Kynjakvóta á Alþingi. Einmitt það sem okkur vantar. Flíka fleiri brosandi konum og ljúga því að sjálfum okkur að hlutfall kvenna í stjórnkerfinu og öðrum spillingarbælum eigi eitthvað skylt við jafnrétti.

Kaldhæðni er fyrsta orðið sem kemur upp í huga minn þegar ég sé yfirlýsta feminista styðja þetta rugl. Ástæðan fyrir því að við höfum náð svo langt í jafnréttismálum stendur nefnilega í ekki í neinu tilviki í sambandi við hlutfall kvenna á Alþingi eða í stjórnunarstöðum. Það voru feminiskir aktivistar sem komu okkur þangað sem við erum í dag, fólkið sem barðist gegn þessu kerfi sem fólk í ímyndaðri jafnréttisbaráttu styður og styrkir.

Það voru stórhættulegar suffragettur sem brutu rúður og brenndu kirkjur til þess að þú fengir kosningarétt, ekki Ingibjörg Sólveig eða Golda Meir.

Það voru duglegar en einskis metnar verkakonur sem klæddust buxum og neituðu að vinna fyrir kvennakaupi til þess að þú ættir kost á sömu launum og karlar, það voru konur sem sjálfar stofnuðu fyrirtæki í óþökk mæðra sinna sem ruddu brautina fyrir þig ekki Katrín Júlíusdóttir eða Rannveig Rist.

Konur sem unnu ólöglega í kolanámum í Bretlandi á 19. öld klæddust karlmannsfötum. Lögin voru sett þeim til verndar en stundum stendur valið milli ástlauss hjónabands, hungurs eða hættulegra starfa.

Það voru blásokkur, klárar konur sem börðust til mennta, stofnuðu kvennaskóla, söfnuðu undirskriftum og hrópuðu slagorð sem gerðu þér fært að ljúka námi. Ekki Katrín Jakobsdóttir eða Svafa Grönfeldt.

Það voru hugrakkar konur sem flúðu ofbeldisfulla eiginmenn og aðrar hugrakkar konur sem stofnuðu hjálparsamtök og kvennaathvörf sem sáu til þess að dómskerfið dæmir gerendur en ekki þolendur heimilsofbeldis. Ekki Florence Ellinwood Allen eða Ragna Árnadóttir.

Myndin er frá fyrsta kvennaathvarfinu í Kanada. Það opnaði 1965. Sagt er að á þeim tíma hafi að jafnaði ein kona á viku fallið fyrir hendi maka síns en þau morð voru ekki tekin alvarlega.  Hvort viljum við hafa Guðrúnu Jósdóttur á þingi eða þar sem hún gerir eitthvað sem skiptir máli?

Og það voru ýlandi dræsur sem neituðu að láta annað fólk (ekki bara feðraveldið heldur aðallega mæður sínar) segja sér hverjum þær mættu sofa hjá og hvernig þær mættu klæðast, sem sáu til þess að einstæðar mæður njóta mannréttinda og að klæðaburður og orðspor réttlætir ekki nauðganir.

Það voru „vafasamar konur“ sem börðust fyrir aðgengi ógiftra kvenna að getnaðarvörnum og rétti til fóstureyðinga. Ekki Vigdís Finnbogadóttir eða Condoleezza Rice heldur konur sem á sínum tíma voru álitnar siðlausar druslur.

Þeir sem knýja fram þær breytingar sem skipta máli eru konur og karlar sem rísa gegn kerfinu. Ekki þau sem taka þátt í því heldur þau sem rísa gegn því. Konurnar sem mótuðu viðhorf þín til jafnréttismála voru ekki valdakonur heldur þær sem brutu gegn lögum ríkisvaldins, reglum foreldra sinna, væntingum maka sinna, viðhorfum jafningja sinna og óskráðum siðareglum samfélagsins. Rauðsokkur, blásokkur, og í dag svartsokkur, ekki brosandi konur á bæklingum sem stjórnmálaflokkar troða upp á þig með loforðum um að koma fleiri konum (sem er skítsama um þig) í stjórnunarstöður, heldur þær sem ögra hugmyndum þínum um eðlilega heimsskipan, samskipti og siðferði.

Konurnar sem breyttu heiminum voru ekki drottningar heldur dræsur. Svo ef þú nýtur kvenréttinda eða bara yfirhöfuð mannréttinda, þakkaðu það aktivista, þakkaðu það dræsu. Og ef þú þekkir klára, duglega, hugrakka, áhrifamikla konu; ekki kjósa hana á þing. Fáðu hana með þér út á götu til að gera eitthvað.