Ég held að sé heilmikið til í þessu. Launamunurinn stafar frekar af mismunandi vali (og ómeðvitaðri stýringu í kynbundnar greinar) en kerfisbundinni mismunun.

Samt ein athugasemd. Af hverju ætti að jafna þetta með því að fá fleiri konur til að velja verkfræði og fleiri karla til að vinna á leikskólum? Af hverju í fjandanum eru verkfræðingar meira metnir en ljósmæður? Við erum komin upp úr þeim þankagangi að pabbinn eigi að njóta meiri réttinda á heimilinu en mamman af því að hann lagði sig í lífshættu á sjónum á meðan hún bograði fyrir þvottalaugunum með 4 smábörn í eftirdragi. Er ekki bara kominn tími á að við göngum ögn lengra og hættum að láta eins og það sé eitthvað ómerkilegt við að sinna börnum, sjúkum og öldruðum, þrífa skítinn undan öðrum og vinna þá undirbúningsvinnu sem nauðsynleg er til að gera öðrum fært að nýta hæfileika sína?

Og annað, flest áhættusöm störf eru mestmegins mönnuð karlmönnum. Það er ekkert ósanngjarnt eða óeðlilegt við að áhætta sé metin til launa. Flest störf sem krefjast mikillar skuldbindingar eru karlastörf og það er ekkert óeðlilegt við að fólk fái umbun fyrir mikla bindingu. Sá launamunur sem skýrist af þessum þáttum er ekki ósanngjarn, ekki frekar en sá launamunur sem skýrist af lengra og erfiðara námi. Eitt hlutverk er þó flestum meira skuldbindandi og er ekki metið til launa, það er hlutverk foreldris en víðast hvar taka mæður á sig meiri bindingu gagnvart börnum en feður. Það er heldur ekkert réttlátt að líta framhjá því að við komumst ekki af án fólks sem vinnur við matvælaiðnað og þrif. Ef eitthvað væri sanngjarnt og eðlilegt við okkar hagkerfi, þá væru ríkustu menn heims þeir sem vinna við námagröft, slökkviliðsmenn og önnur áhættusöm störf sem og læknar, hjúkrunarfólk, þeir sem sinna þrifum og sorphirðu  og margra barna mæður. Það er samt ekki þannig. Þeir ríkustu eru fólk sem við gætum komist af án. Mismunin á vinnumarkaðnum er ekki aðeins bundin kyni, heldur ekki síður brjálæðislegum hugmyndum okkar um það hvað teljist virðingarvert og hvað ekki.  Og kannski er tilhneigingin til að meta manngildi fólks út frá tekjum þess ekki minna vandamál.