Tungumál breytast í tímans rás, það er staðreynd sem verður ekki umflúin. Og það er alveg rétt hjá honum Eiríki Rögnvaldssyni að það þjónar engri málverndarstefnu að þjösnast á fólki vegna málfars þess. En þótt tungumál hljóti að breytast finnst mér Eiríkur stundum of umburðarlyndur gagnvart því sem ég hika ekki við að kalla málfarshroða og ambögur. Við getum ekki komið í veg fyrir þróun tungunnar frekar en að við getum hætt að eldast, en við reynum nú samt að hægja á hrörnun líkamans. Að sama skapi vilja margir reyna að hægja á þróun íslenskunnar, eða eigum við að tala um stökkbreytingar fremur en þróun?

Ég er að sumu leyti sammála Eiríki. Það er eðlilegt að tungan breytist og meirihlutinn mun alltaf ráða úrslitum um það hvað telst tækt málfar og hvað ekki. Að mínu viti er lýðræðinu mikilvægt að sem flestir tjái sig og óhóflegar kröfur til málfars geta dregið úr löngun fólks til að koma skoðunum sínum á framfæri. Það er skelfilega vont samfélag sem notar gagnýni á málfar sem barefli til að halda ákveðnum hópum niðri og það eru ekki alltaf skýr skil á milli árása og réttmætra ábendinga. Auk þess efast ég um að nokkur hafi leyfi til þess að reyna að stjórna málfari annarra. Þegar allt kemur til alls er tungumálið ekki eign einhverrar elítu heldur er það háð víðtæku samkomulagi hvað telst rétt mál.

Í hina röndina langar mig nú samt að sem flestir séu sammála mér um hvað skuli teljast gott málfar og hvað ekki, rétt eins og mig langar að sem flestir sniðgangi tilteknar stjórnmálahreyfingar þótt ég vilji ekki banna þær. Ég aðhyllist ákveðna íhaldssemi hvað íslenskuna varðar, ekki bara vegna þess að mér finnst málið dýrmætt í sjálfu sér, heldur líka af því að það eykur þær þjáningar sem stéttaskipting hefur í för með sér ef auðvelt er að ráða félagslega stöðu af málfari fólks. Að sama skapi vil ég sporna gegn stofnanamálfari, ekki bara vegna þess hve það er ljótt og leiðinlegt heldur líka af því að ég held að fólk sé ólíklegra til að kynna sér gögn og standa í samskiptum við stofnanir þegar málfarið sem einkennir þær er framandlegt. Ég er hrædd um að það bitni verst á fólki með litla menntun ef stjórnsýslan er óárennileg af þessum sökum.

Ég dreg mjög í efa ágæti málverndarstefnu sem felst í því að réttlæta málfarsbreytingar í stað þess að sporna gegn þeim. Ég hef ekki áhyggjur af því að málið deyi út – það verður áfram til tungumál sem við getum kallað íslensku eftir 200 ár þótt það verði sennilega nokkuð langt frá þeirri íslensku sem mín kynslóð þekkir og notar. En ef við hættum að hvetja til íhaldssemi þá verður málfar þeirra viðkvæmustu í samfélaginu fljótt áberandi frábrugðið þeirri íslensku sem menntafólk innrætir börnum sínum. Málið er nefnilega ekki bara samskiptatæki, það er líka verkfæri listamanna og vísindafólks. Og það sem meira máli skiptir, tungumálið – og þá ekki síður ritmálið – er valdatæki sem má nota, og er notað, til að auðvelda aðgengi tiltekinna hópa að lífsgæðum, þekkingu, áhrifum og völdum. Og það vita þeir ríku, þeir menntuðu og þeir voldugu. Stéttskipt málfar mun koma þessum hópum ákaflega vel.

Við eigum ekki tungumálið og höfum þar með engan rétt til að reyna að stjórna því. Á hinn bóginn ber okkur skylda til að stuðla að samfélagi þar sem allir hafa jöfn tækifæri. Það verður ekki gert með því að reyna að uppræta hugmyndir um gott og vont málfar. Það er nefnilega jafn vonlaust og að ætla að koma í veg fyrir allar breytingar á málinu.Þessu tengt: