Orðskrípið „gæsun“ hefur valdið mér töluverðu hugarangri í mörg ár. „Steggjun“ er ekki skárra. Hver er eiginlega hugsunin á bak við orðalagið að „gæsa“ konuna og „steggja“ karlinn? Ekki sú að halda veislu fyrir „gæsir“ og „steggi“ heldur að breyta hjónaleysunum í gæs og stegg? Hvernig beygist annars sögnin að gæsa? Gæsa, gæsaði, gæsað? Eða gæsa, gæsti, gæst? Síðari kosturinn er skömminni skárri.
Sömuleiðis hefur menningarfyrirbærið busavígsla víst breyst í „busun“ og nýnemar eru nú „busaðir“ við upphaf framhaldsskólagöngu sinnar.
Má af þessu ráða að eftir nokkur ár verði hjónavígsla „hjónun“ og nýgæst konan og nýsteggjaður karlinn verði ekki gefin saman heldur „hjónuð“. Prestsefnið verður „prestað“ og prestsvígslan sjálf kallast þar með „prestun“. Útskriftarathöfn stúdenta verður „stúdun“ en þar verða nýútskrifaðir námsmenn stúderaðir.
Sjálf er ég steinhætt að halda jól. Ég „jóla“ í stað þess að halda jólaboð og framkvæmi „jólun“ á híbýlum mínum í stað þess að skreyta húsið. „Afjólun“ fer svo fram 7. janúar ár hvert.