Bloggari sem ég les reglulega sagði frá því fyrir 1-2 árum að móðir hennar hefði orðið fyrir slysi og misst höndina. Við fengum svo að fylgjast með því hvernig þeirri konu vegnaði.

Bloggarinn skrifaði mikið um það hvað mamma hennar væri dugleg og jákvæð og stæði sig vel. Hún birti myndir af henni brosandi. Það getur vel verið að hún hafi nefnt varanlegan skaða eða gjörbreytt líf, svona í framhjáhlaupi, ég bara man það ekki, en öll áherslan var á möguleika og vilja konunnar til að lifa góðu lífi þrátt fyrir áfall. Ef ég lendi einhverntíma í erfiðu slysi, vona ég að vinir og vandamenn tjái samhyggð sína á þennan hátt, fremur en að grenja yfir því hvað þetta sé nú allt hræðilegt.

Almennt virðist sú afstaða ríkja, þegar fólk verður fyrir skelfilegum áföllum, að með góðri umhyggju og stuðningi geti fólk samt sem áður lifað góðu lífi. Enginn með réttu ráði afneitar því að áföll hafi afleiðingar en athyglinni er beint að því hvað fólk geti gert, þrátt fyrir allt, í stað þess að velta sér upp úr öllu sem það getur ekki. Af einhverjum undarlegum ástæðum virðist þessi afstaða þó sjaldnast uppi ef áfallið er kynferðislegt ofbeldi. Fórnarlömb kynferðisofbeldis geta varla kveikt á útvarpi eða flett dagblaði án þess að orð og frasar á borð við; ör á sálinni, varanlegur skaði, stolin æska, glatað sakleysi, sálarmorð, skaðlegar afleiðingar, nær sér aldrei, óbætanlegt tjón, ófyrirgefanlegur glæpur… dynji á þeim.

The dead soul – by Bexify

Ég velti því svona fyrir mér hvort bloggarinn hefði getað birt margar brosmyndir af móður sinni handarlausri, ef fjölskyldan, vinirnir og allir fjölmiðlar landsins hefðu sameinast í harmaveini yfir því hvað þetta væri nú allt hræðilegt og óbætanlegt, tíundað líkurnar á því að móðirin leggðist í sút og sjálfvígspælingar, drykkju og dóp og hamrað á nauðsyn þess að finna sökudólg og refsa honum. Hversu oft þarf manneskja sem er nýbúin að ganga í gegnum hræðilega reynslu að heyra það að líf hennar sé ónýtt og sálin í henni dauð, áður en hún fer að trúa því sjálf? Hvaða áhrif ætli slík skilaboð hafi á börn og unglinga?

Það er engin ástæða til að gera lítið úr þjáningum þeirra sem verða fyrir nauðgun eða misnotkun. En það er líka alger óþarfi að gera lítið úr hæfni þeirra til að vinna úr áföllum og finna leið til að lifa góðu lífi. Það er hægt að jafna sig á þessum áföllum eins og öllum öðrum. Það er nógu slæmt að lenda í klónum á illmenni þótt þolandinn þurfi ekki ofan í kaupið að sitja undir endalausu harmarunki yfir því að líf hans sé hreinlega bara ónýtt. Það hlýtur að vera sálardrepandi andskoti.