Sverrir Agnarsson er formaður félags múslíma á Íslandi. Ég spurði hann út í nokkrar hugmyndir um Islam og múslíma sem hafa verið mikið í umræðunni að undanförnu.


Misskilningur að Islam boði miðaldasiðferði

Íslendingar tengja Islam gjarnan við menningu Mið-Austurlanda og fremur fornaldarleg viðhorf. Hvað er það við þessi trúarbrögð sem höfðar til þín sem nútíma Íslendings?

Ég hef alltaf verið trúaður, ég veit í rauninni ekki hvað það er að vera ekki trúaður en það sem hreif mig einna mest þegar ég kynntist Islam var að áherslan er á samband mannsins við Guð í gegnum hugleiðslu. Í Islam eru ekki gerðar myndir af Allah, það höfðar til mín, því ef þú leitar – þá liggja svörin í því óþekkta – sem ekki er hægt að formgera. Það eru heldur ekki gerðar myndir af Muhammad af því að trúin á ekki að fara út í persónudýrkun og það samræmdist mínum hugmyndum.

Það er hinsvegar mikill misskilningur að Islam boði miðaldasiðferði. Það eru margir skólar og stefnur innan Islam og flóran þar er alveg jafn breið og í kristninni, það eru bæði til öfgatrúarmenn og frjálslyndir múslímar en af umfjöllun fjölmiðla gæti maður haldið að talibanar væru dæmigerðir fyrir 25% mannkynsins.

Af umfjöllun fjölmiðla gæti maður haldið að talibanar væru dæmigerðir fyrir 25% mannkynsins.

Umræðan einkennist af þeirri skoðun að Islam sé mjög á skjön við nútíma mannréttindi. Fólk hefur áhyggjur af heiðursmorðum, barnabrúðkaupum og kvennakúgun. Eru þessi vandamál ekkert tengd Islam?

Það er ekkert í Kóraninum sem hvetur til ofbeldis gegn konum eða talar gegn mannréttindum og ekkert sem réttlætir heiðursmorð, nauðungarhjónabönd eða barnabrúðkaup. Auðvitað hafa menn notfært sér Islam til að réttlæta voðaverk. Það á líka við um önnur trúarbrögð, ég veit ekki betur en að kjarnorkusprengjurnar sem varpað var á Hiroshima og Nagasaki hafi verið blessaðar í bak og fyrir af kristnum prestum. Merkir það þá kannski að kristindómurinn boði kjarnorkustríð?

Kjarnorkusprengjurnar sem varpað var á Hiroshima og Nagasaki voru blessaðar í bak og fyrir af kristnum prestum.

En nú er trúarofstæki algengt í Mið-Austurlöndum, hvers vegna aðhyllist fólk svona mikla grimmd ef Kóraninn býður ekki upp á það?

Islam byggist á þremur gerðum ritaðra heimilda. Sú fyrsta er Kóraninn, sem við lítum á sem guðlega opinberun sem ekki er hægt að breyta en vers hans eru túlkuð á ýmsan hátt.

Önnur tegund heimilda eru hadith söfnin. Það eru heimildir um orð og gerðir Muhammads, stuttar frásögur sem byggja á munnmælahefð og voru ekki skrifaðar niður fyrr en 200 árum eftir dauða spámannsins. Það er erfitt að vitna í hadith með ábyrgum hætti, því þær eru fullar af mótsögnum og stemma heldur ekki alltaf við Kóraninn.(1)

Verstu hugmyndirnar um Islam spretta ekki úr Kóraninum heldur af túlkunum amatöra og ófróðra kennimanna á þjóðsögum.

Þriðja tegund heimildanna er Síra eða ævisaga Muhammads en hún er ekki til í frumriti. Verstu hugmyndirnar um Islam spretta ekki úr Kóraninum heldur af túlkunum amatöra og ófróðra kennimanna á Síra. Frásagnir Síra eru í eðli sínu þjóðsögur en ekki sagnfræðilegar heimildir. Síra svipar til Íslendingasagna eða en frekar Riddarsagnanna en hatursmenn Islam vitna í hana eins og um staðfesta sagnfræði sé að ræða. (2)

Sverrir ásamt félaga sínum í Lýbíu árið 1974

Sharíalög eru aðeins grimmileg þar sem öfgamenn ríkja

En er það ekki rétt að trú og réttarkerfi sé samþætt í Islam?

Jú en margir halda að Sharíalög séu fyrirmæli úr Kóraninum um að það eigi að grýta konur til bana og að mönnum leyfist að drepa fjölskyldumeðlimi sem hegða sér ekki eftir þeim hefðum sem ríkja. Þetta er af og frá, það er ekkert um grýtingar eða heiðursrmorð í Kóraninum. Sharía er ekki lagabálkur óbreytanlegra Guðslaga heldur aðferð sem menn beita til að setja lög. Lögin eru byggð á anda Kóransins en í honum eru mjög fá vers sem geta túlkast sem lagagreinar. Hadith  er önnur heimild að lagasetningu, en svo þarf nota heilbrigða skynsemi og réttlætiskend við útfærslu laganna og endanlega eru þau svo sniðin að aðstæðum á hverjum stað og tíma.

Sharíalög gilda fyrir múslíma í Bretlandi. Það þýðir ekki að múslímar í Bretlandi séu hafnir yfir mannréttindasáttmála eða að þeir hafi einhvern áhuga á því.

Það er bara á þeim svæðum sem öfgamenn hafa komist til valda sem Sharíalögin eru forn og grimmileg. Þau voru víðast hvar aflögð á nýlendutímanum og síðan tekin upp aftur án endurskoðunar nokkur hundruð árum síðar. Það eru mismunandi lagaskólar í Islam og þótt ákveðinn almennur skilningur sé sameiginlegur í hverjum skóla fyrir sig rúma álitsgerðir allra skólanna samt þúsundir ólíkara viðhorfa til boða, banna og refsinga.(3) Það gilda til dæmis Sharíalög fyrir múslíma í Bretlandi. Það þýðir ekki að múslímar í Bretlandi séu hafnir yfir mannréttindasáttmála eða að þeir hafi einhvern áhuga á því heldur snúa Sharíalögin þar að erfðarétti og öðrum fjölskyldumálum, aðallega fjármálum.

Fyrirmæli um handarhögg táknræn

En nú eru Sharíalög byggð á ákvæðum Kóransins og það vakti athygli sem Salmann Tamimi sagði í útvarpsviðtali núna um daginn að hann væri fylgjandi því að aflima þjófa; eru slíkar refsingar ekki bundnar Sharíalögum?

Jesús sagði mönnum að rífa úr sér augað ef þeir litu konu girndarauga.

Eins og ég sagði hér að ofan eru fá lög sem koma beint úr Kóraninum en að höggva hendi af þjófi er eitt þeirra, hin fjalla mest um skyldur gagnvart fátækum og munaðarleysingum. Meðal ofstækismanna geta aflimanir verið þáttur í Sharíalögum en mikill minnihluti múslíma eru öfgasinnaðir. Það er heilmikið táknmál í Kóraninum og eins og í öllum trúarritum eru hugtökin hendi, augu og andlit notuð táknrænt. Til dæmis er talað um hendi Guðs og andlit Guðs en flestir múslímar halda samt ekki að Guð hafi líkama. Þetta er alveg eins í kristindómnum. Í fjallræðunni segir Jesús mönnum að rífa úr sér hægra augað ef þeir líti konu girndarauga og sníða af sér hægri höndina ef þeim verður á að brjóta af sér. Það eru ekki margir Evrópubúar sem taka þessu sem skipun um að menn eigi að slíta úr sér augun, af hverju ættu þeir frekar að líta þannig á Kóraninn?

Hófsamir nútíma túlkendur Kóransins myndu ekki ljá máls á að höggva hendur af þjófum, því augljóslega getur varla verið sama refsing fyrir milljóna bankarán og stuldi á pítsu. Andi Kóransins er fyrirgefning og málið er að fá þjófa eins og aðra misgjörðamenn að iðrast og þá er fyrirgefning skylda allra múslíma. Að höggva af hendi, þýðir að hindra þjófinn í að halda áfram, sem þjófur, og hendi er táknmál þess. Dómarar á miðöldum beittu örsjaldan aflimun sem refsingu. Málið er að harðstjórar finna sér alltaf yfirskin til óhóflegra refsinga.

Að höggva af hendi, þýðir að hindra þjófinn í að halda áfram, sem þjófur, og hendi er táknmál þess.

Væri hægt að uppræta kvennakúgun með því að kenna Islam

Gagnrýni á Islam snýst mikið um stöðu kvenna. Sérð þú ekkert kynjamisrétti í Islam?

Nei og reyndar er Islam fyrstu trúarbrögðin sem gefa konum sérstök réttindi og Kóraninn er eina trúarrita fyrri tíma sem ávarpar konur sérstaklega. Að sjálfsögðu nota karlrembusamfélög öll ráð, og þar með trúna, til að réttlæta hegðun sína. Við vitum að skelfileg kvennakúgun viðgengst víða um heim en það er ekki bundið við múslíma. Staða kvenna versnar eftir því sem nær dregur Indlandi, þar er ennþá vera brenna brúðir og þúsundir ungra kvenna drepnar vegna deilna um heimanmund á hverju ári.

Í löndum múslíma er ástandið líklega verst í Afghanistan. Afghanir fylgja ævafornum siðvenjum, Pustuvali, sem er miklu eldri Kóraninn og þar eru engin kvennréttindi.  Það er ekki hægt að uppræta kvennakúgun með því að rífa slæðurnar af konunum og reyna að fá Afghani til að snúa frá Islam, Það væri hinsvegar hægt að bæta stöðu kvenna í Afganistan og í fleiri afskekktum fjallahéruðum sem múslímar byggja með því að benda á það sem Kóraninn segir raunverulega um stöðu kvenna. Engin raunsæ túlkun á Kóraninum getur mælt kvennakúgun bót, ekki heldur í Saudi Arabíu. En sem betur fer er staða kvenna mun betri í flestum öðrum löndum múslíma, það er bara ekkert talað um það heldur er alltaf hamrað á verstu dæmunum.

Engin raunsæ túlkun á Kóraninum getur mælt kvennakúgun bót.

Nú er margt í Biblíunni sem stríðir gegn hugmyndum okkar menningar um siðgæði og frelsi og þótt þeir textar sem teljast kenningagrundvöllur Þjóðkirkjunnar innihaldi margt sem stríðir gegn stjórnarskránni þá hafa menn sniðið túlkanir á þessum ritum að kröfum nútímans. Er Islam að þróast til nútímans á sama hátt?

Þetta réttarfar sem við höfum séð í löndum múslíma á 20. öldinni er bundið ákveðnum harðstjórum.

Islam hefur ekki fylgt línulegri þróun frá hræðilegri kúgun í átt til frjálslyndis heldur hafa risið hámenningarsvæði hér og þar á ýmsum tímum, menningu hefur hnignað og hún svo risið aftur sterkari eins og t.d. saga Spánar ber vott um. Svæðið sem Islam kom inn á í byrjun um miðbik 7. aldar hafði logað í styrjöldum í 5-600 ár áður en Islam festi þar rætur, en eitthvert mesta friðarskeið sögunnar tók við í Mið-Austurlöndum undir Islam á tímabilinu 630-850.(4) Þetta réttarfar sem við höfum séð í löndum múslíma á 20. öldinni er bundið ákveðnum harðstjórum og pólitískum öflum, eins og til dæmis Khomeini í Iran og talibönum í Afghanistan.

Rasismi brýst fram í fullyrðingum um glæpahneigð útlendinga

Þeir sem vilja halda múslímum sem mest frá Evrópu rökstyðja það með því að glæpatíðni meðal múslíma í Evrópu sé há. Er ekki skiljanlegt að fólk dragi þær ályktanir að Islam hvetji til ofbeldis og vilji fara varlega í að taka á móti múslímum?

Menn finna sér alltaf leið til að verja rasisma og eitt af því eru fullyrðingar um glæpaeðli útlendinga. Það var líka talað mikið um glæpahneigð Austur-Evrópubúa þegar þeir fóru að flytja til landsins, í dag eru það múslímar sem eiga að vera óalandi og óferjandi.

Hluti af áróðrinum felst í því að dreifa falsaðri tölfræði. Það á ekki bara við um glæpi, nú er til dæmis aftur komið í dreifingu nokkurra ára gamalt myndband þar sem því er haldið fram að múslímar ætli að ná heimsyfirráðum með því að fjölga sér. Það er fullyrt að múslímar eignist 8,1 barn á fjölskyldu. Þarna eru gamlar tölur frá Tyrklandi notaðar til þess að búa til grýlu. Svo þegar maður skoðar gögn frá virtum rannsóknarfyrirtækjum kemur í ljós að fæðingartíðni meðal múslíma í Evrópu lækkar mjög hratt, er nú á bilinu 2,1-2,8 börn á fjölskyldu og reiknað með að hún verði orðin sú sama og hjá innfæddum Evrópumönnum eftir nokkur ár.

Hluti af áróðrinum felst í falsaðri tölfræði


Forsvarsmenn múslíma í Frakklandi hafa staðfest að 60-70% fanga í Frakklandi séu múslímar og danska lögreglan hefur fullyrt að í helmingi mála sem koma inn á hennar borð séu múslímar meintir gerendur. Hefur þetta ekkert með Islam að gera?

Nei, það hefur ekkert með Islam að gera þótt menn fremji glæpi. Glæpagengi og glæpahverfi hafa alltaf verið til og það tengist trúarbrögðum ekki sérstaklega. Sjáðu hvernig ástandið var í Harlem fyrir 1990, slökkviliðið treysti sér ekki inn í hverfið. Gengi innflytjenda frá Mið-Austurlöndum eru ekkert veifandi grænu flaggi og kyrjandi Allah’u’akhbar í sínum óeirðum, gengjamenning kemur bara trúnni ekkert við.

En svo skulum við líka athuga það að rasismi brýst meðal annars fram í því að tilteknir hópar eru frekar kærðir og sakfelldir en aðrir. Við getum tekið Kaliforníu sem dæmi. Þar er kannabisneysla  ekkert bundin við einn hóp heldur mjög algeng meðal fólks af ýmsum uppruna og úr öllum stéttum. Samt sem áður eru svartir í yfirgnæfandi meirihluta þeirra sem eru teknir. Eigum við að skýra mjög svo skekkt hlutfall svartra fanga í BNA með því svart fólk sé á einhvern hátt verra en það hvíta? Fjöldi handtekinna múslíma speglar fremur viðhorf lögreglunar til menningarbakgrunns þeirra en að bera vitni um meðfædda glæpahneigð.

Fjöldi handtekinna múslíma speglar fremur viðhorf lögreglunar til menningarbakgrunns þeirra en að bera vitni um meðfædda glæpahneigð.

Annað sem andstæðingar Islam tala um er að múslímar komi til Vesturlanda gagngert til að vera á framfæri hins opinbera, telurðu að það sé rangt?

Ég hef ekkert séð sem staðfestir það að óeðlilega hátt hlutfall múslíma sé á bótum en ég veit að innflytjendur eiga oft erfitt með að fá vinnu. Ef þú vilt komast að því hversu algengur rasismi er í samfélaginu spurðu þá strætóbílstjóra hvaða menntun þeir hafa. Því hærra sem menntuarstig strætóbístjóra er því meiri rasismi.  Á Vesturlöndum eru ungverskir skurðlæknar og egypskir sagnfræðingar í láglaunastörfum. Ef við ætlum að tala um innflytjendur sem vandræðafólk eigum við þá ekki að skoða þetta líka?

Ef þú vilt komast að því hversu algengur rasismi er í samfélaginu spurðu þá strætóbílstjóra hvaða menntun þeir hafa.

Moskur eru bænahús en ekki herstöðvar

Fyrirhuguð moskubygging hefur verið mikið í umræðunni og sumir halda því fram að í moskum fari fram pólitísk starfsemi. Er munur á bænahúsi og mosku?

Nei. Moska er bænahús. Í stórborgum eru moskur oft líka menningarmiðstöðvar múslíma og þar geta til dæmis verið bókasöfn og lærdómsaðstaða. En það er ekkert hæft í því að moskur séu herstöðvar þar sem aðaláherslan er ráðabrugg um hryðjuverk, þvert á móti. Við höfum verið með mosku í Ármúlanum í 12 ár og við höfum ekki verið fyrir neinum og ekki gert árásir nema í rituðu máli á verstu öfgamennina.

Andstæðingar Islam segja oft að fjölmenningarsamfélag verði aldrei farsælt því múslímar haldi fast í sína eigin menningu og kæri sig ekki um að aðlagast samfélaginu. Er sá lífsstíll sem Islam boðar ekki býsna ólíkur vestrænni menningu?

Lífsstíllinn sem Islam boðar felst í því að vera almennileg manneskja

Lífsstíllinn sem Islam boðar felst í því að vera almennileg manneskja. Vera heiðarlegur, örlátur og góður við gamalmenni og öryrkja. Ég held að vestræn menning hljóti að þola það. Svo er auðvitað bænahald og reglur um fæðu og fatnað og fleira sem tilheyrir því að vera múslími en við erum ekkert að biðja aðra að taka þá siði upp. Reglur Islam eru settar fyrir múslíma ekki aðra.

Skýringargreinar

(1) Ein gerð heimilda sem Islam byggir á eru ritgerðasöfn sem kallast hadith og túlkun þeirra eru mikil vísindi. Söfn Bukharis og Múslím eru veigamest hadith safnanna. Kríterían sem Bukhari notaði var ekki að meta sannleiksgildi frásagnanna heldur rannsakaði hann munnmælin eftir heimildarmönnunum. Hver hadith hefur s.k. “isnad” eða “röð” sagnamanna sem er einhvern veginn svona: Þessi heyrði þennan segja að þessi hafi sagt að þessi eða hinn hafi haft eftir þessum eða hinum að Muhammad eða einhver af hans nánustu fylgismönnum hafi sagt. Sagnamenn bak við hverja einstaka hadith eru oftast í kringum tuginn og spanna í réttri röð 200-250 ár  af munnmælum.

Það sem Bukhari gerði var að rannsaka ævisögur allra sem nefndu hadith við einhvern annan, hvort þeir hefðu getað hist og hvort þeir voru áreiðanlegir sem heimildarmenn. Einnig voru stílbrögð og textar rannsakaðir ofan í kjölinn. Þegar Alan Turing leysti dulmál Þjóðverja í seinna stríði notaðist hann m.a. við tækni í textagreiningu sem var ættuð frá hadith rannsóknum. Hadith eru metnar að vægi eftir því hvort þær eru: 1) Óumdeilanlegar, 2) Sterkar eða 3) Veikar – eftir ákveðnu kerfi. Gagrýnin á Islam frá vesturlenskum grúskurum byggir oftar en ekki á litlum skilning á þessu kerfi og oft velja menn bara það sem þeim hentar. Þetta á líka við múslímska öfgamenn sem geta frekar snúið út úr hadith en Kóraninum.

2) Sira eru munnmæli skrifuð niður nokkuð gagnrýnislaust og litlum sem engum rannsóknum beitt á heimildargildi þeirra sem fór verulega í taugarnar á þeim sem rannsökuðu hadith á vísindalegan hátt. Sira getur nýst við rannsóknir á frumsögu Islam en þá eingöngu með Kóraninn eða hadith sem viðmið.

3) Þeir lagaskólar Islams sem hafa lifað til okkar tíma heita Maliki, Shaf’i, Hanbali og Hanafi, en enginn þeirra hefur gefið út númeraða algilda lagabálka, heldur er Sharia hvers skóla byggð á álitsgerðum sem koma fram í yfir 50-60 þúsund bókatitlum sem margir hverjir eru í 10-20 bindum.  Fyrsta enska þýðingin á orðinu sharia var “discussion on law”.

4) Í Mið-Austurlöndum geisuðu styrjaldir í hundruð ára fyrir Islam og Kristnir menn og Gyðingar tóku þátt í þeim, Býsansveldið  var kristið en stundaði m.a. fjöldamorð á gyðingum og kristnum sértrúarhópum sem ekki fylgdu tvíeðliskenningunum þeirra austur-rómversku.  Persar aftur á móti leyfðu gyðingum að berja á kristum, t.d. þegar þeir tóku Jerúslaem upp úr 615 og fengu þeir að slátra tugþúsundum kristinna manna. Býsanskeisarinn Heraklítus tók Jerúsalem aftur 630 og leyfði þá kristnum að drepa tugþúsundir gyðinga í hefndarskyni.

(5) Eftir að Islam festi rætur var farið á allt annan hátt að í umsátri og töku borga (með fáum undatekningum). Þar sem reglan hafði verið eyðing og útrýming o.þ.h. komu friðarsamningar. Íbúar borga og bændur fengu að halda sínum húsum og jörðum en arabarnir byggðu nýjar borgir eins og Kufa, Basra og Fusat (sem varð Kairó). Umsátrinu um Jerúsalem lauk á friðsaman hátt sem og um Damaskus þar sem múslímar deildu kirkjunum með hinum sigruðu kristnu íbúum. Þessi mikla harka og kúgun sem viðgengst í Mið-Austurlöndum núna er tiltölulega ný af nálinni og meira afsprengi þeirrar aðferðar að „deila og drottna“, en það var aðferð  nýlenduveldanna, sem enn þann dag í dag fjármagna verstu harðstjóranna.