Fer maður á berjamó eða í berjamó?

Oft var þyrlan út á sjó
upp úr háska fólkið dró
en aftursætið er víst nóg
ef Áslaug vill á berjamó.

#nógaðgerahjáGæslunni

Posted by Gísli Ásgeirsson on Miðvikudagur, 26. ágúst 2020

Þessa vísu sá ég á Facebook síðu Gísla Ásgeirssonar í dag og það rifjaði upp fyrir mér að þegar ég var barn kunni ég kvæði sem heitir „Gunna á berjamó“. Það er frekar vont kvæði en titillinn segir líklega eitthvað um notkun forsetninga.

Ég hef alltaf farið í berjamó og held að afi og amma hafi líka talað um að fara í berjamó. Ég spurði út í þetta á Facebook og allir sem hafa svarað segjast nota „í“. Ætli það að fara á berjamó sé kynslóðabundið, landshlutabundið eða bundið við skáldskap?

Ég hallast helst að því að það að fara á berjamó sé tengt því að afla nytja þótt þeir hinir sömu geti verið „algerlega úti í móa“ þegar ekki stendur til að tína ber. Menn fara á rjúpu þegar þeir fara á veiðar en bjóða í rjúpu þegar þeir ætla að elda hana. Flestir tala um að fara á veiðar og á vertíð, menn fóru t.d. á síld – í merkingunni síldarvertíð. Sömuleiðis förum við á sölvafjöru og áður fyrr gengu menn á reka og á hnotskóg.

Hættum við að fara á berjamó þegar það hætti að skipta máli upp á afkomu fólks og varð í staðinn afþreying? Eða hefur það alltaf verið minnihluti sem fór á berjamó?

Það er annars áhugavert að hægt er að róa á grásleppu eða steinbít en stangveiðmenn fara hinsvegar í silung eða í lax. Ætli hugsunin sé ekki sú að menn fari á sjó á báti en standi með stöngina í ánni?

Þessu tengt: