Í dag ætla ég að kenna ykkur að skapa réttarkerfi. Eða ekki.
Ég þekki þrjú ólík mál þar sem fólk sem hefur verið órétti beitt telur réttarkerfið ekki góðan farveg til að rétta sinn hlut. Í einu tilviki er um að ræða hrottalega líkamsárás. Í einu tilviki varð kona fyrir nauðgun. Í síðasta tilfellinu býr þolandinn við kúgun, veit að honum verður komið í vandræði ef hann hegðar sér ekki eins og kúgaranum þóknast. Ekkert þessara mála hefur verið kært til lögreglu.
Af hverju kærir fólk ekki bara?
Margar ástæður geta verið fyrir því að fólk kærir ekki ofbeldi og aðra glæpi. Brotaþoli kynferðisbrots, sem hefur engin sönnunargögn og engin vitni, sér ekki fram á að kæra skili neinu nema meiri þjáningum. Fólk sem hefur sjálft komist í kast við lögin ber oft lítið traust til lögreglunnar, einkum þeir sem hafa orðið fyrir hrottalegri meðferð af hálfu lögreglu. Sumir hafa sjálfir eitthvað að fela og geta ekki leitað réttar síns nema taka áhættu á að komist upp um þá eða einhvern þeim nákominn. Ég þekki þess einnig dæmi að manneskju finnist hafa verið brotið á sér þótt lögin nái ekki yfir það brot.
Það er algeng skoðun meðal þeirra sem hafa lítið álit á réttarkerfinu að þar sem ekki sé neins réttlætis að vænta úr þeirri átt, ættu vinir þeirra sem órétti eru beittir að taka skýra afstöðu með þolandanum og helst að hjálpa honum að ná fram hefndum. Þetta er góð hugmynd fyrir þá sem eru til í gengjastríð með tilheyrandi ofbeldi á báða bóga en þeir sem telja stríð ekki farsæla leið til þess að leysa vandamál ættu að hugsa sig um tvisvar. Málin verða svo enn erfiðari þegar skúrkurinn tilheyrir vinahópnum. Maður hefði kannski haldið að það sé sjálfsagt að taka skýra afstöðu gegn ofbeldi, útskúfa skíthælnum og refsa honum en ofbeldismál eru ekkert alltaf einföld. Hvernig tekur hópurinn t.d. á ofbeldi í eigin röðum ef orð stendur gegn orði? Eða ef kemur í ljós að gerandinn hefur búið við stöðugar ofsóknir af hálfu þolanda lengi og þolandi hefur áður verið staðinn að því að fegra sinn hlut? Það réttlætir ekki glæpinn en dregur hugsanlega úr refsigleðinni.
Anarkismi og réttarkerfi
Í gær talaði ég við konu sem fannst það undarleg afstaða hjá mér að tiltekið mál ætti heima fyrir dómstólum en ekki hjá amatörum. Hún spurði mig hvort ég væri ekki anarkisti og hvernig það samrýmdist eiginlega anarkisma að treysta réttarkerfinu. Semsagt, ef ég er ekki hrifin af ríkisvaldi þá hlýt ég að vilja blóðhefndasamfélag eða eitthvað í þá veru. Nei, auðvitað á hún ekki við refsingar og hefndir, hópurinn á bara að sjá til þess að „big asshole“ axli ábyrgð og þá verða öll dýrin í skóginum vinir.
Andúð mín á yfirvaldi og sú sannfæring mín að ríkisvald sé afleitt stjórnarfyrirkomulag (af því að yfirvald, hervald, auðvald og kennivald þrífst í skjóli þess) er anarkísk afstaða. Sú afstaða merkir ekki að ég hafi undirgengist reglur einhvers sértrúarsafnaðar og afsalað mér rétti mínum til að gagnrýna þau heimskupör sem framin eru í nafni anarkisma. Hvort sem okkur líkar það betur eða verr þá sitjum við uppi með ríkisvald og þar sem ríkisvald þrífst þar er réttarkerfi nauðsynlegt. Það er nauðsynlegt vegna þess að stundum náum við ekki samkomulagi um það hvort einhver sé „big asshole“ eða hvað eigi að gera við „big asshole“.
Réttarkerfi okkar er ófullkomið. Það er neyðarúrræði samfélags sem er of fjölmennt og sundurleitt til að leysa öll ágreiningsmál í bróðerni. Aldrei hefur mannkynið skapað réttarkerfi sem er óumdeilanlega réttlátt og mörg mál ræður réttarkerfið einfaldlega ekki við. Þar eru kynferðisbrot stærsti flokkurinn en í þeim málum standa ákæruvald og dómstólar iðulega frammi fyrir því að þurfa annaðhvort að sleppa manni sem hugsanlega er sekur eða sakfella mann án sannana. Allir sjá þennan vanda en hvergi sé ég neina viðleitni hins opinbera til að finna slíkum málum annan farveg en réttarkerfið.
Að skapa eigið réttarkerfi
Og er þá ekki bara fínt að vinahópar taki málin að sér sjálfir, í stað þess að leita til þessa ófullkomna réttarkerfis? Jú, það er fín lausn þar sem raunhæft er að ná sáttum. Það er hinsvegar flóknara í tilfellum þar sem „sá seki“ kannast ekki við að hafa gert neitt rangt. Hugmyndin er sú að hópurinn hjálpi gerandanum að axla ábyrgð á gjörðum sínum. Hugmyndin er líka sú að „okkar fólk“ ráði betur við það en réttarkerfið. Hugsanlega hefur þetta fyrirkomulag gefist vel einhversstaðar en hvað ef sá seki neitar alfarið að axla ábyrgð? Jú þá er honum „hjálpað“ gegn vilja sínum og í því skyni grípa menn til refsinga. Það var reyndar líka hugmyndin með réttarkerfi miðalda. Refsingar áttu að hjálpa þeim seku að iðrast og auka þar með líkur þeirra á himnavist. Ætli sé svipuð hugsun að baki þegar Hamas-liðar lífláta meinta svikara án aðkomu dómskerfisins?
Ef þú stendur í þeim hræðilegu sporum að geta ekki treyst réttarkerfinu, hugsaðu þig samt tvisvar um áður en þú stillir vinum og vandamönnum upp við vegg og lýsir þá svikara sem ekki vilja hafa bein afskipti af málinu. Ég get því miður ekki bent á betri lausn en stundum er verr af stað farið en heima setið. Gerðu þér grein fyrir því að það gæti orðið til þess að kljúfa þinn eigin hóp og ýta af stað löngu ferli hatrammra átaka og gagnhefnda, hugsanlega án þess að þér líði neitt betur fyrir vikið.
Ég tek undir þá skoðun að réttarkerfið sé gallað og ég kann enga leið til að taka á málum sem réttarkerfið ræður ekki við. Hitt veit ég að þegar leikmenn reyna sjálfit að taka á ofbeldi í eigin röðum, getur niðurstaðan orðið sú að þeir hrófla upp lélegri eftirlíkingu af réttarkerfi. Fámennur hópur tekur í senn að sér hlutverk löggjafa, rannsóknaraðila, ákæranda, saksóknara, dómara og böðuls. Stundum eru reglur settar eftir á og meintur gerandi fær hvorki verjanda né andmælarétt. Og það á ekkert skylt við anarkisma. Það er bara venjulegur fasismi.