Enda þótt konur lifi að jafnaði lengur en karlar, lendi síður í slysum og séu líklegri til að leita aðstoðar ef þær lenda í aðstæðum sem þær ráða ekki við, álíta margir, bæði karlar og konur, að okkur konum sé alls ekki treystandi til að taka ákvarðanir sem varða líf okkar og líkama.

Nýlega samþykkti Alþingi þingsályktun um frumvarp til laga um staðgöngumæðrun. Mér finnst út af fyrir sig merkileg hugmynd að það þurfi sérstök lög sem leyfa konum að ganga með börn fyrir aðra, ég hefði haldið að við réðum því bara án sérstakrar blessunar yfirvaldsins. Ég fellst þó á að þar sem reynsla annarra þjóða sýnir að það hvernig staðið er að staðgöngumæðrun ræður úrslitum um ánægju allra aðila, sé svosem ágætt að marka einhverja stefnu um það hvernig best sé að gera hlutina. Síðan þessi pistill var fyrst birtur hefur hið háa Alþingi svo ákveðið að setja ekki slíkar reglur heldur BANNA staðgöngumæðrun.

Rökin gegn staðgöngumæðrun

Sumir þeirra sem berjast gegn staðgöngumæðrun telja sig ekki þurfa nein rök önnur en sína eigin sannleikni. Þetta er fólk, sem í fullvissu um að það sé siðferðilega yfir aðra hafið, teflir fram rökleysum sem eiga að þagga niður í andmælandanum með því að sýna fram á lélegt siðferði hans og/eða skilningsleysi á hugtökum sem tengjast siðferði.

Mannréttindarökvillan

Eitt dæmi um sannleiknirök er mannréttindavillan. Málið er þá tengt við mannréttindi í því skyni að annaðhvort ýkja mikilvægi þess eða sýna fram á að krafan eigi ekki rétt á sér. Þegar staðgöngumæðrun er til umræðu birtist þessi villa iðulega í eftirfarandi staðhæfingu:

Það eru ekki mannréttindi að fjölga sér. Fólk sem getur ekki eignast börn, getur bara ættleitt.

Jájá, það er alveg hreint laukrétt að það eru ekki mannréttindi að fjölga sér. Það er hins vegar út í hött að ekkert eigi rétt á sér nema það sem fellur undir mannréttindahugtakið. Ef út í það er farið er æxlun heldur ekki mannréttindi þeirra sem geta eignast börn hjálparlaust. Samt dettur fáum í hug að banna fólki að eignast sín eigin börn á meðan enn eru börn í veröldinni sem vantar heimili. Þetta eru því ekki tæk rök gegn frelsi annarra til að eignast börn með hjálp konu sem er að sönnu reiðubúin til að veita þá hjálp.

Hlutgervingarrökvillan

Önnur sannleiknirök sem maður sér oft í þessari umræðu er hlutgervingarvillan. Þjónustuhlutverk er þá tengt lítilsvirðingu, í því skyni að telja viðmælandanum trú um að það sé misneyting að þiggja ákveðnar tegundir þjónustu, einkum þar sem kynferði skiptir máli. Dæmi um þetta er frekar þreytt stef af umræðuþráðum netmiðlanna;

Það er siðferðilega rangt að nota konu sem útungunarvél og hýsil fyrir barn annarra.

Sjálfri finnst mér frekar dapurlegt að sjá barnfyrirlitninguna sem opinberast í því að tala um móðurlíf sem hýsil, rétt eins og fóstrið sé einhver óværa. Ég kýs að tala um að staðgöngumæður fóstri ófædd börn annarra, enda líta þær svo á sjálfar sem og foreldrarnir sem ætla svo að sinna uppeldishlutverkinu. Hlutgervingin hér er ekki af hálfu þeirra sem vilja fóstra ófædd börn eða fá aðra konu til að fóstra barn fyrir sig, heldur af hálfu þeirra sem tala um þær konur sem hýsla eða útungunarvélar.

Flestir tefla þó fram vitrænni ummælum í bland við þessi frekjurök. Sumir óttast að staðgöngumæðrun opni leið fyrir barnasölu. Margir að með einkavæðingu kvenlíkamans, þ.e. með því að taka yfirráðarétt hans úr höndum yfirvalda og færa hann til þeirra sem búa í hverjum líkama fyrir sig, aukist hættan á því að við, hinar fávísu og undirokuðu konur, förum okkur að voða og að aðrir þvingi okkur og misnoti.



