Þorkell Ágúst Óttarsson er íslenskur kvikmyndaáhugamaður búsettur í Noregi. Hann hefur þrátt fyrir takmörkuð fjárráð gert fjölda stuttmynda og hefur nú náð þeim árangri að fyrsta mynd hans í fullri lengd Suicide Service var valin besta myndin í alþjóðlegu kvikmyndasamkeppninni The Monkey Bread Tree, auk þess sem hann var tilnefndur til verðlauna fyrir bestu kvikmyndatökuna.

Nick Faust fer með hlutverk læknisins Roy sem býður upp á sjálfsmorðsþjónustu

Hvert er efni þessar myndar Suicide Service?

Þetta er mynd um lækni sem tekur að sér að aðstoða fólk við að fyrirfara sér og elskhuga hans sem tekur þátt í þessu með honum. Við kynnumst viðskiptavinum þeirra og þeim aðstæðum sem knýja fólk til þess að taka þessa ákvörðun. Ég er fyrst og fremst að takast á við þann tvískinnung sem einkennir allt siðgæði. Við höldum fast við siðferðishugmyndir okkar á meðan það hentar okkur en þegar á reynir erum við oftar en ekki tilbúin til að selja öll prinsipp. Siðgæðið er hóra. Það er þema myndarinnar.

Hverskonar keppni er The Monkey Bread Tree?  

Þetta er ekki hefðbundin kvikmyndahátíð heldur samkeppni sem er ætluð sjálfstæðum kvikmyndagerðarmönnum. Það er hægt að senda inn myndir 4-5 sinnum á ári en þetta er ekki hátíð sem er opin almenningi heldur skoðar fagfólk myndirnar og leggur mat á þær. Keppnin er bæði fyrir leikmenn og atvinnufólk og myndin má vera dýr eða ódýr í framleiðslu; helsta skilyrðið er að framleiðandinn sé sjálfstæður.

Hefurðu tekið þátt í þessari keppni áður?

Nei, þetta er bara annað árið sem verkefnið er í gangi og þetta er fyrsta myndin sem ég geri í fullri lengd. Ég hef einu sinni sýnt stuttmynd á kvikmyndahátíð og hún fékk ekki þær viðtökur sem ég vonaðist eftir svo þetta kemur ónægjulega á óvart. Ég gerði mér vonir um að vinna til verðlauna í flokki ódýrra mynda en það hvarflaði ekki að mér að hún yrði valin besta myndin óháð kostnaði, hvað þá að ég yrði líka tilnefndur til verðlauna fyrir bestu kvikmyndatökuna. Það eru bara þrjár tilnefningar í hverjum flokki svo þetta er fínn árangur.

Hefurðu lært kvikmyndagerð eða unnið við hana?

Ekki formlega nei en ég hef verið að fikta við þetta síðan ég var krakki. Ég hef leikstýrt líklega 12 stuttmyndum og komið að kvikmyndagerð með ýmsum hætti, aðstoðað við tökur, hljóð og fleira en ég hef aldrei haft atvinnu innan kvikmyndageirans og er að mestu sjálfmenntaður. Ég lærði reyndar kvikmyndafræði og hef tekið nokkur námskeið en ég hef engin próf í kvikmyndagerð eða öðru sem henni tengist.

Tor Itai Keilen í hlutverki Eriks, elskhuga læknisins

Hvernig fjármagnar leikmaður kvikmyndagerð? Fékkstu einhverja styrki eða lán?

Það eru til sjóðir sem hægt er að sækja í en ég hef ekki lagt mig mikið eftir þeim. Mér finnst niðurdrepandi að sækja um styrki, ekki bara af því að það dregur úr manni drifkraftinn að fá synjun, heldur líka af því að maður þarf að bíða eftir svari kannski hálft á eða jafnvel heilt og þegar svarið kemur er maður kannski bara kominn í aðrar pælingar. Ég vil vinna að hverju verkefni á meðan ég er spenntur fyrir því. Það útheimtir líka vinnu að sækja um styrki, maður þarf að vera með niðurneglda áætlun og möguleikarnir á því að fá styrk eru ekkert miklir.

Ég sótti ekki um neinn styrk til þess að gera þessa mynd heldur ákvað ég að sanna það fyrir sjálfum mér og vonandi öðrum að ég væri fær um að gera þetta af eigin rammleik. Þegar ég var unglingur sá ég She’s Gotta Have It, eftir Spike Lee, á kvikmyndahátíð. Sú mynd var gerð fyrir vasapening frá fólki af götunni og með aðstoð vina og vandamanna  Allar götur síðan hef átt mér rómantískan draum um að fyrsta myndin mín yrði gerð fyrir vasapening. Ég var svo heppinn að fá sjálfboðaliða til að leika og aðstoða við annað sem þurfti svo það tókst. Ég fékk meira að segja fagmenn í tvö stærstu hlutverkin.  Nick Faust sem leikur Roy er bandarískur sviðsleikstjóri og hann kom frá Bandaríkjunum til að leika í myndinni og Tor Itai Keilen sem leikur Erik er atvinnuleikari hér í Noregi.

Þetta hljómar eins og það sé ekkert svo mikið mál að gera kvikmynd í frístundum, lentirðu ekki í neinum vandræðum?

Maður rekst auðvitað að fullt af vandamálum, þetta er sennilega erfiðasta leiðin til að gera kvikmynd en hinsvegar sú ódýrasta. Maður þarf að vera tilbúinn til þess að læra mikið og vera allt í öllu til þess að þetta sé hægt; ég er í senn framleiðandi, handritshöfundur, leikstjóri og kvikmyndatökumaður auk þess sem ég sá um klippinguna. Stærsta vandamálið var hljóðið, maður getur ekki bæði haldið á kvikmyndatökuvél og séð um hljóðið í einu svo ég þurfti að fá aðra leikmenn til þess.

Við lentum reyndar í einni eftirminnilegri uppákomu. Norðmenn virðast vera óvenju tortryggnir gagnvart myndavélum, ég hef oft fengið spurningar í grunsemdatón ef ég hef verið með myndavél á almannafæri. Í þetta sinn vorum við að skjóta senu sem gerist í bíl. Tvær konur komu til okkar og spurðu hvort við værum að njósna um þær. Ég neitaði því bara og bað þær að vera ekki of nálægt því þetta inngrip þeirra skemmdi senuna. Við héldum svo áfram stutta leið en fljólega stoppaði löggan okkur. Konurnar höfðu haft samband við lögregluna og kvartað um að við værum að mynda þær. Lögreglan spurði hvað við værum að gera og ég sagði hreint út að þeim kæmi það ekki við. Ég hefði ekki framið neitt lögbrot og þeir hefðu engan rétt til að hafa nein afskipti af mér. Aumingja leikararnir mínir voru alveg í hnút yfir því hvað ég væri dónalegur við lögguna en ég er bara ekkert til í að láta trufla mig með svona vitleysu. Það endaði með því að þeir fóru. Þegar við komum aftur á staðinn þar sem við höfðum hitt konurnar, voru þær þar ennþá og voru greinilega að fylgjast með okkur. Mér finnst það kostuleg hugmynd hjá þeim að við höfum haft einhvern áhuga á þeim því ég beindi vélinni inn í bílinn en ekki að neinum vegfarendum.

Það er auðvitað gaman að fá verðlaun en breytir þessi árangur einhverju fyrir þig í reynd, sérðu t.d. fram á að þetta opni þér ný tækifæri?

Já, ég hef trú á því. Það er klíkuskapur í kvikmyndaheiminum eins og annarsstaðar og mjög erfitt fyrir þann sem vill vinna utan kerfisins að koma sér á framfæri. Kvikmyndaelítan á Íslandi hefur algjörlega hunsað mig og sjálfstæðir kvikmyndagerðarmenn sem ég þekki til bæði á Íslandi og í Noregi hafa svipaða reynslu. Ef maður fær einn styrk eru nokkuð góðar líkur á að boltinn fari að rúlla en ef þú gefur skít í kerfið þá nýturðu ekki viðurkenningar þótt afraksturinn sé góður. Þeir sem vinna við að veita styrki þurfa sjálfir að gera sig gildandi. Þeir þurfa að sýna fram á að þeir séu að gera eitthvað af viti og afleiðingin er sú að það eru þeir sem fá styrkina sem fá alla athyglina og þannig leiðir eitt af öðru.

Þessi viðurkenning er virkilega uppörvandi og mun vonandi bæði hjálpa mér að koma myndinni í dreifingu og að koma öðrum verkum á framfæri. Ég vonast til þess að þurfa ekki að byggja næstu mynd eingöngu á sjálfboðavinnu. Það er gaman að hafa gert það og dálítið rómantískt að takast á við það en maður gerir auðvitað ekki margar myndir með tvær hendur tómar og mig langar að geta boðið fólkinu mínu laun.

Verður myndin sýnd á Íslandi? Ég er búnn að senda hana á RIFF svo ég vona að hún verði valin til sýningar.

Hér má sjá nokkrar stuttmyndir eftir Þorkel Ágúst Óttarsson: