Í kjarabaráttu verður hver stétt sú mikilvægasta í veraldarsögunni og jafnframt sú vanmetnasta og sú göfugasta. Munið eftir auglýsingunni sem sýndi eymingja lömdu lögguna með búsó í bakgrunni? Jesús minn hvað löggi litli átti bágt. Mig langaði mest að hugga hann og gefa honum kjötsúpu.
Hjúkrunarfræðingar hafa ekki farið í samskonar fórnarlambsgír og löggan en þó hefur aðeins borið á umræðu um hjúkrunarfræðinga sem englum líkar verur sem eyða aðfangadagskvöldi á dánarbeði krabbameinssjúkra ættingja okkar sem við nennum ekki að heimsækja á jólunum, eða eitthvað svoleiðis. Ríkið ætti eiginlega að láta græða á þær vængi.
Mér geðjast ekki píslarhetjutaktík. Mér finnst heldur ekkert trúverðugt að 354 uppsagnir séu ekki strategía heldur fúlasta alvara. Mér finnst ekki trúverðugt að fólk sem er yfir meðallaunum hafi ekki efni á að vinna það starf sem það hefur menntað sig til; segist neyðast til að giftast til fjár eða að það geti allt eins unnið sjálfboðavinnu. Það er nefnilega fullt af fólki sem vinnur sjálfboðavinnu og myndi sannarlega muna um hálfa milljón á mánuði og í mörgum löndum neyðast konur raunverulega til að giftast til þess að hafa ofan í sig. Ef fólk sem er yfir meðallaunum hefur ekki efni á vinnunni sinni, væri þá ekki eðlilegt að helmingur þjóðarinnar segði starfi sínu lausu á sömu forsendum?
Á mikilvægi starfa að hafa áhrif á launakjör?
Þótt ég gæti ælt yfir umræðum um það hvað hjúkrunarfræðingar (eða löggur eða hvaða stétt önnur) eigi bágt, finnst mér að hjúkrunarfræðingar eigi að vera á góðum launum. Mér finnst það en ég get ekki fært nein skárri rök fyrir því en biblíuna; verður er verkamaður launa sinna og allt það. Það er bara mitt persónulega gildismat að umönnunarstörf séu mikilvægustu störf samfélagsins, bændur og sjómenn álíta sennilega að matvælaframleiðsla sé mikilvægust. Það er sömuleiðis mín persónulega skoðun að ríkið eigi að meta mikilvægi hvers starfs til launa. Ég býst við að þeir sem vinna algerlega ónauðsynleg störf séu mér ósammála.
Við getum bent á ábyrgðina sem felst í umönnunarstörfum, langa vinnuviku, álagið sem fylgir vaktavinnu, menntun, andlegt álag og örugglega eitthvað fleira. En getum við haldið því fram að laun bæti fyrir ábyrgðina eða tryggi að fólk standi betur undir ábyrgð sinni? Hvaða stéttir hafa það of náðugt í vinnunni? Er óumdeilanlegt að menntafólk eigi að hafa hærri ævitekjur en ófaglærðir? Er andlegt álag hærra að verðgildi en líkamlegt álag? Við getum bent á að ýmis karlastörf séu betur launuð en hjúkrun eða kennsla en það er ekkert gefið að kvennastéttirnar skori fleiri fórnarlambsstig ef við metum slysahættu og aðra hættu á heilsutjóni. Það þarf allavega bágari píslarhetju en hjúkku til að toppa lömdu búsáhaldalögguna.
Markaðslögmálsrökin
Fyrir utan ábyrgðina og vinnuálagið, vaktaböggið, streituna, göfuglyndið og jú neim itt, eru fjöldauppsagnir og landflótti nefnd sem rök fyrir nauðsyn þess að hækka laun hjúkrunarfræðinga. Markaðslögmálin, ríííílí? Sorrý en þeir sem nota eftirspurnarrökin í góði trú eru að daðra við viðbjóð sem heitir kapítalismi. Ef við ætlum að láta framboð og eftirspurn ráða, þá væri rökrétt að lækka laun heilbrigðisstarfsfólks. Ef reynist meiri innistæða fyrir landflóttapælingum hjúkrunarfræðinga en Björns Zoega er hægt og bjóða læknum og hjúkrunarfræðingum frá Austur Evrópu störf á Íslandi. Það er nefnilega þannig sem markaðsfrelsi virkar. Þeir sem nota eftirspurnarrökin hafa einfaldlega fallið fyrir þeirri kapítalísku lygi að þjónkun við markaðslögmálin gagnist einhverjum öðrum en valdastéttunum.
Einnig má spyrja hvaða réttlæti væri í því gagnvart þeim sem ekki eiga kost á landflótta að láta framboð og eftirspurn ráða ferð. Í gær birtist í Fréttablaðinu grein eftir táknmálstúlk sem bendir á að hvergi annarsstaðar en á Íslandi sé eftirspurn eftir íslenskum táknmálstúlkum. Væri sanngjarnt að hækka þær starfsstéttir sem geta fengið vinnu erlendis en halda þeim niðri sem hafa sérhæft sig í einhverju sem gagnast ekki annarsstaðar? Myndi það ekki leiða til þess að fáir tækju áhættu á að sérhæfa sig í hinu séríslenska?
Við getum tínt til ótal sanngirnisrök fyrir því að sú stétt sem við styðjum ætti að fá launahækkun en það er viðbúið að sú næsta sé bara ennþá göfugri, vinnusamari og verri píslum hrjáð. Á eftir hjúkrunarfræðingum koma sjúkraliðar sem verðskulda líka kjarabætur, svo þurfa kennnarar að gæta þess að dragast ekki aftur úr og þá eru allar þessar hækkanir orðar voðalega ósanngjarnar gagnvart hálaunafólki sem verður fyrir stórkostlegu áfalli ef það heldur að pöpullinn sé að narta í hælana á lúxuslífi þess. Verkföll fólks í umönnunarstörfum eru samfélaginu öllu kvíðavaldur. Þau bitna miklu verr á skjólstæðingum þess en atvinnurekandanum og sá ömurlegi píslarhetjuáróður sem dynur yfir þegar stórar stéttir eru að reyna að knýja fram samninga er niðurlægjandi fyrir þá sem reka hann og þeim til ama sem á hann hlýða.
En að afnema bara verkfallsrétt?
Hversvegna ekki að rjúfa þennan vítahring með því að afnema verkfallsrétt opinberra starfsmanna og binda öll laun þeirra við laun þingmanna? Leggja niður greiðslur fyrir „óunna yfirvinnu“ og aðrar dulbúnar launahækkanir og viðurkenna frekar að fólk verðskuldi almennileg laun fyrir þá vinnu sem það sinnir raunverulega. Hvert starf yrði metið til x% af launum þingmanns svo ef ein stétt fær launahækkun þarf að hækka allar án nokkurs samingaþvargs. Það yrði þokkalegur þrýstingur á ríkisstjórnina að tryggja stöðugleika.
Reyndar er ég ekki frá því að mætti gefa markaðslögmálinu séns en þá með því skilyrði að við byrjum í efri lögum samfélagsins. Síðasta sumar kusu Íslendingar forseta. Framboðið var sjö sinnum meira en eftirspurnin. Eftirspurn eftir Alþingismönnum er takmörkuð en framboðið gífurlegt. Ólíkt þessum störfum þarf maður að uppfylla hæfniskröfur til að eiga kost á að verða hæstaréttardómari en þar er framboðið líka meira en eftirspurnin. Hvernig væri nú að prófa að lækka laun í öllum þessum stöðum um svona helming og sjá til hvaða áhrif það hefði á framboðið? Af hverju í fjáranum halda markaðshyggjumenn ekki þeirri hugmynd á lofti? Eru markaðslögmálin kannski ekkert sniðug nema þegar valdaklíkurnar geta notfært sér þau til að græða á vesalingum? Það skyldi þó aldrei vera?