Ný lög gengin í gildi. Lög um að menn sem gauka peningum eða öðrum verðmætum að hjásvæfum sínum skuli teljast ofbeldismenn og glæponar. Lög sem sett eru til verndar konum í kynlífsþjónustu. Ekki til verndar þrælum, því áður voru í gildi lög gegn þrælahaldi og ofbeldi (hversvegna í fjandanum er þeim ekki framfylgt?), heldur til verndar konum sem stunda þessi störf sjálfviljugar og kæra sig ekkert um björgunaraðgerðir.
Ekkert samráð við þá sem á að vernda
Enginn starfandi klámmyndaleikari var hafður með í ráðum við mótun laganna eða einu sinni spurður álits. Engin nektardansmær og engin vændiskona heldur, hvað þá að leitað hafi verið álits hjá nokkrum atvinnurekanda í þessum geira. Hugmyndin er væntanlega sú að allt fólk sem vinnur slík störf sé of sjúkt til að eiga rétt á því að hafa skoðun. Ekki er þó dómgreind þessara sömu kvenna (jájá, það eu líka 2 karlar höfum þá með) dregin í efa þegar þær ráða sig í vinnu við hreingerningar eða umönnun, því merkilegt nokk þá hefur það aldrei neitt með sjálfsmynd eða sjálfsvirðingu að gera þegar konur sætta sig við óþrifastörf og erfiðisvinnu fyrir lúsarlaun. Eina fólkið sem hefur komið nálægt kynlífsþjónustu sem hefur eitthvað haft um þessi lög að segja eru fórnarlömb ofbeldis og fíkniefna. Mikið vildi ég að sömu vinnubrögð yrðu höfð uppi þegar réttmæti áliðnaðarins eru metin.
Tvískinnungurinn
Í umræðunni togast á goðsögnin um hamingjusömu hóruna og goðsögnin um viljalausa fórnarlambið. Andstæðingar laganna bulla um ‘elstu atvinnugrein í heimi’, rétt eins og einhver helgi hvíli yfir aldri atvinnugreina. Ætli þetta sama fólk styðji rán og þrælahald á sömu forsendu? Þeir sem eru fylgjandi því að gera kynlífsþjónustukaup að glæp, gaspra svo um að vændi sé ‘ekki atvinna heldur ofbeldi’ og skýra það með því að það sé í eðli sínu ofbeldi að greiða fyrir ‘afnot’ af líkama annarrar manneskju. Sama fólk leggst af þó ekki gegn líkamlegri erfiðisvinnu á sömu forsendum og af einhverjum óskiljanlegum ástæðum hættir hlutgervingin, virðingarleysið og ástleysið að flokkast sem ofbeldi þegar engin greiðsla kemur fyrir hóriríið nema þá e.t.v. í formi áfengis.
Vændi er atvinnugrein
Vændi er vissulega atvinnugrein eins og hver önnur þjónusta sem fólk þiggur greiðslu fyrir. Víst er að marga svíður i dónaskapinn við þá tilhugsun að til séu konur sem stunda ástlaus kynmök úti um allar koppagrundir en sorrý Stína, lauslæti er bara þó nokkuð útbreidd hegðun. Til eru konur sem sjálfviljugar stunda kynlíf með körlum sem þær hafa engan áhuga á að eyða lífinu með og mér og fleiri ýlandi dræsum finnst að ykkur, hinum siðprúðu, heilbrigðu, pólitískt rétthugsandi og réttríðandi, komi það bara ekki rassgat við, hverjum við sængum hjá eða á hvaða forsendum.
Frjálslyndið hér á landi er reyndar svo áberandi að fyrir nokkrum árum markaðsetti tiltekið fyrirtæki okkur íslenskar konur sem fríhórur undir slagorðinu ‘dirty weekend’. Vakti það að vonum litla hrifningu en bara það að einhver skuli hafa leyft sér þetta, segir kannski eilítið um afstöðu þjóðarsálarinnar til skyndikynna. Þetta hefði varla gerst í landi þar sem konur ganga almennt í síðum kjólum hnepptum upp í háls og missa meydóminn á brúðkaupsnóttina. Það verður að teljast hæpið, m.a.s. afar hæpið að þorri íslenskra kvenna setji samasammerki milli ástlauss kynlífs og ofbeldis.
Vannýtt auðlind
Vinkona mín ein gengur svo langt að fullyrða að lauslæti íslenskra kvenna sé ‘vannýtt náttúruauðlind’. Samkvæmt þeirri undarlegu hugmyndafræði að allar náttúruauðlindir beri að nýta, má því hugleiða hvort við ættum ekki frekar að fara algerlega öfuga leið við Svía. Skilgreina allt ástlaust kynlíf sem framið er með upplýstu samþykki allra aðila sem þjónustu, og sekta hvern þann karlmann sem fer heim með konu án þess að borga fyrir sig. Það má svo ná inn skatttekjum með því einfaldlega að endurgreiða kúnnanum vaskinn en það ætti að letja til nótulausra viðskipta. Nú ef einhver kýs frekar að starfa sem fríhóra, þá er svosem ekkert sem bannar það en því ekki að nota þessa ágætu leið til að létta á atvinnuleysistryggingasjóði þegar nokkuð hátt hlutfall okkar er síríðandi hvort sem er?
Ég held að þessi leið ætti að gleðja mjög marga. Með þessari aðferð yrði ‘allt upp á borðinu’ en gegnsæi er eitt af vinsælustu orðum kosningabaráttunnar. Það væri bara á hreinu að hver sú kona sem stundar ástlaust kynlíf er hóra (fríhóra, okurhóra eða eitthvað þar á milli) og hver sá karlmaður sem það gerir hórþegi. Þeir sem kæra sig kollótta um slíka stimpla geta því verið hamingjusamir í sínum hórdómi. Sé kona hinsvegar ekki til í þann stimpil þarf hún bara vessgú að krossleggja fætur og standa föst á því að hún sé ‘engin hóra’. Á sama hátt þarf karl sem ekki vill teljast hórþegi að hemja fýsn sína þar til ást, virðing og ævarandi tryggð hefur verið staðfest.
Sér einhver eitthvað sérstakt sem mælir á móti því að reyna þetta?