Síðasta sumar kom lítil vinkona í heimsókn og ég benti henni á leikfangakassann. Þar fann hún nokkrar barbídúkkur, naktar, það voru ekki til nein föt á þær. „Það er allt í lagi,“ sagði sú stutta „þá höldum við bara rassahátíð.“ Hún undi sér svo lengi dags við leik þar sem öll barbídúkkufjölskyldan var berrössuð á einhverskonar útihátíð þar sem allir gengu naktir. Af samtölum persóna mátti ráða að rassahátíðin væri haldin vegna þess eins að þátttakendum þætti gaman að berrassast á almannafæri.

BRJÓSTHNAPPABYLTINGIN

Ríflega hálfu ári síðar flykktust konur í þúsundatali í bæinn og beruðu brjóst sín í miðborg Reykjavíkur.  Brjóstagangan var þó ólík rassahátíð litlu vinkonunnar að því leyti að hún var ekkert spaug kvenna sem finnst gaman að stríplast, heldur hápólitísk aðgerð, kynnt sem „bylting“ og svar við hrelliklámi. Mér skilst að það virki þannig að ef kona berar tútturnar í hópi fimmþúsund berbrjósta kvenna, þá sé ekki lengur hægt að niðurlægja hana með því að birta myndir af henni við sjálfsfróun eða aðrar kynferðislegar athafnir. Í netheimum viðruðu karlar hugmynd um #FreeWilly skrúðgöngu en það er víst allt annað. Af því að brjóst eru ekki kynfæri.

Semsagt: Brjóst eru ekki kynfæri. Ergó: Með því að ganga berbrjósta missir það marks að birta kynferðislegar myndir í óþökk þolanda.

Tveimur dögum eftir að þúsundir kvenna strípluðust á Austurvelli mættu um 50 manns, aðallega flóttakonur og stuðningsfólk þeirra, í ráðhús Reykjavíkur til að  minnast Farkhundu, ungrar konu sem 10 dögum fyrr var barin og grýtt til dauða í Kabúl. Farkhunda var borin röngum sökum um að brenna Kóraninn en hennar raunverulegi „glæpur“ var sá að benda á spillingu valdakarls. Ekki létu brjóstbyltingarkonurnar fimmþúsund sjá sig þar, enda sjálfsagt útkeyrðar eftir átökin við feðraveldið.

BEAUTY TIPS BYLTINGIN

Ekki leið þó langt á milli stríða og næsta „bylting“ fólst í því að „rjúfa þögnina“ með nauðgunarsögum á netinu. Sögurnar einar duga þó ekki til að tryggja kvenfrelsið því íslenskar konur búa við þá hræðilegu kúgun að geta ekki sakað nafngreinda menn um kynferðisglæpi, utan réttarkerfisins, án þess að eiga á hættu málsókn fyrir meiðyrði. Það er helvíti skítt því eins og allir vita eru það aðeins afganskir klerkar sem bera fólk röngum sökum. Slíkt myndi engin kona nokkru sinni gera.

Nafnbirtingarbyltingin er enn skammt á veg komin en þó hefur það afrek unnist að búið er að svipta að minnsta kosti einn mann ærunni. Ég veit ekki hvort er réttara að segja „vonandi á hann það skilið“ eða „vonandi á hann það ekki skilið“. Viðkomandi er kvensjúkdómalæknir sem hefur látið af störfum vegna aldurs svo ekki er tilgangurinn  sá að vara konur við honum.

Kannski er tilgangurinn með nafnbirtingunni sá sami og tilgangurinn með vísbendingum. Í þessum viðtalsþætti,  í lok klippunnar, kemur fram sú skoðun að vísbendingar sem varpa grun á seka jafnt sem saklausa, þjóni þeim tilgangi að vernda sálarheill þolandans. Hugsunin virðist vera sú að það sé í lagi að bjóða upp á efni í safaríkt slúður ef það flýtir fyrir bata brotaþola. Og ef maður hefur eitthvað út á þessar aðferðir að setja, þá er það „þöggun“.

BLÖÐRUFÉSABYLTINGIN

Svo það fari örugglega ekki fram hjá neinum hvað kynferðisofbeldi er stórt vandamál, er vandinn myndgerður með gulum og appelsínugulum andlitum með talblöðru í stað bross.

Sumar konur nota mynd með hálfu appelsínugulu fési og hvað skyldi það nú merkja? Merkir það að hún þekki þolanda OG sé sjálf þolandi? Að hún hafi orðið fyrir hálfgerðu kynferðisofbeldi? Kannski að hún hafi sloppið naumlega? Hér er eitt dæmi um það sem það getur þýtt:

Samkvæmt þessu getur hálft appelsínugult blöðrufés merkt að kona sem telur sig ekki hafa sætt kynbundnu ofbeldi hafi samt orðið fyrir einhverju sem er í raun kynbundið ofbeldi. Kynferðisofbeldi og kynbundið ofbeldi er runnið saman. Allur yfirgangur er í einhverjum skilningi nauðgun.

Hefur blöðrufésið yfirhöfuð einhverja merkingu eða er það jafn innantómt og orðin bylting, þöggun, klám og kynferðisofbeldi? Merkja kannski einhver blöðrufésanna að konan hafi horft á tónlistarmyndband þar sem konur voru hlutgerðar?

TÚRTÍSTI-BYLTINGIN

Enn ein netbyltingin í þágu kvenfrelsis miðar að því að skattfrelsa undirokuð leggöng með afnámi skatta á tíðabindi. Fjölmiðlar hafa fyrst nú gefið þessu átaki gaum en baráttan hófst á twitter í apríl þar sem konur tístu um tíðablæðingar undir myllumerkinu #túrvæðingin.

Ég hef enn ekki séð frétt um skrúðgöngu í tilefni af túrvæðingunni en nú hlýtur að þurfa að hópvaldefla hinar nýbrjósthnappafrjálsu en skattblæðandi konur með sérstakri píkugöngu um miðbæ Reykjavíkur.

RASSABYLTINGU NÆST

Þegar búið verður að frelsa bæði brjósthnappa og blæðandi pjöllur, væri svo viðeigandi að halda rassahátíð að hætti litlu vinkonu minnar. Flykkjumst í bæinn berrassaðar svo enginn geti hlutgert rassana á okkur, en berrössumst þó í  byltingarkenndri alvöru fremur en leik.

Og kúkurinn maður, kúkurinn, sem enginn talar um. Það þarf líka að rjúfa þögnina um kúkinn. Við getum byrjað strax með því að tísta um hægðir okkar á twitter undir myllumerkjunum #kúkþöggun og #kúkfrelsun.  Rjúfum þögnina. Tístum um áætlaða þyngd, lit, þef og áferð í hvert sinn sem við skellum einum brúnum í skálina.

BIÐJUM UM STUÐNING

Gleymum því svo ekki í byltingarfárinu að konur eru konum bestar og internetið gerir okkur fært að virkja konur í fjarlægum heimshornum til þátttöku og stuðnings. Konur sem 16 ára voru hnepptar í nauðungarhjónabönd og búa við heimilisofbeldi með fullri blessun yfirvalda. Konur sem synjað er um menntun. Konur sem eru afskræmdar eftir sýruárásir nánustu aðstandenda. Konur sem hafa engan sníp að frelsa þar sem hann var skorinn burt með skítugu glerbroti þegar konan var 5 ára.

Margar þessara kvenna hafa aðgang að internetinu. Virkjum þær í snatri. Hvetjum þær til að bera á sér brjósthnappana og tísta túrsögum til stuðnings kúguðum kynsystrum sínum á Íslandi.

Ég fjalla nánar um það sem virðist ætla að koma út úr beauty tips-byltingunni hér: