Ég fnæsti dálítið á Vísi þegar ég sá þessa frétt. Henni hefur verið breytt en upphaflega var textinn svona:
Þessi frétt er í fyrsta lagi hroðalega illa skrifuð. Fólk er ekki sjálfráðasvipt en það getur verið sjálfræðissvipt. Verra er þó að nafn konunnar er ekki rétt beygt. Nafnið Karen er að vísu beygt á tvo vegu en engu að síður er venjan sú að halda sig við eina beygingu. Hér er nafnið beygt á mismunandi hátt í fyrirsögn og undir myndinni. Ég veit engin dæmi þess að nafnið Björk sé ekki Bjarkar í eignarfalli.
Mér var bent á að tilkynningin hefði komið svona frá lögreglunni svo það væri ekki við Vísi að sakast. Ég skrifa nú reyndar ekki undir það að fjölmiðill beri enga ábyrgð á því hverskonar málvillur og ambögur hann birtir en lögreglan ber þó mesta ábyrgð á óþarflega miklum persónuupplýsingum og það er öllu verra en vont málfar.
Ég skil að löggunni geti þótt rétt að taka fram að fólk sem lýst er eftir sé ekki grunað um afbrot (þótt það sé reyndar sjaldan tekið fram) en hver er tilgangurinn með því að segja alheiminum að manneskjan hafi verið svipt sjálfræði og að hún hafi strokið af geðdeild? Er ekki nóg fyrir lesendur að vita að konunnar sé leitað? Það er líka óþarfa virðingarleysi að nota orðið horuð. Þetta orð er venjulega notað um búfénað, eða í niðrandi merkingu um manneskjur. Síðar kom fram í fjölmiðlum að konan þjáist af lystarstoli og vegi aðeins 45 kg. Hér hefði mátt segja áberandi grönn, undir kjörþyngd, eða bara vegur aðeins 45 kg.
Það hlýtur að teljast einkennilegt af stofnun sem er svo umhugað um persónuvernd, að hún flokkar jafnvel beinar lýsingar á atburðum sem fjallað hefur verið um í fjölmiðlum sem trúnaðarmál, að telja nauðsynlegt að gefa allar þessar upplýsingar um veika manneskju sem er ekki í neinni aðstöðu til að sækja rétt sinn gagnvart yfirvaldinu.
Ég ætlaði að láta mér nægja að tuða aðeins yfir þessu í umræðukerfinu en þegar ég sá þessa frétt skipti ég um skoðun.
Er ég ein um þá skoðun að það sé eitthvað athugavert við þennan fréttaflutning af hálfu lögreglunnar og/eða fjölmiðilsins? Hvað finnst ykkur?