Upplýsingafundurinn vegna kórónuveirunnar í dag var að sumu leyti gagnlegur en mikilvægri spurningu er enn ósvarað; hvernig á að tryggja að ekki komi fleiri ferðamenn til landsins en svo að hægt verði að bjóða þeim öllum upp á skimun?

Ekki er langt síðan kom í ljós að yfirvöld höfðu ákveðið að opna landið og hefja umfangsmiklar skimanir á komufarþegum í samstarfi við Íslenska erfðagreiningu. Þetta var ákveðið án þess að rætt hefði verið við forsvarsmenn fyrirtæksins. Það var einfaldlega reiknað með því að Kári vildi vera memm, rétt eins og vísindamenn hafi ekkert áhugaverðara að gera en að reka pinna upp í vit ferðamanna. Og jú, þótt Kári fnæsti við fréttirnar þá lét hann nú til leiðast. Engu að síður er afkastagetan takmörkuð og nú vitum við ekki hvort hjúkrunarfræðingar verða til staðar.

Á upplýsingafundinum kom fram fyrirspurn um hugsanleg áhrif yfirvofandi verkfalls hjúkurnarfræðinga á möguleika á því að skima fyrir veirunni við komu til landsins. Nákvæm útfærsla á framkvæmdinni liggur ekki fyrir en Landlæknir sagði mögulegt verkfall vera ákveðna ógn við verkefnið. Hún ætti ekki von á því að það verði framkvæmanlegt án aðkomu hjúkrunarfræðinga. Forsætisráðherra vonar bara að samningar náist.

Við vitum semsé ekki til hvaða bragðs verður gripið ef verður af verkfalli. Stjórnvöld vita það ekki heldur. Og jafnvel þótt ekki komi til verkfalls – ef ekki verður hægt að taka fleiri en 2000 sýni á dag, hvernig á að koma í veg fyrir að 3000 manns komi til landsins daglega? Verður settur kvóti á flugfélög og ferðaþjónustufyrirtæki? Hvað með þá sem eru búnir að bóka og borga en komast ekki í skimun ef verður af verkfalli?

Forsætisráðherra hóf fundinn í dag á því að tala um að undirbúningur yrði á lokametrunum þann 15. júní – og talaði um það sem „íslensku aðferðina“. Það er ekkert sérstaklega íslenskt við það að vinna í tímaþröng og ljúka verkefnum á síðustu stundu, það gera menn um allan heim. Það sem er íslenskt við þessar fyrirætlanir er hinsvegar það að aðgerðir virðast hafa verið ákveðnar og kynntar án þess að hafa verið hugsaðar hálfa leið, hvað þá til enda.

Þetta er hin íslenska aðferð – að æða af stað án ígrundunar, án þess að hafa plan B, án þess að vita hverjir verða memm, og vona bara það besta.