Síðasta sunnudag sagði ég frá reynslu minni af grænmetiskaupum.

Þar sem óskemmdar gulrætur fengust ekki í Krónunni síðasta sunnudagsmorgun fór ég tómhent heim. Um kvöldið var ég svo á ferð með fólki sem átti erindi í Hagkaup í Skeifunni og ég ákvað að fara inn með þeim í von um að ástandið væri betra þar en í ódýrari búðum.

Svona litu gulræturnar út í Hagkaupum í Skeifunni. Þessar lífrænu sko.
Og hér sjáum við verðið. Maður borgar víst fyrir gæðin.

Ég skoðaði ekki alla gulrótarpokana, en þeir sem ég athugaði voru svo illa farnir að ég hefði ekki boðið fjórfætlingi upp á innihaldið. Ég vatt mér að næsta starfsmanni og sýndi honum einn pokann. Hann gaf þá skýringu að strákurinn sem sæi um grænmetið væri veikur en aðrir starfsmenn hefðu reynt að halda grænmetisbarnum í horfinu.

Ég fór aftur í grænmetisdeildina í von um að finna nýrri gulrætur. Skoðaði í leiðinni visið salat, poka með afskorinni basiliku sem var farin að mygla, bakka með mismygluðum jarðarberjum og paprikur og lauk í misslæmu ástandi. Fann  svo gulrætur sem litu ekki jafn hræðilega út og þessar lífrænu og hefðu vel getað nýst sem svínafóður.

Skárri gulræturnar voru í djúpum, ógegnsæjum bökkum. Í sumum þeirra voru  myglublettir á efstu gulrótunum. Maður getur bara ímyndað sér hvernig þær sem voru neðar í pakkningunni litu út.

Þar sem ég stóð og var að skoða grænmetið kom pilturinn sem ég hafði tilkynnt um ónýtu gulræturnar og spurði hvort meira væri skemmt. Ég sýndi honum bakkann á myndinni hér vinstra megin. Hann tók upp síma og ég heyrði hann segja eitthvað um að sig vantaði aðstoð. Gott mál, hugsaði ég, hér ætla menn greinilega að bregðast fljótt við og fjarlægja ógeðið.

Ég skoðaði svo prjónagarn á meðan ég beið eftir samferðafólki mínu. Þau tóku sér góðan tíma og þegar þau höfðu lokið erindum sínum, 35 mínútum síðar, gekk ég aftur yfir í grænmetisdeildina. Ónýtu vörurnar höfðu þá enn ekki verið fjarlægðar. Ég veit ekki hvort starfsmaðurinn sem ég talaði við hefur verið að óska eftir aðstoð við brýnna verkefni eða hvort hann fékk ekki mann í verkið.

Á mánudagsmorgni fór maðurinn minn í Hagkaup á Eiðistorgi til að kaupa gulrætur. Hann kom heim með samskonar bakka og þessa sem ég skoðaði í Skeifunni. Líklega  hefur grænmetisstrákurinn á Eiðistorgi verið frískur því gulræturnar litu ágætlega út.

En þegar ég opnaði umbúðirnar komu gæðin í ljós. Efsta lagið segir ekki mikið, raki hafði safnast fyrir í bakkanum og flestar gulræturnar voru orðnar slepjulegar og endarnir á þeim orðnir glærgulir.

Ég er hinn mesti nýtingarfasisti og hef oft bjargað grænmeti úr ruslagámum stórverslana enda oft lítill eða enginn munur á því sem neytendum er boðið upp á að kaupa á fullu verði og því sem fer í gámana. Ég hefði ekki hirt lífrænu gulræturnar sem ég sá í Skeifunni á sunnudagskvöldið upp úr ruslagámi, þær voru ekki nýtanlegar í neitt nema lífrænan áburð, en ég notaði sömu aðferð við Eiðistorgsgulræturnar og ég hef notað til að bjarga nothæfu grænmeti sem kapítalið vill frekar henda en selja með afslætti.

1  Látið svalt vatn renna á gulræturnar. 2 Flysið ysta lagið af þeim og skerið skemmdir burt. 3 Skolið aftur. 4 Þerrið gulræturnar með eldhússpappír og dreifið úr þeim á pappír eða þurrum klút. 5 Látið þær þorna í um það bil hálftíma og pakkið þeim svo í ílát með eldhússpappír í botninum og á milli laga.

Ef á ekki að nota gulræturnar innan tveggja daga er best að skera þær strax niður, snöggsjóða og frysta. Gámagrænmeti borðar maður aldrei hrátt. Það má vel vera að sé óhætt að borða Hagkaupsgulræturnar hráar fyrst þær hafa ekki komist í snertingu við neitt annað en ég ætla ekki að taka þá áhættu.