… bara svo það sé á hreinu, þá fer ég ekki fram á öfgalausa umræðu. Öfgar eru ekkert slæmar í sjálfu sér. Öfgar eru einfaldlega það sem víkur frá norminu. Öll réttlætisbarátta er álitin öfgafull þar til markmiðinu er náð. Á sínum tíma þótti það fremur öfgakennd hugmynd að konur hefðu eitthvað með kosningarétt að gera og það þurfti öllu róttækari aðgerðir en útifundi og ljóðalestur til að ná þeim merka áfanga.

Ég held að samfélag verði betra þar sem margar og ólíkar skoðanir fá að heyrast og ég er ekki sannfærð um að umræða sé endilega góð þótt hún sé ‘málefnaleg’. Tilfinningaþrungin umræða og persónulegar ásakanir geta alveg átt rétt á sér. Svo ef einhver vill benda á sökudólga í kerfinu, hengja ofbeldismenn upp á pungnum eða leyfa öllum konum að bera skammbyssu, þá bið ég ekki um að fólk hafi hljótt um þær skoðanir.

Ég bið hinsvegar um réttar upplýsingar. Ég fer fram á það að tilgátur séu ekki settar fram sem staðreyndir. Ég geri þá kröfu til fréttamanna að þeir kanni hvaðan upplýsingar koma áður en þeir lepja þær upp gangrýnislaust. Ég gef engan afslátt af þessum kröfum þótt ég hafi samúð með málstaðnum. Ekki heldur þegar um að ræða viðkvæm mál og glæpi sem eiga ekki að líðast.