Málfarsfasismi er ekki í tísku þessa dagana. Það merkir þó ekki að málinu sé nein hætta búin. Á okkar tímum geta allir verið málverndarsinnar því hin nýja málverndarstefna byggir á þeirri hugmynd að ekki sé til rétt eða rangt mál, hvað þá góð eða vond íslenska. Íslenskan er, samkvæmt ný-málverndarstefnunni, einfaldlega það mál sem talað er í landinu á hverjum tíma. Íslenskan er allskonar og engin ástæða til að setja út á það þótt málfar einhvers samræmist ekki málkennd afturhaldsdurga. Málvernd felst öllu heldur í því að finna réttlætingar á því sem málfarsfasistar kalla „málvillur“ og útvega fólki afsakanir fyrir að vanda ekki málfar sitt. Þannig mun fólk halda áfram að tala íslensku í stað þess að taka upp ensku. Skítt með það þótt íslenskan verði óþekkjanleg eftir 100 ár, bara ef verður ennþá til eitthvert tungumál sem hefur næga sérstöðu til að hægt sé að kalla það íslensku.

Hér getur að líta málsýni úr útbreiddum íslenskum fjölmiðli.

Sem málfarsfasisti myndi ég tala um „beygingarvillu“, reikna með að blaðamaðurinn hafi ekki ætlað að taka upp nýja beygingu heldur gert mistök og leggja til að miðillinn ráði prófarkarlesara. Sem ný-málverndarsinni reikna ég með að þetta sé framlag blaðamannsins til eðlilegrar málþróunar. Þá bendi ég á að nokkur nöfn, t.d. Sigurður og Magnús, hafa tvennskonar eignarfall. Vinkona mín er Sigurðardóttir en albróðir hennar Sigurðsson. Af hverju ekki alveg eins Friðþjófar eins og Sigurðar eða Magnúsar?

Sem málfarsfasisti sting ég upp á því að þeir Friðþjófar sem álíta sig konur beygi nafn sitt á sama hátt og Ingileif, þ.e. Friðþjóf – Friðþjóf(u) – Friðþjóf(u) – Friðþjófar en að blaðamenn og aðrir áhrifavaldar beygi karlkynsafbrigði nafnsins með hefðbundnum hætti. Sem ný-málverndarsinni mun ég hvetja son minn til að skrá nafn sitt Hilmararson.


Þessu tengt: