Þegar ég var lítil heklaði móðir mín handa mér púða sem ég var mjög hrifin af, súkkulaðibrúnt andlit með trúðsmunn og mikið úfið hár. Þetta var negraskrípi (golliwog), svipað svartálfunum í bókunum um Dodda í Leikfangalandi.
Ég átti líka tvær svartar brúður. Mér þótti dökk húð svo falleg og föt í skærum litum nutu sín mun betur á svartri dúkku en hvítri. Þessar brúður voru börn. Negraskrípið var ekki barn heldur í flokki með trúðum og tuskudýrum. Engu að síður er negraskrípið niðrandi skopstæling á blökkumanni og ég myndi sennilega ekki gefa barni slíkt leikfang enda mörkuð af vitundarvakningu síðustu áratuga. Kynslóð foreldra minna ólst hinsvegar upp við kynþáttafordóma, það var sjálfsagt mál að sýna fólk af öðrum kynþáttum sem heimskt, ofbeldisfullt og óhreint. Barrnabækur voru fullar af svörtu þjónustufólki og asískir menn voru stórfurðulegir og oft hættulegir.
Það má alveg gagnrýna það og það er líka sjálfsagt að gagnrýna leikföng og barnabækur sem ýta undir kynjafordóma, stéttafordóma, fitufordóma eða hvaða fordóma sem er.
Ég hef velt því fyrir mér hvort er virkilega þörf á að gerilsneyða barnamenningu af öllum óæskilegum viðhorfum. Hvort við séum að rugla saman því að kenna þeim hreinlæti og að banna þeim að leika sér í drullupollum. Svartálfarnir hafa verið gerðir útlægir úr Doddabókunum. Það er enginn missir af þeim fyrir þau börn sem ekki hafa kynnst þeim og ég býst við að eitthvað annað komi í staðinn en ég finn fyrir aðkenningu af söknuði. Ég geri ráð fyrir að þær bækur sem Enid Blyton skrifaði fyrir stálpuð börn og nutu fádæma vinsælda séu úreltar af ýmsum öðrum ástæðum en þeim augljósa rasisma sem einkennir þær. Sjálfsagt eru fá nútímabörn sem liggja í Tinnabókunum þar sem staðalmyndirnar æpa á mann á hverri síðu en þessar bækur veittu mér ómælda gleði.
En þarna stend ég sjálfa mig að tvískinnungi. Ég var hrifin af Dodda og svartálfunum og þá hljóta þeir að vera í lagi. En Obama-apinn – það er allt annað mál. Eða kannski ekki?
Auðvitað er Obama-apinn ekkert annað mál eða verra en sá rasismi sem ég ólst upp við. Rasismi er ekkert skárri þótt maður sé ónæmur fyrir honum, sennilega verri ef eitthvað er. Nostalgían í mér og minni kynslóð skiptir auðvitað engu máli og þetta er ekkert í fyrsta sinn í sögunni sem menn ritskoða barnaefni. Grimmsævintýrin eru fegraðar útgáfur af mun hrylllegri sögum og myndabækur síðustu áratuga eru svo aftur mildari gerðir af endursögn Grimmsbræðra. Og ekki kvartar nokkurt barn yfir skorti á hryllingi þegar vonda stjúpan er ekki látin dansa á glóandi járnskóm þar til hún hnígur niður dauð eða að kvenfyrirlitningin sé ekki nógu stæk ef prinsessan er spurð álits áður en kóngurinn gefur hana einhverjum manni, ásamt hálfu ríkinu.
Þessi auglýsing hefur örugglega átt að vera sæt og fyndin en ég efast um
að svörtu fólki á 5. áratug síðustu aldar hafi almennt þótt þetta sniðugt
Það er ekki of langt gengið í pólitískri rétthugsun að sníða endurútgáfu barnaefnis að nútímalegri viðhorfum, vonandi er það efni sem ætlað er börnum í dag heilnæmara en staðalmyndir 6. og 7. áratugarins og vonandi verða þau betri manneskjur en við sem lásum Enid Blyton og lékum okkur að negraskrípum. Hvort það er raunhæft markmið að framleiða gerilsneytt barnaefni er svo annað mál. Ég sé ekki betur en að stór hluti þeirra leikfanga og barnamenningar sem nú nýtur vinsælda sæti líka gagnrýni fyrir að ýta undir óæskileg viðhorf. Og best gæti ég trúað því að það sem í dag þykja góðar fyrirmyndir verði fordæmt eftir 40 ár.
Það verður áhugavert að sjá hvernig efni sem í dag er talið hafa uppeldislegt gildi verður tætt niður eftir nokkra áratugi. Mín kynslóð er nú þegar að átta sig á því hvað það var móðgandi gagnvart feitu fólki að halda heilsuáróðri að börnum. Latibær var fagnaðarerindi þegar synir mínir voru að alast upp en 25 árum síðar áttuðum við okkur á því að Latibær er ekkert annað en gróðrastía eineltis og fordóma gegn þeim feitu, stirðu og værukæru. Sennilega styttist í að við verðum rassskellt fyrir að hafa alið börn upp við fordóma gegn fíkniefnaneytendum.