Á megrunarlausa daginn minntust margir á gagnsleysi bmi-stuðla. Meðal þeirra var Gísli Ásgeirsson sem sagðist vera hin mesta feitabolla samkvæmt bmi-stuðli og trúði nú bara líðan sinni og útliti betur.

Jamm. Ef þessi mynd, sem ég stal blygðunarlaust af netinu, sýnir feitabollu, hlýtur hún að vera  þokkalega fótósjoppuð. Ég hef fyrir satt að svo sé ekki svo rökrétta ályktunin er sú að það sé eitthvað að stuðlinum en ekki holdafari Gísla.

En er þetta alveg svo einfalt? Er hægt að afskrifa mælitæki eins og bmi-stuðul, bara af því að kenningin gengur ekki upp í einhverju ákveðnu tilfelli?

Ef við skoðum nú aðeins tilurð þessa margfræga bmi-stuðuls, þá kemur fljótt í ljós hversvegna hann virkar ekki fyrir Gísla. Stuðullinn var nefnilega ekki búinn til í þeim tilgangi að meta þyngd einstaklinga, heldur til að bera saman stóra hópa og fylgjast með þróun holdafars þjóða eða annarra stórra hópa yfir langt tímabil. Nú skal ég ekki segja til um hvort hann þjónar þeim tilgangi vel eða illa, en stóra málið er að bmi stuðlar eru notaðir á allt annan hátt en þeim var ætlað. Það þarf því engan að undra þótt niðurstaðan verði stundum  óttaleg vitleysa.

.

.

Auður, Egner og Bechdel-módelið

Ég stórefast um að mikil alvara hafi verið á bak við ummæli Auðar Magndísar Leiknisdóttur í viðtali við Smuguna. Hún segist hafa orðið undrandi þegar hún skoðaði hið vinsæla barnaleikrit Thorbjörns Egner, Dýrin í Hálsaskógi, með kynjagleraugum og komst að því að það stenst ekki Bechdel-prófið. Mér finnst nú líklegast að fésbókarstatusinn sem vakti þessa umræðu hafi verið settur fram í hálfkæringi. Ég ætla allavega að vona að Egner verði ekki brenndur á báli feminismans þótt hann hafi ekki fjallað sérstaklega um jafnrétti kynjanna eða skotið inn léttu spjalli bangsamömmu og ömmu músar. Það hlýtur að mega heilaþvo blessuð börnin með fórnarlambsrunki og klámvæðingardjöflinum án þess að neita þeim um heimsbókmenntir.

Bechdel-prófið er skemmtileg aðferð til að skoða kvikmyndir út frá kynjaímyndum. Kröfurnar sem Bechdel gerir til þess að kvikmynd teljist gera konum nógu hátt undir höfði eru þrjár:

  • Að í myndinni komi fyrir fleiri en ein kvenpersóna í markverðu hlutverki.
  • Að samræður eigi sér stað milli kvenna í markverðum hlutverkum.
  • Að samræðurnar snúist um eitthvað annað en karlmenn.

Ég er ekki mikil áhugamanneskja um kvikmyndir og hef ekki gert neina úttekt sem er nógu yfirgripsmikil og markviss til að ég þori að fullyrða neitt um tíðni samtala kvenna í bíómyndum.  Ég hef þó gert mér það til gamans að skoða fjölda bíómynda, sjónvarpsþátta, leiksýninga og skáldsagna í þessu ljósi og ég get ekki annað en tekið undir það sjónarmið að konur eiga furðu sjaldan áhugaverðar samræður um annað en karlmenn (amk í þeim verkum sem ég þekki). Og það segir okkur eitthvað. Ég veit ekki nákvæmlega hvað það segir um stöðu kvenna, en mér finnst það athyglisvert.

Svo gott og vel, gefum Bechdel séns. Eru barnaleikrit Egners þá andfeminísk verk? Er Litla ljót, þar sem allar persónurnar eru kvenkyns og karlmenn koma lítt til umræðu, feminískt verk?

Nei, auðvitað er þetta ekki svona einfalt. Litla ljót er, hvað sem kynjahlutföllum líður, eitthvert kvenfjandsamlegasta barnaleikrit allra tíma og það eru ekki samræður kvenna sem gera Línu langsokk að sterkum karakter. Það eru heldur ekki samræður kvenna sem gera þúsaldarbækur Stiegs Larson og myndirnar sem gerðar voru eftir þeim að feminisku verki.

Ég veit svosem ekki hvernig Bechdel hugsaði sér að módelið yrði notað en ég efast um að tilgangurinn hafi verið sá að leiða í ljós algildan sannleika um allar bíómyndir. Sjálf lít ég á módel Bechdel sem áhugaverða aðferð til að skoða heildarsamhengið. Mér þætti t.d. gaman að sjá niðurstöðuna ef því yrði beitt á allar kvikmyndir sem sýndar eru á Íslandi á einu ári. Módelið eitt og sér segir hinsvegar ekki stóran sannleika um þau viðhorf til kynjanna sem endurspeglast í tiltekinni kvikmynd. Ekki frekar en bmi-tala Gísla Ásgeirssonar segir neinn stóra sannleika um holdafar hans.

Þessu tengt: