Má bjóða þér verulega kvenfjandsamlegt starf?
Vinnu sem felst í því að þrefa og þrasa allan daginn?
Vinnuumhverfi sem reynir á og þroskar eiginleika eins og metnað, áhættusækni, ákveðni og orðheppni en þar sem eiginleikar á borð við umhyggju, samviskusemi, varkárni og sanngirni eru lítils metnir og jafnvel taldir veikleikamerki?
Starf sem er beinlínis skipulagt þannig að stór hluti samstarfsfólks þíns lítur á þig sem andstæðing og jafnvel óvin?
Viltu hafa atvinnu af því að gera lítið úr kollegum þínum, vera á móti sem flestum tillögum þeirra og ef þeir koma fram með eitthvað sem er bara of gott til að hafna því, að reyna þá með öllum ráðum að eigna þér og þínu vinnuteymi heiðurinn af því?
Viltu starf sem er þess eðlis að þú munt alltaf sæta gangrýni, nákvæmlega sama hversu góðum árangri þú nærð? Þar sem aðrir munu alltaf reyna að eigna sér heiðurinn af því sem þú gerir vel?
Viltu vinnustað sem gerir þér algjörlega ófært að setja fjölskyldulíf á forgangslistann, þar sem þú getur reiknað með fundasetum fram á nætur og veist ekki fyrr en á síðustu stundu hvenær þú kemst í sumarfrí?
Vinnu sem þýðir að þú verður að sætta þig við persónulegar árásir ókunnugs fólks, vera grínistum óþrotleg uppspretta missmekklegra brandara og getur reiknað með að fjölmiðlar vaki fyrir smávægilegustu mistökum þínum þótt þeir taki ekki einu sinni eftir því ef þú eða einhver annar á vinnustaðnum fremur glæp?
Starf sem að nafninu til hefur í för með sér völd en þar sem þú veist samt að með því að standa við hugsjónir þínar geturðu átt á hættu að fá ættbálkinn upp á móti þér og að þú munt óhjákvæmilega falla í ónáð ef þú gagnrýnir öldungana?
Má bjóða þér vinnu á stað þar sem samstaða innan teymisins og ímynd deildarinnar út á við, skiptir miklu meira máli en hagsmunir fyrirtækisins, hvað þá viðskiptavina þess og heiðarleiki og réttlæti eru algert aukaatriði?
Þar sem þykir eðlilegt að hreyta virðingarávarpi í samstarfsfólk sitt með fyrirlitningarsvip og hæðnistón?
Þar sem aðalmarkmiðið (enda þótt enginn myndi viðurkenna það) er að verða sér úti um völd og peninga, til að tryggja þeim sem raunverulega ráða einhverju enn meiri völd og enn meiri peninga?
Getur einhver útskýrt fyrir mér hversvegna nokkur kona (eða karl ef því er að skipta) ætti að kæra sig um að vinna á svona stað? Eða hvers vegna það er m.a.s. kallað ‘velgengni’? Neinei, auðvitað þarf ekkert að útskýra það fyrir mér. Það er vegna þess að Alþingi er snati auðvaldsins, auðvaldið skilgreinir sökksessinn og svo auðblekktur er sauðmúginn að á sama tíma og allsstaðar er hamrað á mikilvægi tilfinningagreindar, góðra samskipta og jákvæðs hugarfars, sér hann ekkert athugavert við það að samfélaginu skuli vera stjórnað frá þessum forarpolli. Það er skítt og kannski ennþá ógeðfelldara að þeir sem kenna sig við mannúðarhyggju og jafnrétti, skuli vilja draga fleiri og fleiri konur inn í þessa ljónagryfju í stað þess að uppræta hana og skapa eitthvað betra.
Ég er farin að halda að tiltölulega fáir geri sér grein fyrir því að samfélag og ríki eru ekki eitt og sama fyrirbærið. Ríkisvald er ekki nauðsynlegt og reyndar er til þess fallið að bæla niður framtakssemi, ábyrð og sjálfstæði borgaranna. Okkur vantar ekki fleiri konur til að stjórna ríkinu, okkur vantar konur og karla sem skilja muninn á stjórnanda og valdahafa og vilja byggja samfélag án ríkisvalds. Við byggjum ekki réttlátt samfélag á ranglátum grunni. Við byggjum heldur ekki upp jafnréttissamfélag með því að troða fleiri konum inn í strúktúr „feðraveldisins“. Við verðum að reyna að uppræta þá ranghugmynd að stjórnarfyrirkomulag sem byggir á miklu valdi nokkurra fyrirtækja (sem aftur eru í eigu og á valdi örfárra manna sem allir tengjast fjölskyldu- og vinaböndum) sé eini valkosturinn.
Kæra kona, þú sem ert að hugsa um að helga þig starfi stjórnmálaflokka og jafnvel að stefna á þingið; ef þú vilt sjá heim þar sem fólk fær raunveruleg tækifæri til að hafa áhrif á mótun samfélags og umhverfis án þess að þurfa að beita yfirgangi, klíkuskap eða beinlínis óheiðarlegum aðferðum; ef þig dreymir um veröld þar sem sölumennska og viðskiptavit er ekki skilyrði þess að önnur þekking og hæfileikar fái að njóta sín; ef þú álítur að konur, börn, gamalmenni, hljólreiðafólk, innflytjendur, öryrkjar, skallapopparar og jafnvel misyndismenn eigi rétt á að ráða einhverju meiru en því hvaða fólk tekur að sér að þrasa í þinginu; gerðu þá eitthvað annað. Hvað sem er annað því þú munt aldrei þjóna þessum hugsjónum með því að sitja á þingi.
Ef þér finnst vinsældir innan flokksins, þokkaleg laun eða hvað annað sem þér kann að þykja eftirsóknarvert vera þess virði að standa í þessu ógeði, vitandi það að þú ert með því að viðhalda kerfi sem byggist beinlínis á klíkuskap og spillingu, þá náttúrulega gerirðu það. En eitt samt, sýndu þá okkur hinum þá háttvísi að sleppa öllu tali um jafnrétti og samhygð. Því eftir höfðinu dansa limirnir og þegar löggjafarþing þjóðarinnar einkennist af sundrungu, baktjaldamakki, ómannúðlegum vinnuaðstæðum og fyrirlitningu á þeim eiginleikum sem menningarhefðin flokkar (sennilega með röngu) sem ‘kvenlega’, þá er varla hægt að búast við mikið geðslegri framkomu í efnahagslífinu, dómskerfinu, velferðarkerfunum, atvinnulífinu, fjölmiðlum eða umferðinni.
Og fyrir alla muni, hættu að ljúga því að sjálfri þér að þú sért að þessu til að gera kynsystrum þínum greiða. Pylsupartýið verður ekkert lífrænna þótt hærra hlutfall framapotara skarti píku.
Mynd: Werner Sonntag, Wikicommons