Áður fyrr var unga konan blómarós, auðnarhlín, silkirein, yngismær. Nema hún væri gála eða skass auðvitað en prúða stúlkan sem var föður sínum hlýðin og þægilegt kvon’fang’ væntanlegs maka síns, var þó ávörpuð fremur ástúðlega, allavega í skáldskap.

Svo hættu konur að vera svona óskaplega hlýðnar. Þær heimtuðu mannréttindi og tóku upp á þeim óskunda að afla sér þekkingar og mynda sér skoðanir. Ungir menn þráðu ennþá návist ungra kvenna og þeir enskumælandi kalla sínar þráðu og dáðu sugar, honey, babe og pie. Hin íslenska silkirein varð líka að pæju (sætri neysluvöru), en þó oftar að gellu (gella er slímugur fiskvöðvi sem dúar ef ýtt er við honum, athyglisverð líking) eða skvísu (eitthvað til að kreista) og orð sem áður höfðu þótt fremur óvirðuleg, svosem stelpa og drós urðu að hversdagsheitum yfir ósköp prúðar stúlkur.

Orð sem enn í dag eru hlutlæg heiti, notuð um stúlkur og ungar konur í öðrum Norðurlandamálum, svosem pige og tös í dönsku, verða í íslensku heiti á kynfærum kvenna; píka og tussa, og oftar en ekki notuð í fremur niðrandi merkingu. Þau eru svo yfirfærð á stúlkuna sjálfa og þótt píkur séu almennt álitnar nokkuð indæl líffæri, þykir samt ekki par fínt að vera píka eða tussa.

Áfram hélt kvenfrelsisbaráttan. Konur fengu völd og þar með tækifæri til að taka þátt í þeim glæp að viðhalda samfélagi þar sem 2% íbúanna ‘eiga’ 90% allra gæða og vilja meira og unglingar eru heilaþvegnir til þess að drepa meðbræður sína í nafni förðulandsástar. Mikill er hagur Strympu orðinn nú þegar glæpastarfsemi er orðin að kvenréttindum. Frelsið er þó að flestu leyti gott. Á Vesturlöndum megum við jafnvel sofa hjá þeim sem okkur sýnist án þess að það varði refsingu. (Við megum að vísu ekki hagnast á því það er svo dónalegt.)

Um tíma voru yngismeyjarnar íslensku kallaðar ‘guggur’. Ég verð að viðurkenna að ég þekki ekki uppruna eða merkingu þess orðs. Mér dettur helst í hug að það sé hreinlega sérnafnið Gugga sem þyki fara ungri, skemmtanaglaðri og kannski lauslátri stúlku vel og hafi verið tekið upp sem samheiti, á svipaðan hátt og ég nota guðjónar yfir meðalmennskudrjóla. Ég veit það þó ekki svo ef einhver getur upplýst mig er það vel þegið. Guggan er þó á undanhaldi eftir upplýsingum frá ungdómnum að dæma og í dag er unga stúlkan ekki lengur pæja eða skvísa, ekki einu sinni gugga heldur skinka. Mér skilst að hugmyndin sé sú að píkur séu svipaðar skinku á litinn. Ung kona er þannig fyrst og fremst píka.

Eftir því sem konur verða sjálfstæðari og fjölhæfari, einkennist orðræðan af stöðugt meiri áherslu á kynfæri þeirra og hugsanlega kynhegðun sem þykir ekki virðuleg. Skvísa er þannig stúlka sem gegnir því hlutverki að vera kreist (og þá væntanlega kjössuð og hugsanlega eitthvað meira í leiðinni) og er nokkuð sátt við það. Einnotastúlkan sem Ólafur Ragnar þráir að draga heim með sér er ein svona gugga úr hjörðinni. Ég sló orðið guggur inn í google leitarvélina og fékk upp ‘sjóðandi heitar guggur’ og ‘útriðnar, grútþunnar guggur’. Skinkan er kannski enn meira niðrandi, svínakjöt þykir svosem ágætt til átu en hefur aldrei talist sérlega virðulegt.

Hvað veldur þessu? Stafar körlum slík ógn af sjálfstæði kvenna að þeir finni sig knúna til að leggja stöðugt meiri áherslu á að þeir geti þó allavega riðið okkur ennþá? Af hverju finnst karlmanni hann bera einhverskonar sigur úr býtum ef kona vill stunda skuldbingarlaust kynlíf með honum og afhverju er það henni til minnkunar en ekki honum?

Og af hverju sætta konur, einkum ungar konur sig við þessa orðræðu? Af hverju sætta þær sig við að kynfrelsi þeirra sé álitið ómerkilegt og þeim sjálfum til vansa og afhverju sætta þær sig við að nánast allt sem þær gera og segja sé skoðað í ljósi þess að þær eru konur, þ.e.a.s. manneskjur með píku?

Það er ekkert erfitt að breyta orðræðunni. Ég hef að vísu aldrei orðið fyrir því að karlmaður kalli mig skinku, allavega ekki svo ég heyri en ef karlmaður ávarpar mig skvísu, dúllu eða eitthvað annað sem fer í taugarnar á mér, þá kalla ég bæði typpið á honum og hann sjálfan dindil, sprella eða kjánaprik. Þeim finnst bara frábært að vera með gaur eða nagla (enda eru þeir notaðir til að reka eitthvað í gegn og festa það) en dindill er ekki sérlega virðulegur. Það er þannig vel hægt að sussa á þá ef þeir eru dónalegir. Það er líka hægt að fara þá leið að gildisfella orðin með því að nota þau á jákvæðan hátt. Þetta hefur svosem gerst smátt og smátt, það er ekki lengur móðgandi að vera skvísa eða gella (nema þú sért að tala við mig, dindillinn þinn!) en þegar þetta gerist hægt og rólega þá virkar það ekki sem andóf, heldur þvert á móti sem samþykki. Þegar ung kona í dag talar um sig og vinkonur sínar sem skvísur er það merkingarlaust. Ef hún hinsvegar segði ‘við skinkurnar’ þá gæti það kannski falið í sér yfirlýsingu; ‘kallaðu mig það sem þér sýnist, þú getur ekki notað orð til að stjórna mér.’

Tungumálið afhjúpar viðhorf samfélagsins. Enn í dag eru konur sem finnst gaman að ríða fyrst og fremst séðar sem konur sem aðrir ríða, þolendur, jafnvel fórnarlömb. Og konur sem tjá sig eru fyrst og fremst konur, mannverur með píku, eitthvað sem karlar neyðast kannski stöku sinnum til að hlusta á en geta þó allavega riðið.

Er ekki að verða tímabært að við losum okkur undan þeirri hugmynd að það sé nánast óeðlilegt ástand að hafa píku, allavega ef maður hefur eitthvað að segja? Yrði það ekki bara ágætur heimur þar sem silkireinin getur talað á safnaðarsamkundum og riðið svo -eins og henni bara sýnist, án þess að sé neitt niðrandi við það?