Andstæðingar staðgöngumæðrunar halda m.a. á lofti eftirfarandi staðhæfingum:

 • Engin kona gengur með barn og lætur það frá sér ótilneydd.
 • Þær konur sem segjast gera þetta af fúsum og frjálsum vilja eru raunverulega að þessu vegna fjárhagslegrar neyðar og/eða utanaðkomandi þrýstings.
 • Staðgöngumóðirin er alltaf í veikari félagsstöðu en þeir sem þiggja þjónustu hennar og þar með getur hún ekki sagt nei.
 • Fólk mun nýta sér erfiða stöðu innflytjendakvenna frá fátækum ríkjum og láta þær ganga með börn fyrir sig.
 • Iðulega koma upp deilur vegna þess að staðgöngumóðirin tengist barninu tilfinningalega og vill ekki láta það frá sér.
 • Ef barnið reynist fatlað eða veikt, er hætta á að foreldrarnir vilji það ekki og staðgöngumóðirin sitji uppi með það.
 • Staðgöngumæður glíma við langvarandi sorg og þunglyndi eftir að hafa verið neyddar til að láta frá sér barn. Sumar jafna sig aldrei.
 • Það er ekki hægt að kalla það upplýst samþykki þegar kona ákveður að ganga með barn fyrir annað fólk, af því að hormónastarfsemin breytist á meðgöngunni og konan getur því ekki sagt um það fyrirfram hvort hún mun bindast barninu tilfinningaböndum.

Ég hef ekki heyrt það í umræðunni á Íslandi en í Bandaríkjunum og Bretlandi hefur eftirfarandi líka verið haldið fram:

 • Konur sem geta hugsað sér að ganga með börn og láta þau frá sér eru kaldlyndar og varasamt að treysta því að þær standi við gerða samninga.
 • Þar sem tilgangur staðgöngumóðurinnar er sá að græða peninga, er hætta á að henni sé skítsama um fóstrið og að hegðun hennar á meðgöngutímanum sé til þess fallin að skaða það.
 • Möguleikinn á því að fá aðra konu til að sjá um meðgöngu og fæðingu, verður til þess að yfirstéttarkonur munu nýta sér þjónustu lágstéttarkvenna enda þótt þær séu færar um að eignast börn sjálfar, rétt eins og þær kaupa af þeim heimilisþrif og fótsnyrtingu.

Indlandstengingin

Ég get alveg skilið þessar áhyggjur. Sumt af því sem andstæðingar staðgöngumæðrunar óttast, á við í mjög fátækum ríkjum. Löndum eins og Indlandi, þar sem kvennakúgun er mikil og barnasala og þrælahald viðgengst án teljandi afskipta yfirvalda. Enda þótt þingsályktunartillagan snúi aðeins að staðgöngumæðrun í velgjörðaskyni, telja sumir að þar með sé verið að búa til umhverfi sem leggur blessun sína yfir viðskipti með konur og börn. Þannig að já, ég skil það.

Önnur myndin sýnir ástættanlegt kvennastarf, hin nokkurs konar ánauð


Það sem ég skil ekki er að fólk sem hefur áhyggjur af þessu, skuli ekki skoða þau gögn sem til eru og draga ályktun út frá þeim. Ég skil heldur ekki vinsældir þessarar Indlandstengingar. Engum heilvita manni dettur í hug að bera Ísland saman við Indland þegar taka á afstöðu til ættleiðinga. Á Indlandi tíðkast barnasala, það merkir ekki að ættleiðingar á Íslandi hafi leitt til slíkra viðskipta. Indland er heldur ekki það land sem við lítum til þegar við ræðum líffæragjöf því jafnvel þótt líffærasala blómstri á Indlandi fer engum sögum af því að hún tíðkist á Norðurlöndum.

Það sama má segja um staðgöngumæðrun. Indland er hreinlega ekki sambærilegt við Ísland. Ekkert af því sem hefur verið nefnt sem rök gegn staðgöngumæðrun kemur heim og saman við neina þeirra rannsókna sem gerðar hafa verið á staðgöngumæðrun í Bretlandi og Bandaríkjunum, sem er nú öllu nærtækara að bera okkur saman við.

En hvað segja gögnin?

images-2

Þeir sem hafa áhuga á að kynna sér rannsóknir á staðgöngumæðrun á Vesturlöndum geta sparað sér mikinn tíma með því að lesa ritgerð Karen Busby og Denaley Vun; Revisiting The Handmaid’s Tale: Feminist Theory Meets Empirical Research on Surrogate Mothers. Þetta er úttekt á 37 rannsóknum á staðgöngumæðrum í Bandaríkjunum, Bretlandi og Kanada sem unnar hafa verið á síðustu fjórum áratugum.

