Ég er svo háöldruð að ég man þegar fólk tókst á við vandamál og talaði saman. Núorðið tekst enginn á við neitt heldur eru vandamál og verkefni „ávörpuð“. Og þrátt fyrir allar þessar ávarpanir talar enginn við neinn heldur á fólk samtal.
Og ég, sem vil helst að allt sé rökrétt, hugsaði sem svo að hér vær eilítill merkingarmunur – að eiga samtal gæfi til kynna jafnvægi í samtalinu, gagnkvæma hlustun. Svo heyrði ég heilbrigðsráðherra tala um að „eiga samtal við veiruna“. Væntanlega mun heilbrigðisráðherra ávarpa kórónuveiruna með tilhlýðilegri virðingu. Ég hlakka til að heyra hverju veiruskrattinn svarar.