Ef þetta er eðlileg skilgreining á mansali, þá var Ásta Geirsdóttir föðursystir mín líka fórnarlamb mansals á meðan hún bjó á Borgarfirði eystra. Hún átti ekki kost á neinni vinnu nema í frystihúsinu og leiddist því út í fiskverkun. Henni þótti það ekkert skemmtilegt og það var vond lykt af henni þegar hún kom heim. Og fokk, var hún arðrænd, ójá. Allt löglegt að sjálfsögðu. Þrælahald er nefnilega í lagi ef það er löglegt.

Ef þetta er mansal þá var Angesjenka, pólsk stúlka sem vann hér ólöglega við hótelþrif fyrir nokkrum árum, einnig fórnarlamb mansals. Hún fékk þær upplýsingar hjá vinnuveitandanum að hann myndi redda henni atvinnuleyfi eftir að hún kæmi, þannig væru hlutirnir gerðir á Íslandi. Hún fékk aldrei atvinnuleyfið. Hún vann á unglingataxta og hluti af hennar ólöglega ráðningarsamningi hljóðaði upp á að hún hefði viðveru á hótelinu milli 11 á kvöldin og 7 á morgnana, hvort sem hún var á vakt eða ekki. Ferðafrelsi hvað?

Ég er ekki að segja að þessi skilgreining kunni ekki að eiga rétt á sér en ef manneskja verður þræll við það að taka eina starfinu sem er í boði eða við að vinna hjá vinnuveitanda sem brýtur gegn réttindum starfsmanna, þá þarf að taka til á fleiri stöðum en hjá Geira gullrassi. Ekki svo að skilja að ég sé eitthvað hrifnari af honum en öðrum mafíósum sem moka inn pening með því að láta aðra vinna störf sem þeir hafa aldrei sinnt sjálfir.

Ég vildi gjarnan sjá tiltekt í sem flestum stórfyrirtækjum, hvort sem þau gera út á kynhvötina, áfengsfíkn, hernaðarbrölt eða ímyndaða þörf mannsins fyrir hvers kyns drasl. Í mínum huga merkir þrældómur þó samt sem áður það að vera neyddur undir vald einhvers annars. Þræll getur ekki bara rölt sig niður í Alþjóðahús og fengið aðstoð. Vera kann að margar stúlkur séu tældar hingað á fölskum forsendum og gerðar út til kynlífsþjónustu gegn vilja sínum og er það skítt en hvorttveggja er auk þess saknæmt. Það er m.a.s. saknæmt að gera annað fólk út til kynlífsþjónustu með fullu samþykki þess. Hvernig í fjandanum stendur á því að þessum lögum er ekki framfylgt? Og til hvers er verið að setja fleiri lög sem gera stöðu þessarra kvenna mun erfiðari, í stað þessað ríkið sýni þá döngun að uppræta meinta mafíustarfsemi?

Ef nýju lögin ná framað ganga munu þau gera erlendum vændiskonum endanlega ófært að verða sér úti um viðskiptavini nema með milligöngu einhvers sem þekkir til hér og hefur sambönd í undirheimum. Rétt eins og vændiskonur í Svíþjóð munu þessar stúlkur missa þá viðskiptavini sem eru líklegastir til að virða reglur. Fautar og misyndismenn munu hinsvegar ekki láta stoppa sig. Tekjur þeirra munu einnig lækka til muna þar sem kúnninn þarf nú að taka áhættu og þær komast ekki hjá því að hafa hórmangara á bakinu. Tilgangurinn með þessum lögum er enda ekki sá að vernda mannréttindi þeirra, heldur er verið að nota mannréttindahugtakið sem yfirvarp til að setja lög um kynhegðun sem er yfirvöldum ekki að skapi. Á sama tíma og tepruskapurinn rekur yfirvöld til þess að skilgreina allar konur í kynlífsþjónustu sem fórnarlömb og sjúklinga og alla karla sem vilja sjá píkur sem glæpamenn, er flóttamönnum sem leita hingað til að forða sér frá lífsháska í heimalöndum sínum, sagt að éta það sem úti frýs. Afsakið mig meðan ég æli yfir vinstrigræna mannúðarhræsnina.

Í klám- og kynlífsgeiranum um heim allan finnast fórnarlömb. Rétt eins og í áliðnaði. Þar starfa einnig hundruð þúsunda af frjálsum vilja, rétt eins og í t.d. áliðnaði. Sumir eru sjálfstætt starfandi (ólíkt áliðnaði), aðrir vinna hjá misgeðslegum fyrirtækjum, stórum eða smáum. Sumir eru óánægðir í starfi, öðrum finnst þetta bara ágætt, rétt eins í áliðnaði. Það er ekki klám og kynlífþjónusta sem slík, sem er vandamálið, ekki frekar en áliðnaðurinn, heldur mafíumyndun og stórfyrirtækjavæðing, arðrán, spilling og valdníðsla. Upprætum þessvegna klámmafíuna. Upprætum líka Alcoa, Coca Cola og Bónusssvínin.

En fyrir alla muni hættum að leyfa ríkinu að reka fingurinn upp í hvers manns rass. Látum hóruna, nektardansmeyna og kaupmanninn á horninu í friði, sem og þeirra viðskiptavini. Fólk á nefnilega að fá að ráða því hvernig það framfleytir sér, svo fremi sem það skaðar ekki aðra. Þegar gilda í landinu lög gegn þrælahaldi og kynferðislegri kúgun. Þeir sem vilja hafa tekjur af lauslæti sínu fremur en að neyðast til að vinna hjá McDonalds, Alcoa eða öðru skítafyritæki, ættu því ekki að þurfa að berjast við björgunaraðgerðir ríkisvaldsins. Ríkisvalds sem aldrei hefur spurt viðföng þessarra björgunaraðgerða álits.