði, ekki frekar en blóð. Ef kona skrækir af nautn þegar þú gumsar yfir andlitið á henni felst nautn hennar sennilega fremur í hugmyndinni um að þóknast þér en því að hún sé svo hrifin af barnaefninu úr þér eða hefur hún kannski beðið þig að safna í krukkur fyrir sig svo hún geti notað það sem andlitskrem?

Og bragðið, my ass. Ég hef heyrt menn lýsa því yfir að þeim þyki píkur bragðast vel. Sé í anda að einhver ykkar myndi gúlla í sig snakki með píkubragði, yfir fótboltanum. Ef mér þætti sæði bragðgott, myndi ég baka köku með sæðiskremi. Markaðssetja súkkulaði með sæðisfyllingu. Eigum við að prófa að bera slíkt á borð í kerlingasamkvæmi? Ætli marengsinn gengi ekki betur út. Já og ef lyktin af því væri indæl myndu húðsnyrtivörur ekki anga af kókoshnetum, blómum og ávöxtum, heldur af sæði en sorrý Sveinn, það er bara ekki þannig.

Jamm, það er ógeð allt þetta blóð og sæði. Rétt eins og hugur þinn. Rétt eins og púkinn sem knýr mig til að setja fram spurningar sem reka kúststöft af alefli upp í margt teprurassgatið, mér og púkanum báðum til áægjuglotts, gott ef ég fæ ekki ákveðið páerkikk út úr því að koma smáborgurum svo auðveldlega í uppnám. Jamm það er ógeð en engu að síður kippi ég mér ekki upp við sæði í réttu samhengi. Ef við þekkjumst á annað borð nógu vel til að hafa mök án þess að nota smokk, get ég jafnvel sýnt ákveðna velþóknun á sæði þínu. Æ elskan, þú mátt sulla því yfir mig ef þú færð kikk út úr því, ég tek því sem merki um ákveðna sjálfsdýrkun fremur en að ég haldi að þú viljir niðurlægja mig með því. Já og ef það gleður þig skal ég m.a.s. skrækja og stynja þér til samlætis, smávegis leikaraskapur á ekkert skylt við óheiðarleika. Ef mér þykir vænt um þig, máttu alveg halda að ég dýrki hvert einasta karlhormón í skrokknum á þér, og sennilega geri ég það líka -svo langt sem það nær.

Mannlegt eðli er gróteskt. Og já, maður krefst ákveðinnar tillitssemi. Blóð, saur og sæði er ekki stofuprýði. Reyndar í öllu tilliti einkamál, eitthvað sem maður vill undir flestum kringumstæðum dylja. Rétt eins og ég vil síður að þú úthellir öllum þínum innstu hjartans hugrenningum yfir forelda mína í matarboði, þótt ég vilji gjarnan heyra margt af því undir fjögur. Gróteskt já, þessvegna skil ég ekki notuð bindi eftir á glámbekk, það væri subbulegt. En á hinn bóginn er líkamlegur úrgangur ekki sóðalegur fyrr en hann lendir í röngu samhengi. T.d. hugsar maður ekki um hægðir ungbarns sem eitthvað sóðalegt, þær eru bara líkamsstarfsemi, eitthvað sem þarf að umgangast með ákveðinni varúð. Eins og blóð. Eins og sæði. Það heilbrigða er jafnframt ógeðfellt, og ógeðsleikinn ræðst af samhenginu. Það er á einhvern hátt fagurt.

Elska ég sæði þitt? Nei, ekki sem slíkt. Ekki fremur en þú elskar tíðablóð. Mig langar ekkert að eiga það á krukku. En í réttu samhengi tek ég því með ákveðinni velþóknun, eins og öllu öðru sem gerir þig að því sem þú ert. Ég samþykki það, ekki af því að það sé svo geðslegt í sjálfu sér, heldur af því að það tilheyrir þér sem manneskju. Af því að það sem gerir fólk að fólki, einkum og sér í lagi fólk sem manni þykir vænt um, er einhvernveginn hafið yfir hugmyndina um sóðaskap.