Þegar orðið framhjáhald er nefnt er kynlíf utan sambands eitt af því fyrsta sem kemur upp í hugann. Þó er til fólk sem telur ekki neikvætt að deila maka sínum með öðrum. Bjarni og Sara eru á fimmtugsaldri og eiga að baki 16 ára hjónaband. Þau fluttust frá Íslandi fyrir 5 árum og á nýja staðnum kynntust þau því sem kallað er “swing”, það er að segja, þau hafa makaskipti og taka þátt í hópmökum. Ég spurði Bjarna og Söru um upplifun þeirra af swinginu og áhrif þess á samband þeirra. Athugið þó að hér er aðeins um eitt par að ræða og engan veginn víst að þeirra reynsla sé dæmigerð.

Langaði að öðlast meiri reynslu

Þið hafið verið gift í 16 ár. Hefur samband ykkar alltaf einkennst af frjálslyndi eða átti það sér einhvern sérstakan aðdraganda að þið ákváðuð að blanda fleira fólki í kynlíf ykkar?

Screen Shot 2013-12-16 at 1.26.11 AM

Sara: Við byrjuðum ekkert að swinga fyrr en fyrir svona þremur árum. Það sem varð til þess að við ákváðum að prófa það var aðallega það að ég var leið af því að mér fannst ég hafa farið einhvers á mis. Foreldrar mínir eru af erlendu bergi og ég ólst upp við mjög íhaldssamar hugmyndir um samlíf og hafði nánast enga kynlífsreynslu þegar ég kynntist Bjarna. Hann hafði hins vegar verið með öðrum konum. Ég var forvitin um það hvernig væri að vera með öðrum manni en í mörg ár var ég samt ekki tilbúin í neinar svona tilraunir. Svo fyrir nokkrum árum gekk ég í gegnum tímabil þar sem mér fannst hjónabandið að þessu leyti heftandi og það varð til þess að við fórum að ræða þetta í alvöru.

Bjarni: Við höfðum samt oft minnst á þetta áður. Fyrir mörgum árum lásum við viðtal í íslensku tímariti við fólk sem stundar swing og við höfum rætt þetta af og til síðan.

En nú eru makaskipti og orgíur ekki eitthvað sem fólk ræðir mikið á kaffistofunni, hvernig komust þið í samband við fólk með sama áhugamál?

Bjarni: Við skoðuðum netsíður og fundum klúbba í nágrenninu. Við höfum líka átt kynferðisleg kynni við bæði pör og einstaklinga sem við höfum kynnst í gegnum netsíður.

Varð fyrir hálfgerðu áfalli

Höfðuð þið engar áhyggjur af því að það myndi skaða samband ykkar að lifa kynlífi með öðrum?

Sara: Jú, þetta var stórt skref og okkur fannst þetta vera mikil áhætta, kannski sérstaklega af því að þetta var viðkvæmt tímabil í okkar sambandi, en það var þetta vandamál að mér fannst ég þurfa meiri kynlífsreynslu og swingið varð okkar lausn á því. En fyrsta skiptið var samt ekki góð reynsla. Það var subbuleg stemning þar og Bjarni varð fyrir hálfgerðu áfalli.

Bjarni: Við stóðum ekki skynsamlega að þessu. Við fórum á klúbb þar sem karlar voru í miklum meirihluta það kvöldið og ég varð útundan. Við ákváðum samt að prófa annan klúbb og fara heim ef öðru hvoru okkar liði ekki vel. Og það var allt öðru vísi.

Swingið hefur bætt sambandið

Hefur swingið haft einhver sérstök áhrif á samband ykkar?

Sara: Já, þetta er kannski ekki fyrir alla en samband okkar er betra en áður. Við tölum meira saman um kynlífið og prófum nýja hluti.

Bjarni: Við höfum verið mjög opin og hreinskilin hvort við annað og mér sýnist það einkenna þau pör sem við höfum kynnst í gegnum swingið. Þetta hefur líka bætt okkar samband á þann hátt að þegar maður horfir á maka sinn með annarri manneskju þá sér maður hann sem kynveru frá öðru sjónarhorni en venjulega. Það er æsandi þegar makinn kemur með nýja reynslu inn í kynlífið og ég hef líka kynnst Söru betur við að sjá viðbrögð hennar við snertingu annarra.

Þið komið mér fyrir sjónir eins og afskaplega venjulegt miðaldra millistéttarpar en ég gæti trúað að margir álíti að það séu aðallega bóhemar og fólk með afbrigðilegar kynþarfir sem stundar swingklúbba. Eru einhverjar tilteknar týpur áberandi meðal gesta?

Bjarni: Við erum dæmigerð. Það eru sérstök kvöld fyrir þá sem eru með einhver ákveðin fetish en við höfum ekki mætt á þau kvöld.

Sara: Þetta er aðallega fólk á aldrinum 30-50 ára. Þegar við ákváðum að prófa þetta var ég dálítið feimin og hafði áhyggjur af því að ég væri ekki nógu flott í útliti. Ég átti alveg eins von á að vera eina konan sem liti ekki út eins og módel. En það er alls ekki þannig. Þarna eru alls konar konur á mínum aldri. Ég komst að því að ég er kynþokkafull, og ekki bara í augum þess sem elskar mig. Swingið hefur gert mig djarfari í kynlífinu og ófeimnari við mínar eigin langanir. Það hefur líka aukið sjálfstraust mitt því ég vissi ekki áður að karlmenn girntust mig. Það gefur mér sjálfstraust að vita að karlmenn horfa á líkama minn, dást að honum og langar til að snerta hann.

Ákveðnar siðareglur

Hvernig er að koma inn á svona stað? Gengur maður inn í orgíu og drífur sig úr fötunum og stekkur á þann sem manni finnst girnilegastur eða er fólk valið saman með teningakasti, eða hvað?

Bjarni: Það gilda ákveðnar siðareglur og ef fólk virðir þær ekki þá er því vísað burt. Enginn fær að koma inn undir áhrifum vímuefna og fólk nálgast hvað annað af virðingu. Maður þarf skýrt samþykki fyrir öllu sem maður gerir og ef viðkomandi segir nei þá má maður ekki spyrja aftur í það skiptið. Það er hægt að athafna sig í einkarými eða vera fyrir allra augum og bjóða öðrum að taka þátt í leiknum en eins og í öðru kynlífi er það alltaf sá sem vill ganga skemmst sem setur mörkin.

Er swingið reglulegur þáttur í ykkar kynlífi?

Sara: Nei, ekki þannig að við mætum í hverri viku. Það koma tímabil sem við förum oft og svo á milli höfum við minni áhuga. Þetta er heldur ekki þannig að maður taki skyndiákvörðun um að skella sér á klúbbinn. Maður þarf að bóka tíma fyrirfram, eða mæla sér mót við leikfélaga, útvega barnapössun og skálda upp skýringar á því hvert maður sé að fara.

Hvað er þetta stór hópur sem stundar ykkar klúbb?

Bjarni: Það eru mörg hundruð manns sem tilheyra klúbbnum en það mæta auðvitað aldrei allir. Í miðri viku þegar fólk mætir í pörum hafa oft verið svona 20-30 manns. Á föstudögum getur fólk komið án maka og þá hafa mætt upp undir 60 manns.

Engin trygging fyrir því að finna félaga

En nú lentir þú í því sjálfur að verða útundan þegar þið fóruð á svona stað í fyrsta sinn. Haldið þið að það gerist oft?

Bjarni: Jájá. Það að fara á swingklúbb er engin trygging fyrir því að þú finnir leikfélaga, ekki frekar en að þú getur verið viss um að hitta skemmtilegt fólk ef þú ferð á pöbb.

Sara: Það eru sérstaklega karlmenn sem mæta einir sem fara vonsviknir heim. Svo á fólk líka misvel saman. Maður hittir leiðinlegt fólk á swingklúbbum eins og alls staðar annars staðar. Við höfum einu sinni lent í því að hitta engan sem okkur leist á og þá er einmitt gott að vera með félaga. Fyrsta skiptið var misheppnað því við vorum ekki búin að setja okkur neinar reglur en í dag myndum við fara heim ef öðru hvoru okkar liði ekki vel.

Bjarni: Það sama gildir þegar við hittum fólk utan klúbbsins, maður á alltaf að geta afþakkað án þess að það kosti leiðindi. En svo er það með þetta eins og annað í lífinu að maður getur ekkert vænst þess að þetta sé alltaf frábært. Stundum er það frábært en alls ekki alltaf.

Swing er ekki framhjáhald

Þegar orðið framhjáhald er nefnt er kynlíf utan sambands oft það fyrsta sem kemur upp í hugann. Eruð þið sátt við framhjáhald eða skilgreinið þið framhjáhald á annan hátt?

Sara: Nei, þetta er ekki framhjáhald. Við förum ekki á bak við hvort annað.

Bjarni: Framhjáhald er það að bregðast trausti. Að virða ekki mörk hins aðilans um það hvers konar samskipti maður getur átt við aðra. Par getur haft annað samkomulag um það hvar mörkin liggja en þau sem eru félaglega viðurkennd og við virðum óskir hvort annars ef mörkin eru ekki þau sömu.

Koma upp svoleiðis tilvik, að þið hafið mismunandi mörk?

Sara: Já. Ég er til dæmis ekki tilbúin til að stunda kynlíf með vinum okkar. Við höfum eignast sérstaka swing-vini en ég vil ekki eiga samskipti við þau að öðru leyti og ég myndi heldur ekki vilja kynlíf með fólki sem við umgöngumst dagsdaglega. Bjarni myndi ekki hafa á móti því en þar sem ég hef ekki áhuga á því þá gerum við það ekki. Við misbjóðum ekki hvort öðru.

Mynduð þið lýsa ykkar hjónabandi sem „opnu sambandi“?

Sara: Nei. Af því að við erum ekki með öðrum nema ræða það fyrirfram.

Bjarni: Við höfum einu sinni hitt fólk hvort í sínu lagi og þá var það rætt áður. Annars er þetta eitthvað sem við gerum saman.

Engin tilfinningatengsl

Í hugum flestra eru sterk tengsl milli ástar og kynlífs. Myndast tilfinningatengsl þegar þið sofið hjá öðrum?

Bjarni: Nei. Ég hef aldrei orðið hrifinn af konu í þessum aðstæðum. Ást og kynlíf er ekki það sama og mér finnst það bæði dýpka ástina og bæta kynlífið að vera meðvitaður um það.

Sara: Það er gaman að swinga en það skilur ekki neitt eftir sig eins og þegar maður elskast. Fyrir skömmu hringdi í mig kona sem við höfðum hitt ásamt manninum hennar fyrir um það bil ári síðan. Ég var dálitla stund að koma henni fyrir mig. Þegar maður stundar kynlíf með þessu hugarfari þá myndar maður ekki tengsl.

Ég hef heyrt þá kenningu að þótt opin sambönd geti gengið upp þá sé áherslan alltaf meiri á fórnina en það sem maður fær í staðinn. Upplifið þið það sem fórn að deila maka ykkar með öðrum?

Sara: Ekki fórn, nei. Það er stór ákvörðun að deila maka sínum með öðrum. Það krefst hugrekkis og mikils trausts. En maður er bara að deila honum kynferðislega, þetta eru ekki ástarsambönd heldur leikur og þegar traust og hreinskilni ríkir þá fær maður meira til baka.

Bjarni: Maður fær til dæmis efni í fantasíur. Ný reynsla verður svo hluti af okkar kynlífi.

Halda swinginu leyndu

Það hvílir ákveðin leynd yfir þessari kynhegðun og þið viljið t.d. ekki koma fram undir nafni. Er þetta mikið leyndarmál eða vita aðrir af þessu?

Sara: Við höldum þessu leyndu. Það er ekki það að við skömmumst okkar heldur eru bara svo miklir fordómar ríkjandi.

Bjarni: Fólk getur átt á hættu að missa vinnuna og lenda í öðrum vandræðum ef kemst í hámæli að það stundi swingklúbb. Þetta er kannski svipað og með samkynhneigð áður. Ég á alveg eins von á að múrarnir í kringum swingið falli næst svo það væri jákvætt ef væri hægt að hafa þetta uppi á borðinu en ég er ekki tilbúinn til þess.

Sara: Þetta er líka bara einkamál. Ég sagði vinkonu minni frá þessu og einu sinni þegar hún var búin að drekka aðeins meira en skynsamlegt var fór hún að tala full lauslega í áheyrn annarra. Ég kæri mig ekkert um að mitt kynlíf sé á allra vörum svo eftir það ákváðum við að ræða þetta ekki við aðra. Ég vil heldur alls ekki að börnin okkar viti þetta.

Bjarni: Við ræðum kynferðismál við börnin eftir aldri þeirra og þroska en við segjum þeim ekki hvað við gerum í rúminu eða hvaða klámmyndir við höfum horft á og þetta er bara í sama flokki.

Kynjamunur

Þegar þið skoðið ykkar samband og þeirra sem þið kannist við í gegnum swingið, sjáið þið mun á áhuga fólks eftir kyni?

Sara: Það eru fleiri karlar sem mæta einir á kvöldum sem eru opin fyrir einhleypa og þegar við höfum kynnst pörum á netinu þá eru það venjulega karlarnir sem skrifa.

Bjarni: Meðal okkar kunningja er það samt oftar konan sem hefur átt frumkvæðið að því að ræða þetta þótt það sé svo karlinn sem gerir eitthvað í því. Það er annars athyglisvert að þegar við höfum talað við einhleypa swingara á netinu þá er eins og konurnar vilji láta ganga á eftir sér. Halda okkur heitum en aldrei hægt að fastsetja stefnumót. Karlarnir hins vegar tala digurbarkalega en mæta svo ekki þegar til á að taka. Það hefur samt aldrei klikkað að hitta pör.

Best að fara rólega af stað

Mynduð þið mæla með swingklúbbum fyrir aðra?

Sara: Ég held að þeir sem hafa áhuga á þessu þurfi enga ytri hvatningu. Þessi vinkona mín sem ég sagði frá swinginu virðist spennt fyrir þessu og hún hefur oft sagt við mig að við ættum endilega að draga hana og manninn hennar með okkur. En ég hef engan áhuga á að taka þá ábyrgð á mig. Fólk sem vill swinga verður bara að gera eitthvað í því sjálft.

Bjarni: Það sem ég get mælt með er að þeir sem ætla að prófa þetta standi betur að því en við gerðum í fyrsta skiptið. Ef ég ætti að fara til baka þá myndum við fyrst horfa á aðra í leik og snertast án þess að bjóða öðrum að vera með. Ræða svo saman þegar heim er komið og ákveða þá fyrst hvort við vildum prófa að ganga lengra næst.