Þegar ég var barn var stundum keyptur brjóstsykur. Maður fékk einn mola í senn og beiðni um „brjóstsyk“ var svarað með vangaveltum um uppruna orðsins og tilraunum til að telja strásykur og hveiti. Það þótti mér skemmtilegt. Nú orðið tala fáir um mola heldur biður fólk um einn brjóstsyk eða marga brjóstsyka. Ekki get ég sagt að þessi meðferð á ágætu orði gleðji mig en þegar margir sameinast um vitleysuna málfarsbreytingu verður hún rétt. Við sitjum því uppi með þennan hroða þessa málnotkun, eins og hvert annað náttúrulögmál. Ég hélt þó lengi að nefnifall eintölu væri brjóstsykur en það er engan veginn á hreinu sbr þennan tengil.
Hvað segir máltilfinning þeirra sem tala um brjóstsyk um nefnifallið? Er það brjóstsykur, brjóstsyk eða eitthvað annað? Nefnifall fleirtölu er allavega brjóstsykar ef marka má þessa mynd sem einn netverja benti á á málfarsspjalli Eiríks Rögnvaldssonar á Facebook.
Mig langar líka að heyra álit fólks á framburði og réttum rithætti. Það virðist alllangt síðan ritháttur fór að skolast til því þann 4. maí. árið 1961 spurði fréttamaður mbl viðmælanda sinn hvort hann hefði keypt brjóstsigg. Ég taldi sem barn að þeir sem notuðu þolfallið án endingar bæru orðið fram með k-hljóði en kannski var það landshlutabundið. Þegar ég var 11-12 ára kom út skemmtileg matreiðslubók eftir Sigrúnu Davíðsdóttur. Þar talaði hún áreiðanlega um brjóstsigg, hugsanlega brjósigg. Það er útilokað að segja til um hvernig hún hefur borið orðið fram en ég er í það minnsta nokkuð viss um að hún skrifaði venjulegt -i og tvöfalt g í stað y og k. Gúggull vinur minn finnur líka nokkur dæmi um ritháttinn brjóssik.
Er einhver ástæða til að halda í rithátt sem gefur vísbendingu um upphaflega merkingu orðiðsins eða er brjóssigg orðið rétt heiti á þessari tegund sælgætis, og ætti þá að stafa það brjóstsigg, brjóssigg, brjósigg eða brjóssik? Það verður áhugavert að sjá hvaða rithátt Árnastofnun verður fyrst til að viðurkenna. Enginn fyrrgreindra er enn sem komið er finnanleg á þessum vef.
Ég varpaði þessum spurningum fram á málspjallinu. Umræðurnar má sjá hér. Rétt er að taka fram við þá sem vilja blanda sér í umræðuna að dómar sem ég hef þar uppi um málfarshroða og málfarsvitleysur eru ekki umbornir á þeim vettvangi enda virðist ritstjóri síðunnar þeirrar skoðunar að gott og vont málfar sé hvergi til nema í höfðum kverúlanta.