Í síðasta pistli talaði ég um tengsl „góða fólksins“ við faríseisma. En það er fleira en siðavendni og pólitísk rétthugsun sem einkennir góða fólkið. Annað sterkt einkenni er forræðishyggja. Sú sannfæring að sauðheimskur almúginn kunni ekki fótum sínum forráð og því þurfi yfirvaldið að veita honum föðurlegt aðhald – eftir forskrift hinna réttlátu; þeirra sem vegna siðferðilegra yfirburða sinna vita –ekki bara muninn á réttu og röngu, heldur líka hvað hinum fávísu og ófullkomnu er fyrir bestu. Hægt væri að tína til margar sögulegar hliðstæður við góða fólkið en í dag ætla ég að tala um góðtemplarahreyfinguna.

Góðtemplarar voru (og eru) gott fólk

Góðtemplarareglan varð til á 19. öld. Hún sækir hugmyndafræði sína og uppbyggingu til Frímúrarareglunnar og svipaðra félaga sem kenna sig við musterisriddara. Frímúrarar hafa löngum verið tengdir vald- og auðmannsstéttum í huga almennings og hin mikla leynd sem ríkir yfir starfsemi þeirra, langvarandi kynþáttaaðskilnaður og útilokun kvenna frá reglunum, hefur getið af sér margar og mistrúlegar sögur af satansdýrkun, zíonisma og heimsyfiráðastefnu Frímúrarareglunnar. Hvort eitthvað er hæft í safaríkum svallsögum og hugmyndum um heimsvaldaóra leynireglna af þessu tagi skal ósagt látið en það sem við vitum fyrir víst er að þær hafa unnið mikið mannúðarstarf, ekki síst með stuðningi sínum við Rauða Krossinn. Þær hafa einnig getið af sér Lions-klúbba og fjölda annarra hreyfinga sem eru lítið í leynimakki en starfa fyrst og fremst að líknarmálum og mannrækt. Lítill vafi er á að flestir þeirra sem starfa með slíkum félögum vilja láta gott af sér leiða og sýna umhyggju fyrir lítilmagnanum í verki.

Góðtemplarareglan  er mannræktarhreyfing, upprunnin í Bandaríkjunum 1850.  Starfsemi góðtemplara er að miklu leyti opinber og snemma var tekin sú afstaða að meina ekki fólki þátttöku á grundvelli kyns eða kynþáttar. Sjálft nafn Góðtemplarareglunnar afhjúpar hugmyndafræðina; meðlimir vilja vera góðar manneskjur, og álíta að því markmiði verði best þjónað með hófsemi og helst algeru bindindi á áfengi og önnur nautnalyf.

Góðtemplarar voru bjargvættir

En góðtemplarar álitu ekki einungis að þeim sjálfum bæri að vera góðar og hófsamar manneskjur. Þeir töldu sér líka skylt að bæta heiminn með því að sjá til þess að aðrir hegðuðu sér jafn vel. Og þegar ekki dugði að breiða út fagnaðarerindið, þá var það talið merki þess að fávís almúginn skildi ekki nauðsyn þess að halda sig frá áfengi, og því væri nauðsynlegt að hafa vit fyrir honum. Árið 1859 setti góðtemplarahreyfingin sér formleg markmið.  Eitt þeirra var:

að stuðla að heilbrigðri afstöðu almennings til málefnisins, með því að útbreiða sannleikann, með öllum þeim ráðum sem upplýstar góðgerðahreyfingar hafa yfir að ráða.

(The creation of a healthy public opinion upon the subject by active dissemination of truth in all the modes known to an enlightened philanthropy.)

Önnur markmið snerust um að koma á almennu áfengisbanni, og velja til þess „góða menn og heiðarlega“ að koma slíkum lögum í framkvæmd.

Hugmyndin var í alvöru talað göfug. Hún var ekki sú að sölsa undir sig völd og auð, heldur að sýna lítilmagnanum umhyggju. Nota upplýsta visku sína og mannkærleik til að bjarga hinum fátæku, fávísu og veiku frá sjálfum sér. Engin ástæða þótti til að hlusta á þá sem sögðust ráða við að drekka hóflega, enda voru þeir drykkjumenn sem höfðu hvorki „heilbrigða afstöðu“ né vissu „sannleikann“ um áfengisdjöfulinn.

Áhrif góðtemplara á almenna afstöðu til drykkju urðu gríðarleg. Á Íslandi var áfengisbann t.d. samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslu árið 1908. Lögin tóku gildi 1915 en illa gekk að framfylgja banninu. Á bannárunum í Bandaríkjunum dró úr áfengisneyslu, að því er talið er um helming. Hvort neyslan minnkaði meðal þeirra sem síst réðu við drykkju sína er svo allt annað mál. Hugsanlega voru áhrif templara fremur þau að herða afstöðu þeirra sem óttuðust áhrif áfengis en að draga úr drykkju hinna lausbeisluðu.

Upplýsa, bjarga og banna

Í hugum góðtemplara var alþýðan óupplýst barn sem þurfti föðurlega handleiðslu. Markmiðið var að hindra almúgamanninn í því að skaða sjálfan sig og fjölskyldu sína og samfélag í leiðinni. Því markmiði var þjónað annarsvegar með áróðri og, þegar það dugði ekki til, með því að virkja yfirvöld í þágu málstaðarins. Þessi afstaða er síður en svo bundin við templara. Á Íslandi í dag eru svipuð viðhorf ríkjandi á ýmsum sviðum en endurspeglast líklega skýrast í hugmyndum um að uppræta klám- og kynlífsiðnað.

Þessi forræðishyggja er eitt af því sem átt er við með umræðunni  um „góða fólkið“. Góða fólkið telur sig vita „sannleikann“ um tiltekið svið og álítur sér skylt að útbreiða þann „sannleika“ og „koma á heilbrigðum viðhorfum“ meðal almennings. Góða fólkið er nógu sannfærandi og hefur nógu mikil ítök innan stjórnmálanna til þess að öðlast kennivald. Góða fólkið er, eins og templarar, sannfært um að alger óþarfi sé að hlusta á skoðanir þeirra sem telja markmið þess óraunhæf og jafnvel skaðleg, enda séu öll andmæli við boðskapinn skýr sönnun um annarlega hagsmuni, heimsku, geðveiki eða hreinræktaða illsku andmælendana. Góða fólkið telur einnig að yfirvöld eigi að ganga erinda þess, t.d. með lagasetningu, skólastefnu og styrkjum til verkefna sem handhafar kennivaldsins álíta þörf og góð.

Ég efast ekki um góðvilja flestra þeirra sem aðhyllast pólitíska forræðishyggju. Hvort góður ásetningur hefur góðar afleiðingar er svo allt annað mál. Kannski ætti það góða fólk sem vill bjarga mér og öðrum óupplýstum og illa innrættum, hagsmunapotandi geðsjúklingum frá klámgrýlunni, fíkniefnadjöflinum og frelsinu til þess að ráða yfir eigin líkama, að velta því fyrir sér hvort það væri til í að láta góðtemplara 19. aldar ráða áfengislöggjöfinni.  Eða hvort það vildi láta Votta Jehóva ráða því hvaða tónlist er spiluð í útvarpi. Vottarnir eru nefnilega jafn sannfærðir um skaðsemi rangrar tónlistar, og texta sem þeir flokka sem guðlast, og góða fólkið um skaðsemi klámsins.