Ég er nú búin að lesa þessa ritgerð vandlega. Ég átti von á því að hugmyndir andstæðinga staðgöngumæðrunar um kúgun og hörmungar væru stórlega ýktar. Ég reiknaði fastlega með því að sumar „rannsóknir“ kynjafræðinga á staðgöngumæðrun væru vafasöm vísindi. Ég átti þó ekki von á því að nánast allt sem andstæðingar staðgöngumæðrunar hafa haldið fram væri hreinn og klár heilaspuni. Svo er þó helst að sjá því helstu niðurstöður eru þessar:


Staðgöngumæðrun er ekki þrælahald:

 • Engar vísbendingar hafa fundist um að staðgöngumæður séu þvingaðar til meðgöngu, hvorki beint né óbeint. Flestar þeirra taka það upp hjá sjálfum sér að bjóða sig fram.
 • Ekkert bendir til þess að þriðjaheimskonur séu gerðar út til meðgöngu fyrir aðra.
 • Sjaldgæft er að staðgöngumæður séu í slæmri félagslegri aðstöðu, flestar þeirra eru um þrítugt, hvítar, kristnar, giftar eða í sambúð, eiga börn fyrir og hafa þokkalegar tekjur. Í Bretlandi er lítil menntun staðgöngumæðra algeng en í Bandaríkjunum hafa flestar staðgöngumæður þokkalega menntun. Flestar umboðsskrifstofur ráða ekki konur í slæmri félagslegri stöðu og setja það sem skilyrði að konan hafi fætt barn áður.
 • Flestar staðgöngumæður eru yngri, hafa minni menntun og lægri tekjur en foreldrarnir sem kaupa þjónustu þeirra en fá ef nokkur dæmi eru um að þessi munur á félagsstöðu hafi valdið vandræðum.
 • Engin dæmi hafa fundist um að konur sem geta átt börn sjálfar, nýti sér þjónustu staðgöngumæðra.


Staðgöngumæður eru einfærar um að taka ákvörðun:

 • Mjög lágt hlutfall staðgöngumæðra sér eftir ákvörðuninni. Ef konur sjá eftir því að hafa gerst staðgöngumæður, gefa þær skýringar á borð við að þær hafi gengið í gegnum erfiða meðgöngu eða fæðingu eða átt slæm samskipti við foreldrana, en mjög sjaldan þá ástæðu að aðskilnaðurinn við barnið sé svo erfiður.
 • Margar konur ganga með börn fyrir aðra oftar en einu sinni.


Deilur um rétt til barnsins og ábyrgð á því eru sjaldgæfar:

 • Mjög sjaldgæft er að staðgöngumóðir sé treg til að láta barn frá sér.
 • Dæmi eru um að alvarlegir sjúkdómar foreldra (ekki barnsins) og önnur ófyrirséð áföll verði til þess að foreldrar fái bakþanka en það er sjaldgæft. Engin dæmi fundust um að foreldrar höfnuðu barninu af því að það væri „gallað“.
 • Sjaldgæft er að deilur eða óánægja komi upp milli staðgöngumæðra og foreldra. Í þeim fáu tilvikum sem það gerist er skýringin langoftast sú að hlutirnir voru ekki ræddir nógu vel í upphafi og síðar kom í ljós að væntingar fólksins fóru ekki saman.
 • Langoftast eru samskipti staðgöngumæðra og foreldranna góð og allir aðilar ánægðir með samstarfið, einkum þegar milligönguaðilar hvetja til mikilla og  hreinskilnislegra samskipta.


Staðgöngumæður eru ekki gallaðir karakterar:

 • Peningaþóknun er aldrei eina ástæðan og mjög sjaldan meginástæðan fyrir því að konur gerast staðgöngumæður. Flestar þeirra fara út í þetta af sömu ástæðu og fólk fer í hjúkrun eða hjálparstarf; þær líta svo á að þær séu að sinna mikilvægri samfélagsþjónustu sem gefi þeim gildi sem manneskjum. Sumar njóta þess að vera óléttar en hafa ekki áhuga á að ala upp fleiri börn.
 • Ekkert bendir til þess að staðgöngumæður séu skeytingalausar um heilbrigt líferni á meðgöngunni.
 • Staðgöngumæður eru hvorki kaldlyndar né undirgefnar en þær eiga ýmis önnur persónueinkenni sameiginleg. Þær eru að jafnaði greindari, sjálfstæðari og  frjálslyndari en meðalkonan. Þær vita hvað þær eru að gera og tengjast fóstrinu ekki sams konar tilfinningaböndum og þeim börnum sem þær hafa eignast með því markmiði að ala þau upp sjálfar.
Mynd Michiel S.


Skoðið þetta sjálf

Ég hvet þá sem óttast að lög um staðgöngumæðrun hafi í för með sér kvennakúgun og kynþáttamismunun til að lesa ritgerðina.

Og fyrir alla muni hafið í huga að „rannsóknir“ sem gerðar eru í nafni feminisma, fara þannig fram að fyrst er sett fram tilgáta sem byggist á þeirri hugmynd að konur séu alltaf í veikri stöðu, ófærar um að taka eigin ákvarðanir og í stöðugri hættu á að vera undirokaðar, kvaldar og seldar, og svo eru einstaklingar og tilvik sem styðja tilgátuna handvalin og alhæft út frá þeim. Þess háttar vinnubrögð heita kynjafræði en ekki vísindi.

Þessu tengt: