Það er ekki ný hugmynd að stofnanir ríkisins eigi að móta áherslur í siðferðilegu uppeldi barna. Kirkjan hafði til skamms tíma svo til óheftan aðgang að skólabörnum og grunnskólum var bókstaflega ætlað að ala börn upp í guðsótta og góðum siðum.

Hversu mikinn árangur það bar vitum við lítið um. Önnur viðhorf en hin kristilegu voru ekkert uppi á borðinu og flest börn hefðu líklega tileinkað sér kristindóminn þótt skólinn hefði aldrei nefnt hann einu orði. Við vitum aftur á móti að margt fólk sem ólst upp í þessu andrúmslofti, og fékk fínar einkunnir á kristnifræðiprófum, gekk af trúnni. Við vitum að margt fólk sem nú er á miðjum aldri og ólst upp við bænahald í skólum neitaði að fermast eða skráði sig úr Þjóðkirkjunni síðar. Í sumum tilvikum hefur þetta fólk barist ötullega gegn trúarlegri innrætingu í skólum, með þeim árangri að það þykir ekki lengur við hæfi að skólar skipti sér af trúaruppeldi barna.

En þrátt fyrir að trúarinnræting skóla hafi haft minni áhrif eftir því sem upplýsinga- og tjáningarfrelsi hefur aukist, er hugmyndin um innrætingarhlutverk grunnskólans síður en svo á undanhaldi, munurinn er bara sá að í stað guðsótta og góðra siða kemur virðing fyrir lýðræði og mannréttindum. Það er aldeilis fínt að grunnskólinn leggi áherslu á mannréttindi og góða siði og að það viðhorf skíni í gegnum allt skólastarf en hvort grunnskólinn á að standa fyrir kerfisbundinni innrætingu er annað mál.

Hinsegin fræðsla

Það er „hinsegin fræðslan“ sem varð kveikjan að þessum skrifum. Hugmyndin með hinsegin fræðslu er ekki sú að fjalla um mannréttindi í víðu samhengi heldur að þar sem sum börn séu í sjálfsmyndarkreppu og líði illa vegna kynhneigðar sinnar eða upplifunar sinnar sem kynveru, sé þörf á sérstakri fræðslu um einmitt þetta svið. Ekki bara fyrir hinsegin börn heldur fyrir öll börn. Markmiðið er göfugt, það vantar ekki. En hver verður árangurinn?

Í ljósi reynslunnar hljóta skólarnir að ætla að leggja mat á það hvort og hvernig kennslan skilar sér í breyttum viðhorfum. Próf í sögulegum og tölfræðilegum staðreyndum segja ekkert um það, ekki frekar en frammistaða á prófi í kristnum fræðum mælir guðsótta.

Gömul barnabók en einhver gárunginn hefur gefið henni nýtt nafn sem
hann/hún/han álítur „óviðeigandi“ titil á barnabók.
Líklega er eitthvað um að foreldrar vilji fá að stjórna því sjálfir
hvort og hvenær börn þeirra lesa bækur með svipuðum titlum.

Hvernig verður námsmati í viðhorfaskóla framtíðarinnar háttað? Verða börn frjálslyndra og börn evangelista látin taka sama próf í skilningi á stöðu hinsegin fólks? Hvað verður um trúfrelsið og tjáningarfrelsið sem svo hart hefur verið barist fyrir, þegar mótun viðhorfa er stýrt ofan frá? Er hægt að móta viðhorf með skipunum ofan frá þar sem upplýsingafrelsi ríkir?

Vitum við yfirhöfuð eitthvað um það hvernig viðhorf mótast?
Hver mótaði það viðhorf að hjónabönd samkynhneigðra ættu fullan rétt á sér?
Ekki grunnskólinn, svo mikið er víst.

Verða haldin samræmd viðhorfapróf í 7. og 10. bekk? Kannski í 1. bekk? Munu framhaldsskólar neita að taka við nemendum sem ekki standast viðhorfapróf? Og ef á ekki að nota próf, hvernig á þá á mæla árangurinn? Varla á bara að ganga út frá því sem gefnu að það námsefni sem lagt verður upp með, allt frá 6 ára aldri, skili þeim árangri að börn sættist við kynhneigð sína og annarra?

Eða þurfum við kannski ekkert að pæla í því hvort og þá hvaða áhrif fræðslan hafi? Er hugmyndin sú að „gera eitthvað í þessu“ og þá bara eitthvað, í trausti þess að það að „gera eitthvað“ hafi gildi í sjálfu sér?