Í öllu þessu sálarmorðskjaftæði heyrist aldrei nein útskýring á því hvernig dauð sál lýsir sér eða hvernig er hægt að greina það heilkenni.
Þekkja lesendur einhvern sem er með dauða sál? Hefur það sama fólk orðið fyrir nauðgun? Eru allir sem hafa orðið fyrir nauðgun með dauða sál? Eða getur verið að nauðgarar séu líklegri til að vera sálarlausir en þolendurnir? Hvernig hugsar fólk og hegðar sér þegar búið er að myrða í því sálina?
Blood Diamond segir frá ofbeldi sem ég er til í að flokka sem sálarmorð. Börn eru tekin frá foreldrum sínum með valdi, þau eru barin og niðurlægð, látin horfa upp á limlestingar og brotin niður með fleiri hroðalegum aðferðum, þau er neydd til voðaverka og snúið gegn fjölskyldu sinni. Afleiðingin er sú að þau verða líkari vélmennum en fólki, þau hlýða skipunum yfirboðara í blindni og sýna ekki merki um sjálfstæða hugsun, siðferði eða tilfinningalíf. Ég er svosem enginn sérfræðingur í kynferðisofbeldi en ég þekki nokkrar konur sem ég veit að hafa orðið fyrir nauðgun eða verið misnotaðar í æsku og engin þeirra sýnir þessi einkenni. Þvert á móti eru þetta bara flottar og sterkar konur sem þrátt fyrir að hafa orðið fyrir andstyggilegri reynslu, lifa nokkuð eðilegu lífi.
Í dag eiga þolendur kynferðsofbeldis kost á mjög góðri aðstoð til að komast yfir áfallið og ég þori að hengja mig upp á að meðal vor gengur fjöldi fólks sem hefur að baki slíka reynslu en er þó fullkomlega heilbrigt á sálinni. Fórnarlamb naugðunar eða annars ofbeldisverks á vissulega bágt og ekkert réttlætir slíkan verknað. Ég sé samt ekki alveg tilganginn með þessum gífuryrðum og finnst undarlegt að þessi sálarmorðsklisja skuli stöðugt vera notuð um kynferðisofbeldi en nánast aldrei um aðrar (og oft mun hættulegri) líkamsárásir. Ég legg til að við tökum upp dálitla sparsemi gagnvart dýrum orðum. Það gæti komið að því að þurfum að nota þau.