Mér hefur alltaf, frá því að ég var 7-8 ára, þótt Jesús frekar áhugaverður karakter. Það skiptir ekki máli hvort saga hans er sönn eða hvort hann er þjóðsagnapersóna samsett úr ýkjusögum af hinum og þessum heimsendaspámönnum; áhrif þessa karakters og sögu hans á heimsmynd og hugarfar – og raunar flesta þætti menningarinnar – eru gífurleg.

Klerkar og margir kristnir menn sem eru uppteknir af trú sinni tala mikið um gleði- og fagnaðarboðskap kristninnar. Samt kemur Jesús ekkert fyrir sem neitt sérstaklega glaðlyndur náungi. Hann virðist oftar en ekki frekar reiður út í þá sem voru þó sennilega skárstir meðal áhrifamanna og það er hvergi, svo ég muni amk, talað um að hann hafi hlegið eða verið brosmildur.

Var Jesús fyndinn?

Ég velti því fyrir mér hvort Jesús hafi þótt fyndinn. Hæðnin var hans helsta vopn. Hann hæddist að sjálfsbirgingshætti og hræsni farísea og fræðimanna af gneistandi fyrirlitningu og þótt liðin séu 2000 ár skiljum við ennþá hæðnina í myndlíkingunni um bjálkann og flísina. Fáránleikinn í henni er á sinn hátt fyndinn og gæti verið efni í góða skopmynd. Ef ég sleppi tökum á píslarvættisútlitinu sem listamenn miðalda gáfu honum og les sögurnar án þess að mærðarleg prestsrödd frá 1975 hljómi í eyrum mér, þá sé ég Jesús fyrir mér sem svellkaldan háðfugl. Ekki beinlínis fyndinn en hann setti hnífbeitta samfélagsgagnrýni sína fram á myndrænan hátt og stakk upp í viðmælendur sína. Það hefur sennilega verið nokkuð ferskt á þeim tíma að segja fólki að gjalda keisarnum það sem keisarans er og að skora á þann syndlausa í hópnum að kasta fyrsta steininum. Hann var kaldhæðinn hann Jesús, það er ekki vafamál.

En var hann gárungi? Setti hann háðið fram með glettnum undirtón?

Það er eitthvað ótrúlegt við að maður sem lagði svona mikla áherslu á góðmennsku hafi almennt talað í fyrirlitningartón til þeirra sem hann vildi hafa áhrif á og þótt hann hafi varað lýðinn við hræsni faríseanna þá eyddi hann líka tíma með faríseum og margir þeirra virðast hafa litið upp til hans um tíma. Hann hlýtur að hafa viljað hafa áhrif á þá. Var hann kannski í einhverjum tilvikum að gera grín að þeim sem jafningum eins og þegar vinir skemmta sér hver á annars kostnað án þess að slá beinlínis á viðkvæma strengi? Og átti hann til góðlátlega kímni í bland?

Húmor er svo bundinn tíma og menningu að það sem þótti fyndið á fyrstu öld gæti auðveldlega farið fram hjá nútímamanni. Ég hef spurt presta og trúmenn út í það hvort Jesús hafi haft húmor og fæ venjulega þau svör að sumt af því sem hann sagði megi vel túlka sem húmor í ljósi menningar þess tíma. Samt hefur nú enginn hefur getað nefnt mér slíkt dæmi. Ég hef ekki lesið bók séra Jakobs Jónssonar um húmor í Biblíunni en dæmið sem hann tekur í þessari grein sem birtist í Mogganum á aðfangadag 1965 dugar ekki til að sannfæra mig um að eitthvað hafi þótt spaugilegt við söguna af brúðarmeyjunum sem gleymdu að setja olíu á lampana.

Fyrir nokkrum vikum hnaut ég svo um sögu sem ég hef aldrei tekið sérstaklega eftir fyrr og gæti verið dæmi um húmor en gæti líka afhjúpað Jesús sem óuppdreginn dóna. Það er sagan af því þegar Jesús gleymdi að þvo sér um hendurnar.

Handþvottaritúalið

Kunnu Gyðingar og aðrir Palestínumenn fyrir 2000 árum að þvo sér? Sennilega ekki. Það er frekar ólíklegt að þeir hafi nuddað sápulöðri um hendur sínar í 20 sekúndur og skolað með heitu. En þeir voru samt alltaf að þvo sér. Eða áttu allavega að gera það. Þeir hreintrúuðu töldu nauðsynlegt að þvo sér fyrir hverja máltíð. Sennilega hefur það út af fyrir sig verið skynsamlegt í samfélagi þar sem heimaslátrun var á hverju heimili, allir átu með guðsgöfflunum af sama fati og holdsveiki var algeng (þótt holdsveikir væru reknir út fyrir borgarmörkin hafa þeir væntanlega náð að snerta allmarga hluti áður en sýkingin uppgötvaðist) en handþvotturinn var samt fyrst og fremst trúarritúal.

Tveir guðspjallamannanna, Markús og Lúkas segja frá því að Jesús hafi gagnrýnt handþvottaritúalið með nokkrum þjósti. Matteus minnist ekki á handþvott en segir frá sömu þrumuræðu og Jesús á að hafa haldið í tilefni af athugasemdum farísea um vanrækslu á handþvotti samkvæmt hinum guðspjöllunum.

Jesús virðist ekki hafa verið mótfallinn ritúölum sem slíkum heldur íþyngjandi kreddufestu

Þótt Jesús hafi haft andúð á yfrborðsmennsku og gagnrýnt faríseana fyrir að leggja meiri áherslu á umgjörðina en innihaldið var hann samt ekkert frábitinn ritúölum. Hann leyfði t.d. hóru að þvo á sér fæturna í einni af kynningarherferðum sínum í dreifbýlinu og síðar þvær hann sjálfur fætur lærisveina sinna. Ekki af því að þeir væru svo skíktugir á tánum heldur var það táknræn athöfn. Sennilega hefur andúð hans á handþvottaritúalinu frekar staðið í sambandi við vesen og vatnssóun á ferðalögum og kreddufestu faríseanna en að honum hafi verið illa við ritúalið sem slíkt.

Frásögn Matteusar

Eins og áður sagði er ekki minnst á handþvott hjá Matteusi en frásögn hans virðist tengjast þeirri sögu. Samkvæmt Matteusarguðspjalli er Jesús búinn að ganga berserksgang í musterinu og móðga saddúkea svo rækilega að farísear (sem fyrirlitu saddúkea af sömu ástríðu og #metoo hreyfingin miðaldra hvíta karla) voru farnir að slefa fyrir honum. Jesús stormar svo um Jerúsalem og predikar yfir lýðnum í þeim skammartón sem við þekkjum svo vel og segir þá m.a.

Vei yður, fræðimenn og farísear, hræsnarar! Þér hreinsið bikarinn og diskinn utan, en innan eru þeir fullir yfirgangs og óhófs. Blindi farísei, hreinsaðu fyrst bikarinn innan, að hann verði líka hreinn að utan.

Matteus 23: 25-26

Þetta hljómar ansi yfirlætislega og það í garð nýrra aðdáenda en hann var náttúrulega að setja ofan í við verstu hrokagikki síns samfélags – menn sem höfðu gífurlegt áhrifavald, andskotuðust á hverjum þeim sem varð á í messunni af sömu ákefð og hreintrúaðir réttlætisriddarar okkar tíma og kröfðust refsinga fyrir minnstu yfirsjónir. Farísear voru vel að skensinu komnir.

Það flottasta við söguna er að Jesús virðist hafa látið sér í léttu rúmi liggja þótt farísear væru farnir að kalla hann Meistara. Það mun hafa verið nokkuð gott framboð af spámönnum og götupredikurum á þessum tíma og ef hann hefði einungis verið í vinsældakeppni þá hefði hann líklega sýnt þá pólitísku kænsku að reyna laða þá til fylgilags við sig. Hann hefur sennilega trúað á boðskap sinn í einlægni.

En það er annað sem er áhugavert hér – líkingin við matarílát sem hafa aðeins verið þvegin að utan. Þótti hún hnyttin? Ég hef hallast að því en ég var ekki meðvituð um það fyrr en nýlega að það eru til fleiri afbrigði af þessari sögu.

Handþvottasaga Markúsar

Hjá Markúsi byrjar ræðan um hreinleika hins inna og ytra með þvargi vegna handþvotta. Jesús og lærisveinarnir eru í fyrirlestraferð í Gennesaret, í nágrenni Galíleuvatns, og þangað koma farísear og fræðimenn frá Jerúsalem. Væntanlega af því að þeir höfðu álit á honum. Þeir spyrja Jesús hversvegna lærisveinar hans fylgi ekki þeirri erfðavenju að þvo sér áður en þeir matist heldur borði með „vanhelgum“ höndum.

Jesús svarar þeim: „Sannspár var Jesaja um yður hræsnara, þar sem ritað er: Þessi lýður heiðrar mig með vörunum, en hjarta þeirra er langt frá mér. Til einskis dýrka þeir mig, er þeir kenna þá lærdóma, sem eru mannasetningar einar. Þér hafnið boðum Guðs, en haldið erfikenning manna.“

Markús 7:5-8

Jesús kemur yfir Galíleuvatn til Gennesaret. Ef marka má listamanninn lá honum svo mikið á hjarta að hann var byrjaður að hrauna yfir farísea áður en hann steig á land.

Hann hundskammar þá svo fyrir að hvetja fólk til þess að gefa fé til musterisins frekar en að sjá vel fyrir öldruðum foreldrum sínum og fullyrðir að það sem saurgi mannshjartað sé ekki það sem maðurinn lætur ofan í sig heldur það sem hann lætur út úr sér. Hann skýrir það svo þannig fyrir lærisveinum sínum síðar að það sem maðurinn láti ofan í sig fari í magann og síðan út í „safnþróna“ en frá hjarta hans komi þau illvirki sem hann fremur. Að þeim orðum töluðum afnemur hann reglur um hreina fæðu og óhreina. Lýsir í raun frati á hugmyndir góða fólks þess tíma um hreint og óhreint.

Handþvottasaga Lúkasar

Enn eitt afbrigði sögunnar er að finna í Lúkasarguðspjalli og það er sú saga sem vekur furðu mína.

Þá er hann hafði þetta mælt, bauð farísei nokkur honum til dagverðar hjá sér. Hann kom og settist til borðs. Faríseinn sá, að hann tók ekki handlaugar á undan máltíðinni, og furðaði hann á því. Drottinn sagði þá við hann: „Þér farísear, þér hreinsið bikarinn og fatið utan, en hið innra eruð þér fullir yfirgangs og illsku. Þér heimskingjar, hefur sá, sem gjörði hið ytra, ekki einnig gjört hið innra? En gefið fátækum það, sem í er látið, og þá er allt yður hreint.

Lúkas 11: 37-41

Bíddu nú við! Hann er í matarboði. Er ekki frekar ólíklegt að maður, jafnvel þótt hann líti ansi stórt á sig og sé að reyna að markaðssetja sig sem spámann, gefi skít í borðsiði og ausi svo óhroða yfir gestgjafa sinn þegar hann hefur orð á því? Kannski var alþýðan ekkert eins upptekin af handþvotti og farísear og maður skilur alveg að Jesús og félagar hafi viljað spara drykkjarvatn á ferðalögum en þarna er hann gestur í húsi þar sem vatn til handþvotta var í boði.

Getur verið að hann hafi hreinlega bara gleymt sér? Verið mjög svangur, í hrókasamræðum, og goggað í sig brauðbita án þess að hugsa beinlínis út í það? Getur verið að þetta með að þvo ílátin hafi verið sagt í kerksni með glotti út í annað eða augað í pung? Var hann kannski að svara fyrir sig af kokhreysti í húsi góðkunningja sem var vanur að nöldra í honum og fá einhverjar pillur til baka?

Var Jesús óuppdreginn dóni eða er sagan sprottin af atviki þar sem dínamík í samskiptunum vina er gleymd og grafin?

Framhaldið gefur ekki beilínis tilefni til þeirrar túlkunar að Jesús hafi veirð að grínast. Hann heldur áfram að hrauna yfir gestgjafann og vini hans þar til lögvitringur meðal gesta tekur til máls og segir: „Meistari, þú meiðir oss líka með því, sem þú segir.“ Ekki róast Jesús við þá kurteislegu ábendingu, heldur tekur hann til við að úthúða lögvitringum.

Jesús virðist, við þetta tækifæri, hafa gengið gjörsamlega fram af mönnum sem þó voru nógu jákvæðir gagnvart honum til þess að kalla hann Meistara því sagan endar á því að eftir þetta boð hafi fræðimenn og farísear setið um að hanka hann á einhverjum ummælum:

Og er hann var farinn út þaðan, tóku fræðimenn og farísear að ganga hart að honum og spyrja hann í þaula um margt og sitja um að veiða eitthvað af vörum hans.

Lúkas 11: 53-54

Ef Jesús var að reyna að slá á létta strengi í þessu matarboði þá hafa viðstaddir ekki kunnað að meta þau sniðugheit.

Kærleikurinn er kaldhæðinn

Ég hef reynt að lesa meinlausa kímni inn í sögur Nýja testamentisins en ég finn þar ekkert sakleysislegt spaug, aðeins nístandi kaldhæðni sem maður hefði kannski búist við af Christopher Hitchens.

Jesús var ekki það sem siðapostular okkar tíma myndu kalla „málefnalegur“. Hann var ekki kurteis, ekki einu sinni þegar honum var boðið í mat til fólks sem hafði áhuga á ræða við hann pólitík og trúmál. Hann sýndi lítilmagnanum mildi en hann hikaði aldrei við að hjóla í valda- og áhrifamenn með stóryrðum og skömmum, það kom meira að setja fyrir að hann gengi fram með ofbeldi.

Kærleiksboðskapur Krists er ekki sykurhúðaður, ekki þægilegur, ekki tillitssamur og ekki háttprúður. Og hafi Jesús kennt fylgendum sínum eitthvað um það hvernig tala skuli til þeirra sem telja sig yfir aðra hafna, þá sem líta niður á fátæklinga, útlendinga, synduga og veika, þá sem vilja refsa og fordæma og þá sem vilja hafa vit fyrir öðrum og stjórna hegðun þeirra, þá er það með óbótaskömmum og háðslegu myndmáli.

Jesús var ekki skemmtilegur í sama skilningi og uppistandari. En þessi óþvegni ruddi frá Nasaret boðaði sannarlega enga tillitssemi við valdafólk og siðapostula og hefði sennilega sagt þeim sem kalla eftir kurteislegri samfélagsumræðu að troða stjórnseminni upp í safnþróna á sér. Og mér finnst eitthvað óstjórnlega skemmtilegt við það.

Þessu tengt: