Hér eru nokkur dæmi um það málfar sem haft er fyrir verðandi lögfræðingum við virtustu menntastofnun landsins. Þetta eru bara örfá sýnishorn. Rétt er að geta þess að eina skriflega verkefnið sem ég þurfti að skila (fyrir utan nokkur hópverkefni) var lokaritgerðin mín.

16. nóv. 2014
Sérfræðingaútskýring á þeirri hugmynd að allir menn eigi að njóta jafnra borgaralegra réttinda:

Hver persóna á að hafa jafnan rétt á ítrasta kerfi jafnra frelsisréttinda sem samræmst getur sambærilegu kerfi frelsisréttinda fyrir alla.

Á ensku hljóðar þetta svo

Each person is to have an equal right to the most extensive total system of equal basic liberties compatible with a similar system of liberty for all.

Ég veit ekki hver á heiðurinn af þýðingunni sem er að finna á glæru sem notuð er við kennslu við Lagadeild Háskóla Íslands.

***

8. mars 2015

Í lögfræði eru eignir ekki söluhæfar eða seljanlegar, heldur „tækt andlag sölu“.

***

9. mars 2015

Úr verkefni sem er lagt fyrir laganema við HÍ:

Áreksturinn varð við mætingu tveggja bifreiða.

***

14. október 2015

Úr verkefni:

 Þegar Stefán reyndi að kvarta yfir þessu við sveitarfélagið lenti hann á sömu hurðum og síðast.

***

11. nóv 2015
Kannast hlustendur við orðasambandið „að greiða verð af hendi“?

***

18. nóv. 2015

Úr gömlu prófi:

… komust þeir að þeirri niðurstöðu að Þ hafi haft skerta andlega starfsemi þegar samningurinn var undirritaður …

***

19. nóv. 2015

Úr glósum frá kennara:

[Það varðar sektum] ef maður rekur löggilta iðngrein án þess að hafa meistara til forstöðu hennar.

***

21. nóv 2015

Úr glósum frá kennara:

Starfsmaður er ekki vanhæfur enda þótt hann hafi áður starfað saman með aðila málsins.

***

28. nóv 2015

Laganemar við HÍ eru sjaldan eða aldrei beðnir að færa rök fyrir máli sínu, rökstyðja niðurstöður sínar eða gera grein fyrir þeim rökum sem liggja áliti þeirra til grundvallar. Hinsvegar eru þeim iðulega gefin fyrirmæli um að „svara á rökstuddan hátt“.

***

19. jan 2016

Lögfræðingar tala aldrrei um flugvélar og þyrlur eins og annað fólk. Það er mun fínna að tala um „loftför“.

***

30. janúar 2016

Á lögfræðingamáli eru fasteignir og lausafé „líkamleg verðmæti“.

***

1 Febrúar 2016

Úr verkefni sem er lagt fyrir laganema við HÍ:

… náðist þverpólitísk sátt á Alþingi að breyta búvörulögum þannig að frá og með árslokum 2017 myndi greiðslumark samkvæmt IX. kafla […] falla niður. Það sama myndi gerast fyrir greiðslumark samkvæmt X. kafla …

***

21. mars 2016

Úr verkefni sem er lagt fyrir laganema við HÍ:

Dóra dauðbrá og bakkaði aftur á bak til að koma í veg fyrir að hann myndi lenda fyrir bílnum, en datt þá aftur fyrir sig og lenti kylliflatur á götunni.

***

21. mars 2016

Úr glósum frá kennara:

Þegar starfsorkuskerðing hefur nokkurn varanleika …

***

17. apríl 2016

Enginn getur orðið lögfræðingur nema hann komi „að breyttu breytanda“ fyrir tvisvar á hverri blaðsíðu.

***



Og nokkur málsýni úr dómum:

Stefnandi hlaut varanlegar líkamlegar afleiðingar af slysinu. Í matsgerð læknanna … kemur fram að þær helstu séu lömun í ganglimum … upphafin stjórnun hægðarlosunar, …

Úr hrd 69/2015

***

Stefnandi hafi orðið fyrir verulegu tjóni vegna vitrænnar skerðingar á höfði, …  

(Hd. Reykjavíkur 13. okt. 2000)

– Heppilegt að hann skuli ekki hafa orðið fyrir vitrænni skerðingu á fæti.



Þessu tengt: