Frásögn Margrétar Estherar Erludóttur, sem berst fyrir rétti barna sem sættu vanvirðandi meðferð á fósturheimilum

Margrét Esther Erludóttir ólst að mestu leyti upp á stofnunum og vistheimilum á vegum barnaverndaryfirvalda. Hún segist hafa orðið fyrir grófu og ítrekuðu ofbeldi af hálfu tilsjónarmanna sinna, einkum á einu þessara heimila og að fleiri börn en hún hafi verið vanrækt og sætt misþyrmingum. Esther kveður barnaverndaryfirvöld hafa brugðist eftirlitsskyldu sinni og að margar ákvarðanir í málum hennar hafi verið ógæfulegar og byggst á ómálefnalegum forsendum.

Eftir að Breiðavíkursamtökin vöktu athygli á vanrækslu og ofbeldi gagnvart börnum sem vistuð voru á stofnunum fyrir nokkrum áratugum hefur ríkið greitt fjölda manns sem ólst upp á ríkisreknum heimilum sanngirnisbætur en einkaheimili þar sem börn voru vistuð að undirlagi barnaverndaryfirvalda hafa ekki verið rannsökuð og þeim börnum sem þar voru vistuð hafa ekki verið greiddar bætur. Esther telur að ríkinu beri skylda til þess að rannsaka þau heimili sem kvartað er undan og hyggst stefna ríkinu til greiðslu skaðabóta vegna þeirrar meðferðar sem hún sætti í æsku. Hún vonast til þess að það opni fleira fólki með sambærilega reynslu tækifæri til þess að fá viðurkenningu á brotum ríkisins gagnvart börnum sem vistuð voru hjá vandalausum.

Í gögnum frá félagsmálayfirvöldum er talinn upp mikill fjöldi fósturheimila og stofnana þar sem Esther dvaldi sem barn, auk fjölda ráðskvenna og sambýliskvenna föður hennar og í kærugögnum kemur fram að lögmaður hennar hafi fengið þær skýringar að hún hafi hvergi passað inn.

Esther sagði Kvennablaðinu sögu sína. Hún er hér í endursögn Evu Hauksdóttur.

Missti móður sína fjögurra ára

Ég ólst upp á hrakningum. Faðir minn var alkóhólisti og gjörsamlega vanhæfur til þess að sjá um okkur og hafði engan áhuga á því heldur. Það var mikið ofbeldi á heimilinu og móðir mín lést af völdum heilablæðingar þegar ég var fjögurra ára. Ég er sannfærð um að það sem hún var búin að ganga í gegnum hefur átt þátt í ótímabærum dauða hennar. Ég var svo lítil að ég á engar skýrar minningar um móður mína. Við erum þrjú systkinin og ég er yngst.

Við systkinin vorum á stöðugum hrakningum milli stofnana eftir að móðir okkar dó en ég var reyndar búin að fara inn á barnageðdeildina við Dalbraut einu sinni áður. Ég fékk enga sjúkdómsgreiningu á Dalbraut. Ég veit ekki til þess að ég hafi fengið neina sjúkdómsgreiningu fyrr en ég var greind með mígreni um 6 ára aldurinn. Reyndar er sennilegt að það sé afleiðing af heilahimnubólgi sem var ekki meðhöndluð. Ég var veikt barn, með stöðuga höfuðverki og skerta hreyfigetu auk þess að vera lesblind en fékk ekki viðeigandi meðferð.

Ég held hinsvegar að það hafi ekkert verið að mér þegar ég var smábarn sem gaf tilefni til að leggja mig inn á barnageðdeild. Í heilsufarsgögnum er talað um mikil vandamál á heimilinu og það lítur helst út fyrir að lausnin hafi verið sú að geyma mig inni á geðdeild.

Í heilsufarsgögnum er talað um mikil vandamál á heimilinu og það lítur helst út fyrir að lausnin hafi verið sú að geyma mig inni á geðdeild.

Systkinin lenda á hrakhólum

Ég fékk að vera smátíma hjá afa og ömmu, eftir að móðir mín dó, kannski 2-3 mánuði. Eftir það vorum við systkinin bara á þvælingi. Ég var um tíma á Kleifarvegi 15 þar sem var heimili fyrir geðfatlaða. Einhvern tíma var ég á Brimisfell á Snæfellsnesi og einhverjar vikur hjá ættingjum úti á landi. Þess á milli var ég hjá föður okkar, ýmist í umsjá sambýliskvenna sem gáfust fljótt upp á honum eða ráðskvenna sem sveitarfélagið skaffaði og stoppuðu stutt. Það var mikil drykkja og ofbeldi á heimilinu og barnavernd vissi nákvæmlega hvernig ástandið var. Ég er með heila möppu af nöfnum félagsráðgjafa sem hafa komið að mínum málum svo það var ekki eins og enginn vissi neitt. Samt var ekkert gert til þess að koma okkur í varanlegt fóstur heldur vorum við ýmist í reiðuleysi eða á þvælingi milli stofnana.

Ég og miðbróðirinn vorum bæði vistuð á Dalbraut þegar ég var 8 ára. Eftir það var ég eitt og hálft ár á sveitaheimili í Önundarfirði. Það var yndislegt heimili. Bróðir minn var þar líka og þar var vel hugsað um okkur. Ég vildi að við hefðum fengið að alast þar upp en faðir minn tók okkur þaðan og hjónin höfðu ekkert um það að segja. Ég hitti manninn eftir að ég varð fullorðin og hann staðfesti að þau hefðu viljað hafa okkur.

Félagsmálayfirvöld hefðu átt að grípa inn í þegar við vorum tekin. Faðir minn var margbúinn að sýna og sanna að hann hafði ekkert með börn að gera, nokkrum árum fyrr höfðum við t.d. verið á sveitaheimili hjá ættingjum í smátíma af því að hann hafði bara keyrt okkur þangað og skilið okkur eftir á bæjarhlaðinu. Samt var hann látinn ráða því að við vorum tekin af góðu heimili.

Stuttu síðar tekur barnaverndarnefnd við mér enn eina ferðina en í staðinn fyrir að senda mig aftur vestur í Önundarfjörð, þar sem ég vildi vera og var velkomin, var mér komið fyrir á [fósturheimilinu A] en það er versti staður sem ég nokkurntíma hef verið á. Það var líka einkaheimili en þau voru með 6 fósturbörn og það var ekkert eftirlit með heimilinu.

Einn drengurinn var einu sinni berháttaður og látinn sitja í vatnsbala úti í kuldanum. Þessi drengur fyrirfór sér síðar.

Ofbeldið og kúgunin á þessu heimili er efni í heila bók. Það voru engar venjulegar refsingar sem viðgengust þarna; við vorum svelt og okkur var misþyrmt, við vorum t.d. lamin með hrossapísk.  Ég á eingöngu vondar minningar frá þessum stað. Sem dæmi um meðferðina var viskustykki vafið um hálsinn á mér og ég látin hanga í því. Einu sinni var ég lamin með naglaspýtu í bakið og bóndinn nauðgaði mér margsinnis. Fólk trúir þessu ekki. Ég sagði frá þessu heimili á Facebook og fékk það framan í mig að ég væri bara að ljúga þessu upp. En það vill svo til að það eru vitni að þessu og ég var ekkert sú eina sem var misþyrnt. Einn drengurinn var einu sinni berháttaður og látinn sitja í vatnsbala úti í kuldanum fram á nótt. Þessi drengur fyrirfór sér síðar.

Sem dæmi um meðferðina var viskustykki vafið um hálsinn á mér og ég látin hanga í því.

Við börnin, sem vorum vistuð þarna, töluðum stundum saman um það hvernig við gætum flúið en símtölin okkar voru hleruð og við vissum að okkur yrði refsað hraðlega ef við reyndum að strjúka. Börn sem er farið svona illa með brotna niður. Manni datt ekkert í hug að það væri hægt að fá hjálp.

Nágrannarnir vissu samt að það var eitthvað mikið að á þessu heimili. Þegar húsbóndinn nauðgaði mér í annað eða þriðja skiptið kom maðurinn á næsta bæ að og stoppaði hann. Þau voru öll á fylliríi og þessi nágranni kom að honum þar sem hann var að nauðga mér. Hann hreinlega dró hann frá mér.

Nágrannarnir vissu samt að það var eitthvað mikið að á þessu heimili. Þegar húsbóndinn nauðgaði mér í annað eða þriðja skiptið kom maðurinn á næsta bæ að og stoppaði hann.

Það varð samt ekki til þess að breyta neinu þótt væri fullorðið vitni að barnanauðgun. Ég komst ekki burt fyrr en ég fór heim til þess að fermast. Þá var ég í þannig ástandi að faðir minn ákvað að senda mig ekki þangað aftur. Hann afsalaði mig samt strax í hendur félagsmálayfirvalda aftur og þá var ég sett inn í Víðihíð.

Þaðan var ég send á vistheimilið við Njörvasund og þar gerðust líka ljótir hlutir. Ég lét mig á endanum hverfa. Fólk heldur að ég sé að búa þetta til en ástandið í Njörvasundinu  var þannig að eftir að ég var farin var stúlka myrt þar og það fékkst ekki einu sinni rannsakað. Það var strákur sem stakk hana til bana með sveðju og faldi svo líkið undir rúminu sem ég hafði sofið í áður. Fjölskylda stúlkunnar barðist fyrir því að það yrði rannsakað hvernig þetta gat gerst inni á svona heimili. Fyrst var ekki sjálfsagt að rannsaka morð, hvað heldurðu þá að hefði verið gert við kæru út af barnaníði og ofbeldi?

Varanlegar afleiðingar

Það er margt gott í lífi mínu í dag því ég hef reynt að gera það besta úr stöðunni. Mörg þessara barna sem lentu á stofnunum eru í óreglu í dag en ég hef aldrei reykt eða drukkið svo það er jákvætt. Ég á börn og yndislegan unnusta og það skiptir svo miklu máli því þegar ég var lítil hafði ég engan. Það segir sína sögu að ég á ekki nema eina mynd af mér frá því að ég var barn og þegar ég stakk af úr Njörvasundinu, 18 ára gömul, var enginn í fjölskyldunni sem kærði sig um mig. Þannig að það skiptir máli fyrir mig að vera í góðu sambandi.

Ester á ekki nema þessa einu mynd af sér frá bernskuárunum

Annað sem hefur haldið mér á floti er söngur og dans, ég er þrefaldur Íslandsmeistari í línudansi. Þannig að ég lít ekkert svo á að líf mitt sé ónýtt.

En barnæska mín var hræðileg og ég get ekkert „unnið með fortíðina“; sumar afleiðingarnar eru þannig að það er ekkert hægt að bæta úr. Ég er öryrki í dag og það eru beinar afleiðingar af þessu uppeldi. Ég fékk ekki einu sinni fulla grunnskólamenntun því ég missti mikið úr og þegar ég var á [fósturheimilinu A] fékk ég ekki að fara í skóla. Þegar ég var í Víðihlíð var ég sett í Öskjuhlíðarskóla, sem hentaði mér alls ekki. Ég hef enga menntun og hef aldrei verið á almennum vinnumarkaði og bæði líkamleg og andleg heilsa mín er í molum. Þótt maður sé jákvæður þá er þessi fortíð þarna og það hefur áhrif á framtíðina.

Ég er öryrki í dag og það eru beinar afleiðingar af þessu uppeldi. Ég fékk ekki einu sinni fulla grunnskólamenntun …

„Hún Esther passar bara hvergi“

Núna er ég að reyna að sækja rétt minn á hendur hinu opinbera því þótt þetta hafi gerst á einkareknum heimilum eru ríkið og sveitarfélög ábyrg.

Það er aðallega tvennt sem kæran byggir á; annarsvegar eftirlitsleysið – það er saknæm hegðun af hálfu hins opinbera að hafa látið svona hryllilegt ofbeldi viðgangast og sjá ekki til þess að ég fengi viðeigandi heilbrigðisþjónustu og skólagöngu, og hinsvegar tel ég barnaverndaryfirvöld hafa brotið gegn mér með því að vanrækja að búa mér öryggi og eðilegar uppeldisaðstæður. Þau hefðu átt að koma mér í varanlegt fóstur á góðu heimili. Þegar lögmaðurinn minn sem er að að hjálpa mér að sækja bætur á hendur ríkinu spurðist fyrir um það hjá Vistheimilanefnd hversvegna ég hefði verið vistuð á svona mörgum stöðum fékk hann þau svarið „hún Esther passar bara hvergi“. Þannig að ég hentaði ekki kerfinu og lausnin var sú að láta mig bara vera á hrakningum!

Þannig að ég hentaði ekki kerfinu og lausnin var sú að láta mig bara vera á hrakningum!

Þessi barátta hefur tekið langan tíma en nú sé ég loksins fyrir endann á þessu. Ég byrjaði að vinna í þessu 2005, þá fór ég að skoða skjalasöfn og þau gögn sem voru til um mig. Svo þegar Breiðavíkurdrengirnir fengu sanngirnisbætur þá hélt maður að önnur börn sem hafa lent í því sama myndu líka fá bætur. Það eru allt að 300 börn sem voru lamin og nauðgað á einkaheimilum þar sem barnaverndarnefndir kom þeim fyrir en það eru bara börn af ríkisreknum heimilum sem fengu bætur. Með því að fara í mál við ríkið opna ég fyrir möguleika 300 annarra barna á því að ná fram réttlæti.

Það er ekkert verið að auðvelda manni að sækja rétt sinn. Mér var synjað um gjafsókn á þeirri forsendu að ég hefði fyrst átt að sækja um sanngirnisbætur til bótanefndar. En ég vil ekki bara bætur, ég vil að þetta heimili verði rannsakað og það verði viðurkennt hvað gerðist þar. Þessvegna vildi ég stefna ríkinu en ég gat það ekki nema sækja fyrst um bætur til bótanefndar. Nú er ég búin að því. Mér var synjað og þar sem það svar er komið er hægt að fara með málið fyrir dómstóla.

Ég hef ekki enn fengið skýringar á því hversvegna er farið öðruvísi með einkarekin fósturheimili en ríkisrekin. Ég kvartaði till Umboðsmanns Alþingis af því að ég fékk engin svör frá forsætisráðuneytinu. Það kemur fram í svari hans að forsætisráðuneytið ráði því hvort þessi heimili séu líka rannsökuð og það hafi að minnsta kosti ekki ennþá verið ákveðið.En þetta er ekkert bara lagalegt atriði heldur yfirhylming. Það er verið að hlífa ákveðnu fólki. [Valdamikill starfsmaður í kerfinu] þekkir t.d. [fólkið sem rak fósturheimilið A] og sú manneskja hótaði blaðamanni sem ætlaði að fjalla um mitt mál lögsókn.

Það er verið að hlífa ákveðnu fólki.

Á áliti Umboðsmanns Alþingis segir að í lagalegum skilningi séu einkaheimili og ríkisreknar stofnanir ekki sambærilegar en þetta á ekki að snúast um það heldur um hagsmuni þolenda. Þetta eru alveg sambærileg mál að því leyti að börn sem voru fóstruð á slæmum einkaheimilum stríða við alveg sömu afleiðingar og Breiðavíkurdrengirnir. Flest þessara barna eiga svipaða sögu. Mörg hafa lent í óreglu, sum hafa fyrirfarið sér og önnur eru öryrkjar. Það voru barnaverndaryfirvöld sem sendu okkur á þessi heimili og það var ekkert eftirlit með þeim. Það skiptir ekki máli hvort maður er píndur á ríkisreknu heimili eða einkaheimili, afleiðingarnar eru þær sömu.

*******

Í mars sl. birti Kvennablaðið frásögn Hlyns Más Vilhjálmssonar sem einnig kallar eftir vitundarvakningu um réttarstöðu uppkominn barna sem dvöldu á fósturheimilum. Hann stofnaði hópinn Fósturheimilabörn á Facebook og hóf undirskriftasöfnun sem er ennþá opin en hefur ekki fengið mikla dreifingu. Kvennablaðið hvetur lesendur til þess að hjálpa til við að vekja athygli á þessum málstað.