Frelsarinn ljúfi féll í trans,
fordóma á kýli stingur.
Velur hann meik og varaglans,
vangablöss, kjól og glingur.
Dansar á röndum regnbogans,
ráðvandir krefjast lausnar hans,
Kristur mun klæðskiptingur.

Át hán af skökku skilningstré?
karl bæði og kona, hvorki/né,
hver á sinn kross að bera. 
Háni sé dýrð og lof og laun,
láfa eða skaufi ei býttar baun,
Kristur er kynjavera.

Fjölbreytileikans fagra von
frelsarinn Jesús glaður,
síðskeggjað man með silikon,  
svo er hann fullkomnaður.
Biskupinn sátt við Babýlon,  
blessi hana Herrans dóttir/son,
Kristur minn kynáttaður.

Hinsegin át af helgu tré,
karl bæði og kona, hvorki/né,
hver á sinn kross að bera. 
Háni sé dýrð og lof og laun,
láfa eða skaufi ei býttar baun,
Kristur er kynjavera.

Fríðum nipplum er fljóðið prýtt
frökk skal hún hömlum létta.
Tekur af kurt – þótt kveði skítt –
í kirkjunnar hönd útrétta.
Loks mun hún skera skeggið sítt,
skilgreinir kyn sitt upp á nýtt,
Kristur mín kynleiðrétta.

Jesús hán er vort jólatré
karl bæði og kona, hvorki/né,
hver á sinn kross að bera. 
Háni sé dýrð og lof og laun,
láfa eða skaufi ei býttar baun,
Kristur er kynjavera.

Hinsegin, trans og bæ og bí
brátt mun þeim enginn vandi
við jaðar vors heims að híma – því
Hán er nú þar á randi.
Sköpum má renna, úr og í,
upprætir norm og bænarí
Kristur mitt kynflæðandi.



Þessu tengt: