Í vikunni gerði blaðamaður Forbes þá merkilegu uppgötvun að kynferði leiðtoga réði úrslitum um útbreiðslu kórónuveirunnar. Sjö ríki, sem brugðust fljótt við, koma vel út í samanburði við mörg önnur ríki. Þau eiga það sameiginlegt að konur leiða ríkisstjórn – þar með hlýtur skýringin að vera sú að konur séu sterkir leiðtogar. Þessi sjö ríki eru Þýskaland, Danmörk, Noregur, Ísland, Finnland, Nýja Sjáland og Taiwan. Íslenskir miðlar átu þessa þvælu auðvitað upp.
Árangur þessara sjö ríkja er frábær. Það er þó næsta ótrúlegt að kynfæri stjórnmálamanna hafi nokkuð með það að gera og með því að bera þessi lönd saman við nokkur önnur lönd, sem karlar leiða, fellur aðeins á glansmyndina. Hlutfallslega færri eru látnir af völdum kórónuveirunnar í Víetnem en Taiwan, Nýja Gínea kemur betur út en Nýja Sjáland, hlutfallslega færri eru dánir í Lettlandi en Finnlandi, Tékkland hefur farið betur út úr þessu en Þýskaland og þótt Færeyjar heyri stjórnarfarslega undir Danmörku, hafa Færeyingar stjórnað sínum sóttvörnum sjálfir og koma mun betur út en nokkurt hinna Norðurlandanna.
Þessi mynd segir auðvitað ekkert um leiðtogahæfileika karla eða það hvernig forsætisráðherrar eða aðrir stjórnmálamenn standa sig en þetta er dæmi um það hvernig hægt er að sýna fram á hvaða þvælu sem er með því að handvelja gögn. Mörg fleiri lönd mætti nefna þar sem mannfall hefur ekki orðið verulegt, t.d. koma Búlgaría Filipseyjar, Túnis, Ástralía, Venesúela og Lybía mun betur út en Ísland. Það segir auðvitað ekkert um leiðtogahæfileika Katrínar Jakobsdóttur.
Með handvali getum við „sannað“ hvað sem er. T.d. það að skörugleg sóttvarnarstefna Katrínar Jakobsdóttur sé sú besta í heimi. Til þess að fá þá niðurstöðu veljum við bara breytur með því makmiði að samanburðurinn komi vel út fyrir Ísland. Það væri t.d. áhugavert að skoða hvort Ísland er ekki áreiðanlega best í heimi af þeim löndum þar sem forsætisráðherra, heilbrigðisráðherra og landlæknir eru konur. Ef það dugar ekki til þá bara tökum við þau lönd þar sem forsætisráðherra, heilbrigðisráðherra og landlæknir eru reyklausar konur í kjörþyngd.