Fyrir um það bil ári, las ég frétt þess efnis að 20% telpna í 9. bekk í dönskum skólum, væru í ofbeldissambandi. Ég efaðist. Ekki var vísað í neina rannsókn og mín fyrsta spurning var ‘hversu hátt hlutfall svo ungra telpna er þá í ofbeldislausu sambandii? Eru allar danskar telpur í föstu sambandi aðeins 15 ára eða eru allir danskir piltar ofbeldismenn?’
Skömmu síðar las ég aðra grein þar sem talið var að 10% danskra stúlkna á aldrinum 16-25 ára yrðu fyrir ofbeldi af hálfu karlmanna. Dregur svona rosalega mikið úr ofbeldinu þegar stelpan nær 16 ára aldri eða er eitthvað bogið við fréttaflutninginn?
Ég efaðist um að 40.000 kynlífsþrælar hefðu verið fluttir til Þýskalands vegna heimsbikarkeppninnar 2006. Efasemdir mínar reyndust réttmætar.
Ég efaðist um að mörg þúsund konur væru í kynlífsþrælkun í Bretlandi. Efasemdir mínar reyndust réttmætar.
Ég efaðist um að 300.000 börn væru í kynlífsþrælkun í Bandaríkjunum. Efasemdir mínar reyndust sem betur fer réttmætar.
Ég efast um að það sé beinlínis algengt að íslenskir karlar læsi konur sínar inni, haldi þeim í einangrun árum saman og telji þeim trú um að það sé siður á Íslandi að konur gangi naktar innanhúss og að íslenskum konum beri skylda til að eiga kynmök við vini eiginmannsins. Þessu er þó haldið fram fullum fetum í opnugrein á DV í gær. (bls 22-23)
Ég efast um þetta vegna þess að ég man ekki eftir einni einustu frétt af innilæstri konu og þótt ofbeldi sé dulið vandamál þá finnst mér með ólíkindum að langtíma frelsissvipting og kynlífsþrælkun sé algeng ef þessi mál hafa aldrei komið inn á borð lögreglunnar. Eða gerir löggan kannski bara ekkert í því þegar hún fær tilkynningar um frelsissviptingu og kynlífsþrælkun? Ég kannast við nokkra fréttamenn og fullyrði að ef þeir fréttu af konu sem væri innilokuð (væntanlega í húsi með gluggum og hurðum sem er læst utan frá þegar maðurinn er ekki heima til að gæta fangans) og/eða konur í kynlífsánauð, þá myndi hver einasti þeirra troða öllum upplýsingum um einkalíf fræga fólksins niður í skúffu.
Hversu mörg eru dæmin um þessa hegðun sem sögð er algeng? Eitt tilvik er í sjálfu sér of algengt því svona framferði á auðvitað ekki að eiga sér stað en fólk á heldur ekki að drepa börnin sín, kveikja í byggingum þar sem lifandi verur eru innandyra eða pína kóngulær. Það heldur því samt enginn fram að neitt af þessu sé algengt.
Ég efast um að þrælahald í skjóli hjónabands sé algengt á Íslandi. Ég efast um að mörg dæmi séu um að konum sé haldið í einangrun árum saman. Ég ætla rétt að vona að efasemdir mínar reynist réttmætar.