Áfrýjunardómstóll í Bresku Kólumbíu komst að þeirri niðurstöðu í dag að 15 ára unglingur mætti hefja homónameðferð til kynleiðréttingar án samþykkis foreldra.
Barnið fæddist í líkama stúlku en upplifir sig sem dreng. Faðir hans hefur staðið í vegi fyrir áformum hans um að láta breyta líkama sínum en móðirin er samþykk.
Áfrýjunardómstóllinn staðfesti niðurstöðu dómara á tveimur lægri dómstigum; að eingögngu þurfi samþykki unglingsins sjálfs, ekki sé þörf á samþykki foreldra.
Í dómnum kemur fram að það samhljóða álit tveggja dómara að sú afstaða föðurins að neita að viðurkenna ákvörðun sonar síns hafi valdið drengnum umtalsverðum þjáningum og skaðað kærleikssamband foreldris og barns. Það sé drengnum ekki fyrir bestu, þvert á móti þurfi hann á stuðningi og viðurkenningu föður síns að halda.
Í dómnum segir að faðirinn hafi bæði neitað að ræða málið við heilbrigðisstarfsfólk sem fór með mál drengsins og að hlusta á hann. Þessi framganga sé líkleg til að skaða samband feðganna varanlega, sem sé drengnum heldur ekki fyrir bestu.
Dómararnir telja samt of langt gengið að flokka afstöðu föðurins sem heimilisofbeldi eins og dómstóll á lægra stigi gerði.
Sálfræðingur sendi drenginn á spítala til meðferðar við kynáttunarvanda árið 2018 og læknar komust að þeirri niðurstöðu að það væri barninu fyrir bestu að undirgangast hormónameðferð. Bæði barnið og móðir þess féllust á það.
Faðirinn sneri sér til dómstóla í því skyni að fá viðurkenndan rétt sinn til að koma í veg fyrir meðferðina en tapaði á tveim dómstigum. Rök hans fyrir áfrýjunardómstólnum voru þau að á fyrri stigum hefðu verið vanhöld á því að tekið væri fullt tillit til vísindalegra sjónarmiða, að barnið væri of ungt til að meta mögulegar afleiðingar af „tilraunameðferð“ og að lögbann við því að hann ræddi kyngervi barnsins opinberlega bryti gegn tjáningarfrelsi hans.
Enda þótt áfrýjunardómstóllinn fallist ekki á að faðirinn hafi beitt soninn tilfinningalegu ofbeldi er niðurstaðan að öðru leyti sú sama og á fyrri stigum. Föðurnum er bannað að reyna að fá drenginn ofan af því að undirgangast meðferðina, hann má ekki ávarpa hann með því nafni sem hann hefur borið frá fæðingu, ekki vísa til hans sem stúlku og ekki birta eða deila upplýsingum um kyn hans, kyngervi, kynhneigð, andlega eða líkamlega heilsu eða upplýsingum um læknismeðferð, með öðrum en lögmönnum og sínum nánustu og þá því aðeins að þeir hinir sömu heiti því að fara ekki lengra með þær upplýsingar.