Hvernig stendur á þessari sterku tilhneigingu til að ýkja vandann þegar fjallað er um kynferðisofbeldi og misnotkun? Hvað merkja fullyrðingar um ‘aukningu’ og ‘þróun’? Það er í sjálfu sér nóg að eitt barn sé misnotað til þess að það sé ‘sorglega algengt’ en þetta orðalag gefur lesandanum þá tilfinningu að barnavændi sé á góðri leið með að festa rætur í unglingamenningu á Íslandi.

Það er óþolandi þegar fjallað er um persónulega harmleiki eins og um sé að ræða víðtækt samfélagsmein. Fyrir samfélagið þjónar það engum jákvæðum tilgangi en getur hinsvegar valdið ótta og og öryggisleysi svo viljiði hætta þessu bulli og koma með tölur takk. Er verið að tala um 2 börn á ári eða 200 börn á ári? Það er ekki frétt þótt einhver kona hafi eitthvað á tilfinningunni, það væri hinsvegar frétt ef barnavændi væri raunverulega að aukast en þá vil ég líka fá betri rök fyrir þeirri frétt.

Hvers vegna er þessi ýkjuaðferð alltaf notuð til að vekja athygli á ofbeldi gagnvart konum og börnum? Mig rennir í grun að þær konur sem starfa í þessum geira og tala á þennan hátt, stjórnist að einhverju leyti af þeirri últrakapítalísku hugmynd að meira sé aldrei nóg.

Sannleikurinn er sá að barnavændi hefur alltaf þekkst. Það er hvorki nýtt vandamál né umfangsmikið en það er engu líkara en að þessi tvö skilyrði þurfi til þess að talið sé vert að reyna að uppræta það. Getur verið að rótin að ýkjunum liggi í óttanum um að störf þeirra sem hjálpa fólki í vanda verði ekki metin að verðleikum nema vandinn sé rosalega útbreiddur? Að það sé ekki nógu merkilegt að hjálpa 10 fjölskyldum og þessvegna verði sem flestir að halda að þær séu í rauninni 100?

Það fólk sem sinnir þolendum ofbeldis og fjölskyldum þeirra vinnur mikilvægt starf. Ég hlakka til þess dags þegar fulltrúar kvennaathvarfs, barnahúss og stígamóta koma fram og tilkynna með stolti að störf þessara stofnana hafi skilað árangri, að vandinn hafi minnkað og nú séu þær farnar að sinna málum sem eru ekki eins alvarleg. Ef samfélagið lítur svo á að störf þeirra séu léttvæg eða óþörf nema 1000 konur séu lamdar reglulega, nauðganir eigi sér stað í hverju einasta partýi og fjöldi grunnskólabarna sé á kafi í vændi, þá er eitthvað að þeim viðhorfum.

Við ættum kannski að reyna að breyta því viðhorfi að ofbeldi þurfi að vera algengt til að teljast alvarlegt, í stað þess að láta umræðuna stórnast af ótta um það að starfsfólk þessara stofnana nýtist ekki nema eymdin sé sem mest. Ofbeldi og andspyrna eru nefnilega ekki fyrirbæri sem við getum leyft okkur að setja upp sem efnahagsreikning. Í þessum málaflokki höfum við ekki efni á þeirri hugmynd að ‘kúnnahópurinn’ þurfi að ná ákveðinni stærð til að borgi sig að reka fyrirtækið.