Þegar ég tala um grænmetismarkaðinn á Íslandi sem skipulagða glæpastarfsemi er alltaf einhver sem heldur að ég sé að fara með gamanmál. En mér er fúlasta alvara. Á Íslandi getur maður reiknað með að grænmeti sé farið að skemmast 2-3 dögum eftir að maður kaupir það ef það er þá ekki ónýtt í búðinni. Suðrænir ávextir skemmast áður en þeir þroskast, af því að þeir eru ekki geymdir við rétt hitastig hjá birgjum og/eða í verslunum. Verðið er oftast mun hærra en í nágrannalöndunum og verðmerkingar til skammar og það á reyndar við um mun fleiri vöruflokka.

Hversvegna láta Íslendingar bjóða sér þetta? Ég hef rætt þetta við nokkuð marga undanfarið og sumir halda hreinlega að grænmeti eigi ekkert að geymast nema 2 daga. Ég hef meira að segja séð því haldið fram að ef grænmeti geymist lengur en 2-3 daga sé það merki um að það hafi verið úðað með rotvarnarefnum. Þetta er bara vitleysa. Langflestar grænmetistegundir geymast í minnst viku ef geymsluskilyrðin eru góð. Það eru ekkert annað en vörusvik að selja pakkningar með gömlum vörum því ef viðskiptavinurinn getur ekki þreifað á grænmetinu og skoðað það frá öllum hliðum þá hefur hann heldur engar forsendur til þess að meta það hversu lengi varan geymist. Verslunareigendur eiga því að sjá til þess að vörur séu fjarlægðar áður en þær eru komnar á síðasta neysludag eða að öðrum kosti að merkja það sem er innpakkað með dagssetningum og bjóða þær vörur á lægra verði þegar þær eru komnar á síðasta snúning.

Neytendur ættu ekki að láta bjóða sér upp á ónýtar vörur og lélega þjónustu. Jafnvel þótt það svari ekki kostnaði að aka langa leið til að skila ónýtum vörum (fyrir utan mengunina, tímasóunina og ergelsið) geta neytendur samt gripið til sinna ráða til að verjast þessum ósóma. Við getum til dæmis varað hvert annað við ónýtum vörum með því að segja frá reynslu okkar á samfélagsmiðlum.

Þessa kirsuberjatómata keypti ég í Bónusbúðinni í Súðavogi í gær. Þeir eru seldir í plastöskjum svo maður getur ekki skoðað hvern og einn en með því að velta öskjunni á alla kanta og virða hana vel fyrir sér er hægt að draga úr líkunum á því að maður kaupi pakkningu með ónýtum tómötum.

Þetta er ekki einsdæmi. Í dag fór ég í Krónuna vestur á Granda. Ég ætlaði að kaupa gulrætur en það sem er í boði þar eru smágulrætur, seldar í plastpokum, allar orðar slepjulegar að utan. Í sumum pokunum voru gulrætur sem voru svo illa skemmdar að þær voru orðnar að mauki. Ég var ekki með myndavél en  tilkynnti starfsmanni að ég myndi taka með mér myndavél framvegis.