Fyrir mörgum árum bárust tengsl barbafjölskyldunnar og fjölgreindarkenningarinnar í tal í mínum vinahópi. Greindarsvið Barbafínnar vafðist fyrir einhverjum og ég svaraði því í hálfkæringi að hennar hæfileiki væri tískugreind. Það þótti afar fyndið enda vinir mínir upp til hópa hin mestu gáfnaljós.
Hæfileiki en ekki bara hégómi
Löngu síðar áttaði ég mig á því að kannski væri hugmyndin um tískugreind ekki svo vitlaus. Ég hafði aldrei haft gaman af því að kaupa fatnað. Mér fannst það tímafrekt, þau föt sem mér þóttu falleg voru sniðin á fólk með allt annað vaxtarlag og ég var venjulega komin með ljótuna, feituna og gömluna, mörgum klukkutímum áður en ég drattaðist heim, örmagna af vonbrigðum og þreytu með enn eitt víða pilsið og straufrían bol. Nú hafði ég tekið áskorun um að panta tíma hjá stílista og stóð í mátunarklefa með troðfulla slá af fatnaði sem bæði passaði á mig og fór mér vel. Flest flíkur sem hefði aldrei hvarflað að mér að máta. Konan hafði ekki einu sinni tekið mál af mér eða potað í spikið á mér. Hún hafði bara rétt litið á mig og fundið á 8 mínútum alls kyns kjóla, buxur og toppa í öllum litum. Allt passaði og samsetningarnar sem mér leist ekkert á þegar ég sá þær á slánni, reyndust fullkomnar.
Það rann upp fyrir mér að vandamálið var ekki lélegt úrval í fatabúðunum eða það að ég hefði of stóran rass eða of stutta fótleggi eða of ljósa húð. Ég hafði einfaldlega ekki auga fyrir því sem fór mér vel. Ekki fyrr en ég var komin í fötin og sá á spegilmyndinni að línurnar sem ég hafði talið víst að myndu skerast inn í fitukeppina, komu mjög vel út. Af hverju er hæfileikinn til að velja fatnað álitinn svona miklu ómerkilegri en hæfileikinn til að sjá muninn á góðri og slæmri skáldsögu eða útsetja tónlist?
Bleikar pjattrófur
Þessa dagana er voða vinsælt hjá gáfuðum konum að gera lítið úr stúlkum sem leggja meira upp úr tískugreind sinni en öðrum hæfileikum. Og æjá, það litla sem ég hef nennt að lesa af bleikum pjattrófum er oft svo hörmulega illa orðað að mann verkjar í málkenndina og sumt er beinlínis kjánalega hugsað. Það er ekkert undarlegt að þessar vefsíður sæti gagnrýni.
Það er hinsvegar umhugsunarvert hvað fyrirlitningin virðist rista djúpt. Gagnrýnin beinist ekki aðeins að vondu málfari og hæpnum staðhæfingum um samskipti kynjanna, heldur er engu líkara en að gagnrýnendurnir líti á áhuga á tísku og dægurmenningu sem einhverskonar svik við heilagan málstað. Eins og það sé einkar andfemíniskur verknaður að samþykkja staðalmyndir og reyna að falla að þeim.
Aðrir hópar eru látnir í friði
Tískuiðnaðurinn er á köflum ógeðfelldur. Hann ýtir undir staðalmyndir og höfðar til hinna lægstu hvata mannsins; græðgi, greddu og hégómagirndar. En það sama má reyndar segja um stóran hluta af öllum öðrum iðnaði. Aldrei heyrir maður þó talað um fólk sem hefur áhuga á tækni og vísindum með viðlíka fyrirlitningu, jafnvel þótt það komi fram sem sérlegir fulltrúar kapítalsins. Aldrei sér maður áhugafólk um íþróttir fá aðra eins útreið, jafnvel þótt samkeppni, óraunhæf markmið og afskræming mannslíkamans viðgangist þar, rétt eins og í heimi tísku og fegurðar.
Þær konur sem hafa gaman af naglalakki og álíta að rétt útlit í bland við sálfræðileg trix gefi þeim undirtökin í samskiptum kynjanna, þykja ekki barbafínar. Hæfileikinn til að velja föt og fylgihluti sem gera rúllupylsuvaxna stúlku að fegurðardrottningu vegur ekki á móti hræðilegu myndunum af fola vikunnar (sem vitsmunaverur myndu aldrei falla fyrir) eða kjánalegri hugmynd um það hvaða sms skilaboð virki eða virki ekki á karlmann.
En samt, en samt. Ég hef séð kjánalega íþróttamenn, kjánalega bifvélavirkja, kjánalega hagfræðina. Maður brosir kannski að þeim en sjaldan er þeim nuddað upp úr heimsku sinni nema þá í beinum tengslum við pólitík. Ég veit ekki hversvegna en ég velti því fyrir mér hvort vísindastimpillinn hafi eitthvað að segja. Ætli pjattrófur væru litnar öðrum augum ef Howard Gardner hefði talið tískugreind merkilegan eiginleika? Eða afhjúpar þessi taumlausa fyrirlitning fremur andúð kvenna á kvenlegum konum en andúð á yfirborðsmennsku og heimsku?