Sennilega finnst meirihluta Norður Evrópumanna undarlegt að þau dýr sem samkvæmt gamla testamentinu teljast „óhrein“ eigi það sammerkt að vera einhverskonar markatilvik – hafa einkenni tveggja flokka dýra. Viðurstyggðin er í hugum okkar það sem getur valdið sjúkdómum, það sem lyktar illa, það sem minnir á rotnun, líkamsvessa og úrgang. Rottur eru ógeðslegar af því þær hafast við á óhreinum stöðum og eru sýklaberar.

Biblíuleg viðurstyggð

Griffin, úr grísk-rómverskri hefð, er sambreyskingur ránfugls og ljóns

Viðurstyggð gamla testamentisins byggir á allt öðrum hugmyndum. Svínið er óhreint af því það hefur klaufir en jótrar samt ekki. Úlfaldinn af því að hann jótrar en hefur ekki klaufir. Skepnur sem lifa í vatni en hafa ekki hreistur eða ugga eru óhreinar, þar með smokkfiskar og fjöldi smádýra, sjávarspendýr hljóta samkvæmt þessu öll að teljast óhrein. Ránfuglar og hræfuglar eru óhreinir og þótt ekki sé skýrt hversvegna má leiða líkur að því að þeir hafi þótt afbrigðilegir öðrum fuglum vegna fæðu sinnar. Ferfætt vængjuð smádýr önnur en engisprettur eru óhrein en sexfætt skordýr hrein. Þófdýr eru einnig óhrein, kanínur eru þannig hreinar (nei þær hafa ekki þófa) en hundar óhreinir. Ég veit ekki hversu áreiðanlegt það er en sumir segja skýringuna þá að þófar minni á lófa. Viðurstyggðin virðist liggja í einhverskonar sambræðingi, sem stemmir ágætlega við ófreskjuhugmyndir manna í gegnum aldirnar – skrímsli eru oftar en ekki sambreyskingar tveggja eða fleiri dýrategunda.

Jaðar-Kristur

Svo virðist sem mikill fjöldi úrsagna úr Þjóðkirkjunni standi í sambandi við Krist hinn kynflæðandi (eða er hán „hið“ kynflæðandi?) Það er í sjálfu sér bara gott mál að þeir sem telja félag sem þeir tilheyra komið út í rugl segi sig úr því. En ætli japanskur Jesús í hjólastól hefði vakið önnur eins viðbrögð?

Rauðhærður og freknóttur Jesús hefði sennilega vakið undrun þótt hann sé ekkert fjarstæðukenndari en sú ímynd sem er okkur kunnust. Það hefði þó varla þótt jaðra við guðlast. Við getum slegið því föstu að Jesús hafi ekki verið hreyfihamlaður en ég efast um að nokkur hefði talið Jesús í hjólastól ástæðu til að biskup segði af sér. En myndi okkar frjálslynda samfélag umbera sambreysking? Jesús með hvíta englavængi hefði ekki vakið sterk viðbrögð því það er svo löng hefð fyrir jákvæðum hugmyndum um engla. Ég er aftur á móti nokkuð viss um að Jesús með sporð hefði kallað á fjölda úrsagna. Jesús með kisueyru hefði líka þótt stórkoslega vafasamur, eins og þau eru nú annars krúttleg. Hefði kvenkyns Jesús vakið jafn mikla reiði og Jesús sem er bæði með brjóst og skegg? Eða hefði mey-kristur verið túlkaður sem skilaboð um að hið kvenlega sé kristilegt eða að kyn skipti ekki máli? Ég er ekki viss en ég hallast að því að kynóreiða kalli fram sterkari viðbrögð en alger kynskipti.

Er það óreiðan sem hneykslar?

Það uppátæki Þjóðkirkjunnar að auglýsa sunnudagaskóla með mynd af kynflæðandi Kristi er stórkostlega misheppnuð tilraun til að ganga í augun á fólki sem seint mun líta á Þjóðkirkjuna sem mikilvægan málsvara minnihlutahópa. Þeir sem aðhyllast þá pólitísku hugmyndafræði sem kynsegin fólk og aðrir jaðarhópar binda mestar vonir við eru upp til hópa frekar vantrúaðir og hafa sáralítinn áhuga á því að láta kirkjuna sjá um pólitískt uppeldi barna sinna. Sennilega eru fleiri sem líta á þetta sem ódýrt smjaður en einlæga yfirlýsingu um samstöðu með kynsegin fólki.

Það kemur ekki á óvart þótt fólk flykkist ekki í kirkju út á kynleiðréttan eða kynflæðandi Jesús. En hneykslunin er meiri en ég átti von á og ég hef enga trú á því að það skýrist af því að hinn raunverulegi Jesús hafi ekki verið í neinum vandræðum með að skilgreina kyn sitt. Getur verið að enn eimi eftir af ævafornum hugmyndum um að óreiða sé hættuleg en hið hreina og meinlausa, hið fagra og góða, hið árennilega og örugga falli auðveldlega í flokk?

Þessu tengt: