Kvennablaðið leitar að sálmaskáldi því sem svo orti og aðrar upplýsingar um þennan sálm, Himnasíminn, eru einnig vel þegnar. Mér skilst að hann hafi verið sunginn við sama laga og Fósturlandsins freyja en síðasta lína hvers erindis með tilbrigði.

Nú er náðartími,
notum hann sem ber.
Hér er himnasími
handa mér og þér.
Og hann kostar ekkert,
opinn dag og nótt.
Komist þú í kröggur,
kalla þá í símann fljótt!

Kór:
Nú er náðartími,
notum hann sem ber.
Hér er himnasími,
handa mér og þér.
Góður Guð oss hefir
gefið síma þann,
og við sjálfan Jesúm
oft vér tölum gegnum hann.

Móti von og vilja
verði símaslit,
þú skalt það ei dylja
það er ekkert vit.
Bilun þá að bæta
bið þú Guð í trú,
að við æðri veröld
aftur samband fáir þú.

Tímans tönn ei nagað
traustan síma fær,
svo er honum hagað,
hann þér yndi ljær.
Ef þú í hann talar
óðar færðu svar,
af því að hann liggur
upp til himna-miðstöðvar!