Í netumræðu síðustu vikna hefur borið á kröfu um skýringar á því hvað átt er við með stimplinum góða fólkið.  Þeir sem undrast svo mjög þessa hugmynd eru oftar en ekki fólk sem gæti sem best tekið merkimiðann til sín.

Þar sem ekki er um að ræða sérstaka hugmyndafræði heldur ósköp mannlega eiginleika, sem ég er hreint ekki saklaus af sjálf, sé ég lítinn tilgang í því að hengja þennan merkimiða á tilteknar persónur. Ég gagnrýni þó oft þann pólitíska rétttrúnað sem einkennir orðræðu þeirra sem sumir kalla „góða fólkið“ og er að því leyti þátttakandi í þessari umræðu. Reyndar er hugmyndin svo gagnsæ að ég trúi því ekki að hún vefjist fyrir nokkrum manni en mér til skemmtunar ætla ég samt að skrifa dálitla hugleiðingu um góða fólkið og faríseana.

Farísear voru gott fólk

„Góða fólkið“ er farísear nútímans. Nú veit ég að einhver móðgast því í vestrænni nútímamenningu merkir orðið „farísei“ það sama og hrokafullur hræsnari. Ein af þekktustu sögum Nýja testamentisins er sagan af faríseanum og tollheimtumanninum en þar ávítar Jesús farísea fyrir að telja sjálfa sig siðferðislegt afbragð annarra manna. Hann bendir á að það sé hræsni að stæra sig af góðu siðferði en sýna um leið fyrirlitningu á syndurum, sem sumir hverjir amk, horfast þó í augu við breyskleika sinn.

En vitiði hvað; farísear voru alls ekki slæmar manneskjur og kannski bara ögn skárri en aðrir hópar áhrifamanna. Trú og pólitík voru á þessum tíma samtvinnuð og stjórnmálaástandið var í stuttu máli þannig að saddúkear höfðu nánast öll völd í landinu. Bæði hernaður og skattheimta voru á höndum saddúkea og það voru þeir sem önnuðust samskiptin við Rómverja. Þeir voru hástétt sem réði yfir miklum auði. Vandlætarar voru annar áhrifahópur sem oft er nefndur. Þeir voru ofstækisfullir og herskáir en sennilega í miklum minnihluta. Meinlætamenn létu aðra að mestu í friði og höfðu sáralítil pólitísk áhrif. Hin pólitísku átök voru fyrst og fremst milli saddúkea og farísea.

Farísear voru ekki valdastétt, heldur talsmenn alþýðunnar. Þeir voru miklir móralistar og íhaldssamir í þeim skilningi að þeir álitu saddúkea sýna allt of mikið umburðarlyndi gagnvart glæpamönnum. Pólitískar hugmyndir þeirra voru þó að mörgu leyti róttækar og þeir boðuðu hófsemd og heiðarleika sem átti ekki upp á pallborðið hjá yfirstéttinni. Farísear höfðu áhrifavald meðal alþýðunnar og öðluðust með tímanum bæði kennivald og bein, pólitísk völd.

Farísear, syndararnir og Jesús

Farísear lögðu sig fram um að vera góðir menn og höfðu óbeit á bersyndugum. Það er ekki eins og ljótt og það hljómar. Við skulum athuga að það er munur á syndugum og bersyndugum. Farísear höfðu skilning á því að fólki gæti orðið á að syndga. Bersyndugir voru aftur á móti þeir sem kusu að lifa í syndinni. Tóku meðvitaða ákvörðun um að brjóta gegn siðaboðum Gvuðs. Og það var bara allt annað mál.

Þeir bersyndugu sem oftast eru nefndir í Bilblíunni eru óskírlífar konur og tollheimtumenn. Tollheimtumenn voru ekki bara gerspillt stétt sem misnotaði aðstöðu sína til að kúga fé af blásnauðum almúganum heldur voru þeir einnig starfsmenn Rómaveldis og þar með álitnir hálfgerðir föðurlandssvikarar. Það voru ekkert bara farísear sem fyrirlitu þá, þeir voru einnig illa séðir meðal ómenntaðrar alþýðunnar.

Jesús var ekki óvinur farísea. Páll postuli var ákafur farísei en snerist til kristni, það gerðu fleiri farísear og reyndar er ekki annað að sjá en að kristni og faríseismi hafi að mörgu leyti átt samleið. Almennt virðist Jesús líka hafa átt ánægjuleg samskipti við farísea þótt hann hafi gagnrýnt þá eins og aðra áhrifamenn og jafnvel hundskammað þá. Jesús greindi þó augljóslega á við farísea í afstöðunni til syndarans. Farísear voru fylgjandi hörðum refsingum og vildu helst úthýsa hinum bersyndugu úr samfélaginu. Jesús taldi aftur á móti að farsælla væri að reyna að snúa þeim til betri vegar með því að koma fram við þá af virðingu og mildi. Hann virðist líka hafa álitið að fylgispekt farísea við reglur og siðalögmál (það sem í dag er kallað pólitísk rétthugsun) hafi stundum borið miskunnsemi og mannkærleika ofurliði.

Farísear nútímans

Ég get alveg séð sjálfa mig í faríseanum. Ég hef óbeit á yfirvaldi. Mér finnst í lagi að ganga miklu lengra en að berja búsáhöld til þess að uppræta stjórnkerfi og fjármálakerfi sem býður beinlínis upp á misnoktun. Og mér finnst sá kapítalismi, sem álítur réttlætanlegt  að 1% samfélagsins ráði yfir 40% veraldlegra gæða, fullkomlega viðbjóðslegur.

Ég hefði áreiðanlega verið á móti saddúkeum ef ég hefði búið í Júdeu fyrir 2000 árum. Mér hefði örugglega þótt misnotkun tollheimtumanna á aðstöðu sinni fyrirlitleg. Ég hef oft gert mig seka um að yfirfæra andúð mína á tiltekinni hegðun yfir á fólk og jafnvel dæmt manneskjur út frá félagslegri stöðu sinni.

En þótt ég sé ekki kristin finnst mér samt líklegt að mildi og mannúð skili betra samfélagi en refsigleði og fordæming. Þessvegna finnst mér vert að reyna að forðast þá miklu vandlætingu og þann pólitíska rétttrúnað sem einkenndi farísea. Sérstaklega finnst mér það eiga við þegar fjallað er um einstaklinga sem eiga ekki skjól í valdaklíkum og hefur kannski orðið eitthvað á, fremur en að telja ósæmilega hegðun góða og gilda. Það þýðir ekki að samfélagið eigi að umbera glæpi eða láta vonda hegðun óátalda en það merkir að góðar manneskjur, eins og við, ættum kannski að prófa að tala við „hina bersyndugu“ í stað þess að tala aðeins til þeirra og þá yfirleitt niður til þeirra.

Og kannski ættum við að hafa í huga að það er svolítil hætta á því að það fari eins fyrir góða fólkinu í dag og faríseunum, sem þrátt fyrir að berjast fyrir réttlátum málstað og þrátt fyrir að vera sennilega ögn skárri en meðalmaðurinn, eru í hugum nútímafólks holdtekja hræsninnar og hrokans.