Hafa styttur sagnfræðilegt gildi og eigum við að hampa skammarlegum þáttum fortíðar?

Á pólitískum umbrotatímum er algengt að fólk beini reiði sinni að styttum. Sennilega hefur sú verið reyndin allt frá því að menn tóku að reisa minnisvarða. Styttur hafa tákngildi og það er eitthvað frelsandi við að eyðileggja það sem í huga margra er tákn undirokunar. Þegar ég læt í ljós andstöðu við þá aðferð að eyðileggja styttur eða annarskonar list, fæ ég venjulega það svar að þær segi ekki hina raunverulegu sögu eða að þær séu merki um skammarlega fortíð sem engin ástæða sé til að sýna lotningu. Mig langar að svara þessum rökum og byrja á styttum Suðurríkjasambandsins.

Suðurríkja-styttur

Minnismerki um stofnun og menningu Suðurríkjasambandsins eru gott dæmi um styttur sem segja vafasama sögu. Þær voru reistar löngu eftir lok borgarastríðsins í Bandaríkjunum og standa líklega í mörgum tilvikum í sambandi við félagslegar hræringar sem varða frelsisbaráttu svartra. Þannig að já – það er rétt að þær eru ekki hluti sögunnar. Þær fela öllu heldur í sér dýrmætar upplýsingar um þá kynþáttahyggju sem gegnsýrir sögu Ameríku og um hugarfar og tilfinningar Suðurríkjamanna í kjölfar ósigursins.

Í kjölfar mótmæla síðustu vikna var loks ákveðið að fjarlægja þessa styttu af John C. Calhoun þar sem hann horfir niður á Charleston í Suður Karólínu. Calhoun var varaforseti Bandaríkjanna 1825 – 1832 og ákafur talsmaður þrælahalds. Hvað segir þessi hái stall okkur um heimsmynd og hugarfar þess tíma þegar styttan var reist? 

Er ástæða til að slíkar styttur séu áberandi á almannafæri? Nei, alls ekki. Og í þessu tilviki tel ég eyðileggingu minnisvarða eiga rétt á sér, áköll um að þeir verði færðir hafa ekki skilað árangri. Kannski er komið að því að ráðamenn fari að leggja við hlustir. Það væri heppilegra að hafa slíkar styttur á söfnum eða í höggmyndagörðum. Í Indlandi var farið þannig með margar styttur sem breska heimsveldið skildi eftir sig og sumar voru seldar til Bretlands. Ég myndi til dæmis heimsækja slík söfn, ekki af virðingu við persónur og atburði heldur af því að ég vil öðlast dýpri skilning á því hugarfari sem einkenndi þetta skeið sögunnar. Þessar styttur eru því einnig hluti sögunnar og veita mikilvæga innsýn í list sem sprettur af þjóðernishyggju.

Nazista-styttur

Það sama á við um styttur Nazista – ég vildi að þeim hefði ekki verið fargað. Ég vildi að þeim hefði verið safnað saman á einn stað svo við gætum séð með eigin augum hvernig fasisminn notaði listina til að hafa áhrif á almenning. Það mætti sýna þær undir leiðsögn með því markmiði að auka skilning okkar á merkingu þeirra, eða koma þeirri þekkingu fyrir á upplýsingaskiltum. Með því móti gætum við reyndar ekki séð stytturnar í því umhverfi sem þeim var upphaflega ætlað en þær hefðu þá allavega ekki glatast.

Þessi mynd frá 6. júlí 1945 sýnir brjóstmynd af Adolf Hitler í rústum Kanslarabyggingarinnar í Berlín. Fáar slíkar minjar hafa varðveist.

Hér vaknar spurning um það hvað hefði þá átt að gera við byggingar Nazista. Þegar maður ferðast um fyrrum kommúnistaríki sér maður margar byggingar frá þeim harðstjórnartímum. Flestar þeirra eru ljótar en í mínum huga eru þær til ævarandi varnaðar um það sem hefur gerst og gæti gerst aftur.

Á okkar dögum sé ég svo mörg mistök fortíðarinnar endurtekin – mistök sem við héldum okkur hafa lært eitthvað af. Ég velti því fyrir mér hvort eyðilegging minnismerkja og bygginga auðveldi okkur að gleyma. Bygging sem er í sjálfu sér smánarblettur er okkur áminning um skömmina og gæðir söguna lífi. Hún verður þannig hluti af okkar eigin lífi.

Bygging pýramídans mikla eftir Harry Green (f.1920)

Hér skiptir þáttur listarinnar einnig máli. Byggingar eru listform. Það voru þrælar sem byggðu pýramídana en ég er innilega þakklátur fyrir að þeir hafi ekki verið sprengdir í loft upp vegna ósæmilegs uppruna síns.

Sumir halda því fram að eyðilegging minnisvarða og bygginga sé einnig hluti sögunnar og áhrifaríkt tákn sem lifi í minningunni. Að endurritun sögunnar sé einnig hluti sögunnar. Því ætti sú sögufölsun sem þessar styttur standa fyrir að hafa þyngra vægi en sú leiðrétting sögunnar sem stefnt er að með því að eyðileggja styttur? Það er sannleikskorn í þessum málflutningi. Það er sterkur, táknrænn gjörningur að steypa styttu af stalli og það getur verið frelsandi en það getur líka valdið blindu á hin raunverulegu undirliggjandi vandamál. Ekki var Írak mikil hjálp í eyðileggingu styttunnar af Saddam Hussein.

Svo getur farið að árás á styttu verði á endanum táknrænn gjörningur sem skilar fólki þeirri tilfinningu að það hafi náð skjótum árangri. Þar með förum við bara heim í stað þess að leggja á okkur þá vinnu sem nauðsynleg er. Styttur eru aðeins einkenni, þær eru ekki orsök. Það breytir engu að fjarlægja táknmynd um undirliggjandi meinsemd. Okkur líður kannski betur rétt á meðan á því stendur en ég efast um að það hafi nokkur varanleg áhrif.

Bent hefur verið á stöðugt sé verið að endurskrifa sögubækur í ljósi nýrra upplýsinga. Því ætti annað að gilda um styttur? Á móti má spyrja: Þætti í lagi að brenna gamlar sögubækur á þeirri forsendu að þær innihaldi rangar upplýsingar? Og hvar eigum við þá að stoppa? Ætti bókum sem skrifaðar eru í dag að vera eytt eftir 30 ár? Og ef við ákveðnum að farga styttum eða öðrum listaverkum, hver á þá að ákveða hverju verður eytt og hverju ekki? Lýðurinn hverju sinni? Ríkisstjórnin? Þannig að í hvert sinn sem skipt er um ríkisstjórn eða nýir hópar ná áhrifum verði breytingar á því hvaða styttum er fargað? Hvernig myndi það enda? Fengju þá engar styttur að standa?

Á 16. öld voru líkneski og helgimyndir kaþólikka hreinsuð út úr kirkjum og kapellum og brennd eða höggvin og steindar rúður mölvaðar.

Þegar mótmælendur yfirtóku kaþólskar kirkjur eyðilögðu þeir styttur og önnur listaverk sem þeim tilheyrðu. Ég harma þann missi, rétt eins og ég harma bókabrunann í Alexandríu og eyðileggingu Talíbana á Buddha-styttunum árið 2001. Í hugum Talíbana voru þessar styttur ósiðlegar og höfðu ekkert menningargildi. Í hugum mótmælenda var kaþólsk list ósiðleg og hafði ekkert menningargildi. Ef við rífum niður allt sem hneykslar mun á endanum ekkert standa eftir.

Þessu viðhorfi er mótmælt með því að það sé ekkert annað en móðgun að kalla styttur sprottnar af þjóðernishyggju list. Flestar þeirra eru „kitsch“. Ég leyfi mér að halda því fram að „kitsch“ sé list. Ekki góð list en samt sem áður list sem hefur mikið upplýsingagildi um þá menningu og tíma sem hún sprettur úr.

Drengurinn með tárið var gerð í minningu barna sem urðu munaðarlaus vegna seinni heimstyrjaldarinnar. Segja vinsældir hennar á Íslandi eitthvað um samviskubit þjóðar sem hagnaðist á stríðinu?

Á uppvaxtarárum mínum var endurprentun af Drengnum með tárið á öðru hverju heimili. Af hverju höfðaði þessi hallærislega mynd svo sterklega til Íslendinga á 8. áratugnum? Að mínu mati væri viðeigandi að myndin væri til sýnis á Þjóðminjasafninu því hún varð hluti af sögu menningar og hugmyndaheims Íslendinga. Ég myndi þó aldrei hengja hana upp á myndlistasafni.

Hvíti Kristur

En það eru ekki aðeins táknmyndir þjóðernishyggju sem fólk vill farga. Sumir kalla eftir eyðileggingu Jesúlíkneskja sem sýna Jesús sem hvítan mann. Og þá vaknar sú spurning hvers vegna við ættum að stoppa þar, því ekki allt eins að fyrirkoma málverkum og kvikmyndum?

Jesús var auðvitað ekki hvítur. Sennilega líktist hann araba í útliti. En gleymum því ekki að svartir menn hafa málað Jesús svartan og aðrir kynþáttahópar hafa einnig málað hann í sinni mynd. Ætti líka að eyða þeirri list af því að hún er ekki sagnfræðilega rétt?

List er aldrei hlutlaus skrásetning á sögunni. Hún endurspeglar alltaf sýn samfélagsins hverju sinni. Svo jú, í þeim skilningi eru hvítar Jesústyttur sögulegar heimildir. Ekki heimildir um þá atburði sem urðu fyrir 2000 árum, heldur um sögu þess tíma þegar stytturnar urðu til.  Ef við skoðum sögu Jesúmynda sjáum við mun á því eftir tíma og samfélagi hvaða mynd er dregin upp af líkamlegu heilbrigði hans og hreysti og hversu mikil þjáning skín úr myndunum. Allir þessir þættir endurspegla þá menningu sem skapaði þessar myndir.

 

Gandhi og Churchill

Við sitjum einnig uppi með umdeilda stjórnmálamenn, eins og Mahatma Gandhi og Winston Churchill. Ættum við að eyðileggja styttur af mönnum sem vel má líta á sem rasista? Í fyrsta lagi eru styttur reistar í þeim tilgangi að fagna tilteknum afrekum en ekki til að heiðra alla þætti lífs og sögu einstaklingsins. Við reisum styttur af Matrin Luther King, þrátt fyrir að hann hafi verið konu sinni ótrúr og alræmdur kvennabósi. Það merkir ekki að við fögnum hjúskaparbrotum heldur að við metum frelsisbaráttu hans að verðleikum.

Saltgangan. Styttan stendur í Delhi

Gandhi leit niður á svarta, eins og nánast allir samtíðarmenn hans. Er friðsamleg barátta hans í þágu Indlands þá einskisverð?

Við ættum einnig að hafa hugfast að allir eru börn síns tíma. Það er auðvelt að dæma rasisma fortíðarinnar en það sem liggur í augum uppi í dag var kannski ekki augljóst á þeim tíma. Til allrar hamingju höfum við eitthvað lært í áranna rás en það gefur okkur ekki rétt til að dæma forfeðurna  á forsendum þeirrar innsýnar sem nútímabarnið hefur. Við verðum líka að gera ráð fyrir því að skoðanir fólks breytist með tíma og reynslu. Bæði Churchill og Gandhi sýndu merki um kynþáttahyggju á sínum yngri árum en sagnfræðingar hafa bent á að hugmyndir þeirra þróuðust með tímanum. En setjum nú sem svo að þeir hafi einfaldlega verið rasistar frá vöggu til grafar. Enginn er fullkominn. Ef við ætlum að dæma fólk út frá öllu sem það gerir og segir í lífinu þá hljótum við hata alla og sjálf okkur meðtalin. Ég kýs fremur að hugsa um mannlega bresti með kærleika en að krefjast þess að fólk sé dýrlingar. Það stendur enginn undir þeirri kröfu. Bæði Churchill og Gandhi létu gott af sér leiða, þrátt fyrir mannlegan breyskleika, og ég sé ekkert rangt við að halda því á lofti.

Mount Rushmore

Nýjasta krafan af þessu tagi lýtur að eyðileggingu þjóðgarðsins Mount Rushmore þar sem hann sé byggður á landi sem stolið var frá Sioux þjóðinni.

Hér rekumst við á vanda því það er ekki auðhlaupið að því að færa þessa minnisvarða. Reyndar má segja að Ameríka sé að langmestu leyti land sem rænt var af frumbyggjum svo þyrfti þá ekki að færa öll mannvirki? Allar byggingar, alla vegi …? Eða væri kannski heppilegra að breyta túlkun okkar á þessum minnisvörðum og uppfræða lýðinn um veruleikann á bak við þá og ástæður þess að þeir geta verið særandi? Væri það ekki betri leið til að takast á við vandamálið?

Árið Núll

Sú hugmynd að með því að eyðileggja list og hafna fortíðinni verði veröldin að betri stað minnir á svo mörg skeið mannkynssögunnar þar sem gerðar voru tilraunir í þá veru. Menningarbyltingin í Kína er augljóslega dæmi en Kambódía í stjórnartíð Pols Pot kemur einnig upp í hugann. Pol Pot vildi byrja upp á nýtt. Byrja á ári núll. Ég hef á tilfinningunni að sama hugmynd sé nú á sveimi.

„Hugmyndin á bak við árið núll er sú að rétt sé  að þurrka út alla menningu og hefðir samfélagsins og að í staðinn komi ný menning, byltingarmenning, þar sem byrjað er frá grunni. Sú saga lands og þjóðar sem átti sér stað fyrir árið núll skiptir ekki máli, þar sem hún fer í gegnum hugmyndafræðilegan hreinsunareld og sjálfum undirstöðunum er skipt út.“  (Sjá hér)

Frá menningar- byltingunni í Kína – Hof lögð í rúst og Buddha-styttur brenndar.

Kvikmyndin The Killing Fields veitir ágæta innsýn í afleiðingarnar af þessari stefnu. Og áður en einhver sakar mig um að gera úlfalda úr mýflugu þá vil ég minna á að Pol Pot var einnig að berjast gegn undirokun og óréttlæti. Sömuleiðis Maó í Kína.

Byltingar hafa tilhneigingu til að ganga of langt og missa sjónar á hinum raunverulegu baráttumálum. Breytt hjartalag og hugarfar fæst með samræðu. Ekki með skömm og dyggðaspili. Við gerum heiminn betri með því að læra af sögunni og horfast í augu við bresti og misgjörðir, ekki með því að afskrifa hana og láta sem í þetta sinn séum við með allt á hreinu og því fær um að byrja upp á nýtt.

Þessu tengt: