Svokallaðir femínistar mega eiga það að þeir eru duglegir að finna sér baráttumál. Íslenskir femnistar áttuðu sig um síðir á hinu stórkostlega vandamáli sem femínistinn My Vingren vakti athygli á fyrir nokkrum árum með herferð sem fólst í því að mynda karlmenn sem sátu gleiðir í lestum og öðrum farartækjum ætluðum almenningi. Ekki veit ég hvor My Vingren varð fyrst til þess að beita myndavél í stríðinu gegn hrútvíkkun en ég hef allavega ekki séð eldri dæmi um samskonar aðgerðir. Íslenskar mæðgur öpuðu þetta upp þegar þær voru á ferðalagi í London síðasta vetur og þar með er stríðið gegn þessu stóra og mikla vandamáli hafið hér heima.
Að mínu mati er besta framlag femínistahreyfingarinnar til samfélagsins, síðustu árin, skemmtilegar þýðingar á hugtökum. Það mun vera Hallgrímur Helgason sem fyrst notaði orðið hrútskýring yfir það sem á ensku er kallað mansplaining, um það fyrirbæri þegar karlmaður tekur að sér að reyna að leiða konu það fyrir sjónir að sjónarmið hennar, skoðanir eða tilfinningar séu órökréttar eða byggðar á misskilningi. Þótt hugtakið sé ofnotað, og oft í þöggunarskyni, eru hrútskýringar vissulega eitthvað sem flestar konur verða einhverntíma fyrir og þýðingin er frábær.
Ég hef það eftir Gísla Ásgeirssyni að María Hrönn Gunnarsdóttir eigi heiðurinn af þýðingunni hrútvíkkun á fyrirbærinu manspreading, sem hefur verið notað um þá freklegu hegðun karla að sitja gleiðir á almannafæri. Þótt vandamálið sé frekar femínasnalegt er þýðingin bráðskemmtileg og mér finnst líklegt að hún festi fljótt rætur.
Ég skrifaði um hugmyndafræðina á bak við hrútvíkkanir hér. Vandamálið er nefnilega ekki það að karlar taki of mikið pláss heldur er það stellingin sem slík sem fer fyrir bjóstið á femmunum.
Uppfært: Hér má sjá sannar baráttukonur berjast af alefli fyrir því stóra og mikla réttlætismáli að karlar læri að krossleggja fótleggina.