Stefán kveikti á útvarpinu. Lísa Páls á flakki, einmitt að hefja viðtal við jafnréttisfulltrúa HÍ. Stefán leit á mig sposkur á svip.

,,Ætli þau komist að þeirri niðurstöðu að konur séu fórnarlömb háskólans,“ sagði hann en ógeð mitt á fórnarlambsvæðingu kvenna hefur ekki farið fram hjá honum.

Mér fannst áhugavert að heyra viðtal við jafnréttisfulltrúa. Verksvið hans er ekki aðeins að gæta að jafnrétti kynjanna heldur á hann einnig að taka á málum ef mismunun viðgengst á grundvelli fötlunar, þjóðernis eða kynhneigðar. Ég velti því fyrir mér hvort fatlaðir stúdentar verði fyrir mismunun, hvort þeir jafnvel hreinlega gleymist. Hvað með erlenda stúdenta, er tekið tillit til þess að málumhverfið getur verið þeim fjötur um fót? Geta klæðskiptingar klætt sig eins og þeim sýnist án þess að fá óþægileg augnaráð? Og hvernig stendur á því að piltar sækja minna í háskólanám en stúlkur? Höfðar námið sjálft minna til pilta en stúlkna eða er eitthvað í háskólamenningunni eða menningu ungra karla sem skýrir þetta? Er einhver deild sem annað kynið virðist forðast? Er brottfall úr háskólanámi misjafnt eftir kynjum? Er verið að gera eitthvað til þess að laða karlmenn að háskólanámi?

Ég varð fyrir vonbrigðum. Ekkert af þessu var rætt. Dálítið komið inn á það að háskólamenningin sé lituð af því að hafa alla tíð verið menning hvítra, miðaldra karla en ekkert minnst á það hversvegna ungar konur virðast í þúsundatali tilbúnar til að taka þátt í þeirri menningu og aðlagast henni.  Niðurstaða viðtalsins var þessi; fólk hefur tekið fatlaða og homma í sátt (án þess að neitt sé um það fjallað) þannig að í jafnréttisumræðu í tengslum við H.Í. er það feminsminn sem er fórnarlambið.  Viðtalið við jafnréttisfulltrúa er síðast í þættinum, hefst þegar 46:34 mín eru liðnar á þáttinn.

Knúzið tekur í sama streng: Konur eru hin raunverulegu fórnarlömb karlakrísunnar. Samkvæmt þessari grein hættir „jákvæð mismunun“ að vera jákvæð ef hún er körlum í hag.

Samkvæmt skilgreiningu feministafélags Íslands er feministi sá sem skilur að enn ríkir ekki jafnrétti milli  kynjanna og vill gera eitthvað til að leiðrétta það. Þessi skilgreining er vond því hún getur átt við allt fólk sem hefur snefil af réttlætiskennd og er ekki í neinu samræmi við orðræðu, gervivísindi og framgöngu yfirlýstra feminista. Það væri allt eins hægt að skilgreina kristið fólk sem manneskjur sem telja að meiri kærleikur þyrfti að ríkja í heiminum og vilja gera eitthvað í því.

Ég sting upp á nýrri skilgreiningu á svokölluðum róttækum feminisna (sem í reynd er álíka róttækur og Framsóknarflokkurinn.) Tillaga mín er þessi:

Feminismi er trúarhreyfing fólks sem álítur að konur séu alltaf og í öllum aðstæðum fórnarlömb, sem eigi að njóta forréttinda út á það að aðrar konur hafi alla tíð og í öllum aðstæðum verið fórnarlömb. Hver sá sem ekki er sammála því er fulltrúi feðraveldisins og sennilega kynferðislega brenglaður.