Ég skil vel það viðhorf að menn eigi ekki að spila með landsliði á meðan ásakanir um kynferðisbrot og önnur ofbeldisverk eru til skoðunar. En mér finnst undarlegt að kynferðisbrot og ofbeldi karla gegn konum séu einu brotin sem raunverulega misbjóða fólki.

Á sama tíma er starfandi læknir, að vísu með takmarkað starfsleyfi, sem er til lögreglurannsóknar vegna gruns um alvarleg brot í starfi gagnvart fjölda sjúklinga, m.a. að hafa átt þátt í dauða einhverra þeirra. Hvorki internetið né Ríkisútvarpið hafa gert það að neinu stórmáli. Enginn hefur stillt Landlækni upp við vegg og krafist svara um það hvernig það samræmist sjónarmiðum um öryggi sjúklinga og heiður læknastéttarinnar að læknir sé við störf þegar þannig stendur á. Enginn hefur spurt ráðherra hvort standi til að setja lög sem komi í veg fyrir slíkt í framtíðinni. Enginn hefur spurt yfirmenn læknisins á Landspítalanum hvernig þeim sjúklingum sem viðkomandi læknir er að krukka í líði.

Ég sé heldur ekkert fjölmilðafár vegna konunnar sem kafnaði á geðdeild fyrir skömmu en samkvæmt fréttum RÚV er mál hennar rannsakað sem manndráp. Það var ekki bara konan sem kafnaði heldur kafnaði fréttin af örlögum hennar í fréttum af KSÍ. Ég veit ekki hvort sá starfsmaður sem liggur undir grun er starfandi í dag, enda er enginn að fylgjast með tittlingaskít eins og manndrápum á vegum hins opinbera þegar kynferðisbrot eru í boði.

Ef þáverandi yfirlækir HSS hefði leitað á móður mína kynferðislega væri hann sennilega ekki við störf í dag. En hann er ekki grunaður um neitt í þá veru og aðeins fáar vikur þar til hann getur sótt um fullt lækningaleyfi á ný. Það verður áhugavert að sjá hvort hann verður talinn uppfylla skilyrðin.