Í umræðunni um innflytjendur ber nokkuð á ótta um að fólk með annan menningarbakgrunn taki með sér siði sem samræmast ekki hugmyndum vestrænna þjóða um mannréttindi og sjálfsákvörðunarrétt. Í þessu sambandi eru múslímar oft nefndir sérstaklega og þá ekki síst þegar umskurð kvenna og kynfærabrottnám ber á góma. Ég tók Sverri Agnarsson, talsmann múslíma á Íslandi tali, og spurði hann um afstöðu Islams til þessara aðgerða.

Margir lýsa áhyggjum af því að múslímar sem flytja til Vesturlanda fari fram hjá lögum þegar þau rekast á við trúna. Til dæmis er farið með stúlkur úr landi til að umskera þær. Er rétt að kalla það rasisma að vilja ekki hleypa inn fólki sem er vitað að telur trúna vera æðri landslögum?

Það eru engin lög um umskurð kvenna í íslam. Hér er tengill á skýrslu um viðamestu rannsókn sem gerð hefur verið á FGM, Female genitial mutilation frá upphafi og hún kemur frá Sameinuðu þjóðunum – UNICEF – og er 180 síður og mikið í hana lagt. Hún er ný eða gefin út í júlí í fyrra.

Þetta eru vandaðar og vel staðfestar heimildir um þennan óhugnanlega sið og baráttuna gegn honum og þróun viðhorfa meðal þeirra sem hann stunda. Baraátta gegn FGM gengur betur ef raunveruleg staða mála er metin og greind en upphrópanir og ósannar fullyrðingar um íslam.

Á bls. 68. í skýrsunni er talað um hlut trúarbraðga í FGM. Þar kemur fram að FGM sé oft tengt Islam í umræðunni. Það sé þó langt frá því að þær tíðkist meðal allra hópa múslíma en auk þess séu þær við líði hjá mörgum hópum og stærri samfélögum sem ekki játa Islam. Þarna er vitnað í mannfræðing að nafni Gruenbaum sem leggur áherslu á að fylgjendur allra eingyðistrúarbragða hafi á einhverju tímaskeiði umskorið konur og álitið það Guði þóknanlegt eða í það minnsta ekki bannað.

Í skýrslunni er líka bent á að mesta fordæming á þessum sið sem komið hefur fram í Egyptalandi sé fatwa (þ.e. trúarleg yfirvaldstilmæli) frá árinu 2007. Þar kom fram að FGM á sér engan grundvöll í Sharia (lögum Islams) heldur sé það synd sem múslímar eigi að forðast.

Því má bæta við að í Nígeríu, fjölmennasta ríki Afríku, er umskurður hlutfallslega algengari meðal kristinna en múslíma og svo er í fleiri löndum. Umskurður er t.d. ekki stundaður í Saudi-Arabíu né Afganistan sem eru jú alræmd fyrir kúgun á konum.

Þess ber einnig að geta að í Egyptalandi er umskurður miklu vægari en í t.d. Sómalíu og í flestum tilfellum er um svipaða aðgerð að ræða og fegrunaraðgerð á kynfærum.

Þessu tengt: